Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 22:17:11 (6399)

1996-05-21 22:17:11# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[22:17]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vona að hæstv. félmrh. sé --- hann er úti í salnum, já. Ég sé hans göfugu ásjónu birtast þegar hann snýr sér við.

Herra forseti. Eftir að hafa fylgst með þessari umræðu hér í dag og reyndar öllum þessum málum á undanförnum sólarhringum og tveimur vikum eða svo eru mér efst í huga þær miklu ógöngur sem hæstv. ríkisstjórn og hæstv. félmrh. einkum og sér í lagi er kominn í í þessu máli. Staðreyndin er auðvitað sú að hæstv. félmrh. er kominn út í horn. Hæstv. ráðherra hefur látið nota sig til verka sem menn hafa enga sannfæringu um að séu honum að skapi. Í raun birtist þetta manni þannig að hæstv. ráðherra sé orðinn handbendi eða verkfæri afla og sjónarmiða í landinu í pólitík sem eru auðvitað mjög kuldaleg örlög þessum ágæta manni, hæstv. félmrh. Eins og stundum gerist þegar menn eru komnir út í horn og eru orðnir rökþrota hreyta þeir ýmsu út úr sér sem er þeim ekki til framdráttar. Og það hefur trekk í trekk hent hæstv. félmrh. á undanförnum dögum, t.d. í hvefsnislegum viðtölum við fjölmiðla, að segja hluti sem betur væru ósagðir.

Ég varð satt best að segja, herra forseti, alveg furðu lostinn þegar ég heyrði og sá í sjónvarpsfréttum eitt kvöldið fyrir nokkru síðan hæstv. félmrh. hreyta því út úr sér að forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar væri nær að snúa sér að því að bæta lífskjörin í landinu. Voru þá loksins fundnir sökudólgarnir sem lengi er búið að leita að sem valda því að lífskjörin eru ekki nógu góð. Það er ekki ríkisstjórnin sem Framsfl. hefur meira og minna setið í sl. þrjá áratugi eða önnur slík öfl, það eru ekki vinnuveitendur í landinu, óstjórn í efnahagsmálum eða óáran í náttúrunni eða annað því um líkt sem gerir það að verkum að lífskjörin eru ekki nógu góð á Íslandi. Nei, það eru þessir verkalýðsforkólfar sem eru að brúka kjaft við hæstv. ráðherra. Þeir hafa ekki staðið sig í stykkinu að hækka launin. Og þegar þeir leyfa sér t.d. þau ósköp að gagnrýna það hvernig hæstv. félmrh. lætur gera skoðanakannanir um þeirra mál og túlkar þær svo að vild sinni í fjölmiðlum, þá eru þetta svörin. Þetta, herra forseti, er til marks um rökþrota mann sem er úti í horni og er farinn að hreyta út úr sér hlutum sem betur væru ósagðir.

Annað kostulegt tilvik af þessu tagi var þegar hæstv. ráðherra var spurður að því hvað honum þætti um áform verkalýðshreyfingarinnar um að leita réttar síns hjá Alþjóðavinnumálastofnuninni. Hæstv. ráðherra fagnaði því alveg sérstaklega. Hann var hreykinn af því, hæstv. ráðherra, að nú stæði til að stefna honum fyrir alþjóðlegan dómstól eða samtök og talaði um að það væri fínt ef verkalýðshreyfingin vildi gera sér þann greiða að gera frumvörpin sín heimsfræg.

