Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 18:30:56 (6394)

1996-05-21 18:30:56# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[18:30]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Það er satt best að segja mjög merkilegt að sjá inn í þann hugarheim sem birtist hér hjá mörgum stjórnarliðum, hverjum á fætur öðrum, þeim sem á annað borð fara að tala hér í umræðunum loksins þegar komast í gang einhverjar efnislegar umræður. Má þá ekki á milli sjá hver er vaskari í yfirlýsingum, hæstv. félmrh. sjálfur, eða einstakir hv. þm. stjórnarliðsins eins og sá sem talaði hér síðast. Það stendur ekki á ásökununum í garð verkalýðshreyfingarinnar, þetta er allt henni að kenna. Það er t.d. algjörlega henni að kenna að það skuli vera ágreiningur um þessi mál. Málin eru svo einföld í hugum hv. stjórnarsinna sem hér eru að reyna að þröngva þessari löggjöf í gegnum Alþingi og yfir verkalýðshreyfinguna í andstöðu við hana. Henni er nær, þetta er allt henni að kenna. Hún sleit samráðinu o.s.frv. Einnig, herra forseti, er mjög merkilegt að hlusta á ræður af því tagi sem hér var flutt síðast og reyna að leita svara við því hvernig þessir menn upplifa eða skilja hlutverk verkalýðshreyfingarinnar. Hver halda menn að sé tilgangur verkalýðsfélaga og markmiðið með því að launafólk skipuleggi sig yfirleitt í verkalýðsfélögum? Það kom fram hér í máli síðasta ræðumanns að verkalýðshreyfingin hefði m.a. dugað vel í því að halda niðri launum. Það voru notuð þau orð ,,að halda niðri launum``. Er það virkilega svo að stjórnarsinnar telji það megintilganginn með skipulagðri verkalýðsbaráttu að halda niðri launum? Hafa þeir ekki áttað sig á því að það er alveg öfugt? Grundvallarhugsunin á bak við það að verkafólk skipar sér saman í félög er til þess að efla samtakamátt sinn til að berjast fyrir bættum kjörum. Í hinu orðinu eru menn svo fljótir að kenna verkalýðshreyfingunni um að lífskjörin séu ekki nógu góð á Íslandi, eins og hæstv. félmrh. hreytti út úr sér í sjónvarpsviðtali þegar hann sagði að þessum mönnum væri nær að snúa sér að því að bæta kjörin. Ég held, herra forseti, að það þurfi að fara í allmiklu ítarlegri umræður um þessi mál og ræða þetta betur við hv. stjórnarsinna til að reyna að leiða þeim fyrir sjónir hver er grundvallartilgangurinn með verkalýðsbaráttu í landinu.