Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 17:24:21 (6381)

1996-05-21 17:24:21# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, GÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[17:24]

Guðni Ágústsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Vegna spurningar hv. þm. vil ég segja það að ég sagði í ræðu minni að ég hefði verið talsmaður þess í mínum þingflokki að sú leið væri farin sem hann nefndi í báðum tilvikum. En í lýðræðislegri baráttu verður maður oft undir. Ég varð undir í þessu máli og hér stendur til að afgreiða það í vor. Um það fékk ég engu ráðið.

Hins vegar heyrði ég að hæstv. félmrh. boðaði í dag að heimsendir væri ekki í nánd. Hæstv. ráðherra sagði að jafnvel gæti hann og ætti hann það eftir í ráðherratíð sinni að standa að breytingum á þessu frv. eða þeim lögum sem hér verða sett, kannski á næsta þingi. Eða ég skildi hann svo í dag.

Ég held reyndar að það sé ekki hlutverk stjórnarandstöðunnar að standa í illindum, en í íslenska þinginu hefur þetta tíðkast nokkuð. Ég hef tekið þátt í því í fjögur ár.