Þriðja dæmið af þessu tagi var þegar hæstv. ráðherra var spurður álits á áliti Lagastofnunar háskólans. Þá kom hæstv. ráðherra með einhverja þá kostulegustu tölfræði sem ég hef lengi heyrt. Hann taldi að það hefðu verið tólf atriði sem Lagastofnun hefði verið að fjalla sérstaklega um og af því að ekki nema tvö af tólf hefðu verið talin ólögleg eða brot á alþjóðlegum skuldbindingum eða stjórnarskrá, þá væri þetta bara mjög fínt, þetta væri mjög gott hlutfall. Hæstv. ráðherra var mjög hreykinn, taldi þetta fína útkomu, góða einkunn. Ef lagabrotin eru bara í nægilega lágu hlutfalli, ef stjórnarskráin eða alþjóðlegir samningar eru ekki brotnir nema í svona 12--20% tilvika, er það mjög gott. Það er vel sloppið að mati hæstv. ráðherra og hann er hreykinn af því að standa þannig að málum. Gaman væri að vita hvað hæstv. ráðherra miðar við sem falleinkunn. Hefðu það verið fjögur eða fimm af tólf væri það þá orðið krítiskt? Hæstv. ráðherra er kominn út í ógöngur af þessu tagi og hefur látið ýmislegt flakka, þar á meðal í umræðunum í dag. Ýmsir af skjaldsveinum hæstv. ráðherra, þeir stjórnarliðar sem hafa tjáð sig, með einni undantekningu þó og situr sá í forsetastóli nú, hafa verið í svona málflutningi eins og t.d. hv. stuðningsmaður hæstv. félmrh., hv. þm. Kristján Pálsson, sem kom og hældist um hvað verkalýðshreyfingin hefði staðið sig vel á undanförnum árum í þjóðarsáttarsamningum að halda niðri launum eins og það væri alveg sérstakt hlutskipti og verkefni verkalýðshreyfingarinnar og það sem helst væri hægt að hrósa henni fyrir ef hún stæði sig vel í því. Er hæstv. ráðherra hreykinn af svona liðsmönnum?

Nei. Auðvitað er, herra forseti, harla dapurlegt hvernig þessum málum er komið. Röksemdafærsla hæstv. félmrh. fyrir þessu máli, þ.e. að þröngva málinu í gegn í andstöðu við allt og alla, hefur ekki verið lítið kostuleg. Eitt af því fyrsta sem ráðherranum datt í hug þegar verið var að ræða málið við 1. umr. var að lögin væru svo gömul. Þau væru frá 1938 og því yrði að breyta þeim. Það þótti honum fullgild röksemd. Það hlyti að þurfa að breyta þessum lögum af því að þau væru frá 1938.

Síðan hefur hæstv. ráðherra flúið yfir í ýmis önnur misburðug vígi í tilraunum sínum til að reyna að rökstyðja afstöðu sína í þessu máli og þá stöðu sem er komin upp. Þótt öllum skynsömum mönnum sé ljóst að hér eru menn komnir út í ófærur og ógöngur, finna menn ekki leiðina til baka. Einhvern veginn hefur það hent hæstv. félmrh. að lenda í villu, í þoku og finna enga leið til baka eða enga leið til lands eins og stundum er sagt.

Það er líka, herra forseti, ekki hægt annað en að staldra aðeins við hlut Framsfl. í þessu máli og spurninguna um það hvað er að gerast með þann flokk þegar meira að segja sá af þingmönnum hans sem fyrir utan kannski forseta, hæstv. félmrh. hefur helst verið talinn standa fyrir einhverjum leifum af félagshyggju í Framsókn, svona einhverjum gamaldags, sveitalegum samvinnufélagshyggjuleifum eða dreggjum, ef svo má að orði komast. Það hefur helst verið talið að hæstv. félmrh. væri þó á þeim kantinum ef kant skyldi kalla. En hvað er þá orðið um afganginn? Hvað má þá segja um hina sem liggja lengra til hægri í Framsfl. ef við eigum að dæma hæstv. félmrh. nú og verk hans og leggja á þau einhvern slíkan mælikvarða? Hvar eru þeir þá staddir hinir sem eru lengst í Framsfl. ef menn taka þennan thatcherisma sem hæstv. félmrh. er að beita sér fyrir?

Eins og frægt er orðið, herra forseti, hét kosningastefnuskrá Framsfl. ,,Fólk í fyrirrúmi`` Það er mál manna sem voru vel að sér að þetta hafi verið tiltölulega vel hönnuð, að vísu geysilega dýr en vel hönnuð, amerísk kosningabarátta sem Framsfl. háði, m.a. með því að kaupa upp öll helstu auglýsingaskilti í borginni og víðar og detta ofan á þetta skemmtilega og notalega slagorð: Fólk í fyrirrúmi. Og hvaða fólk var þetta? Það var m.a. unga fólkið sem Framsókn notaði í auglýsingunum, en það var líka fólkið í landinu almennt, var það ekki? Það voru t.d. félagsmenn ASÍ. Þeir eru aldeilis fólkið í landinu, 70 þúsund stykki eða eitthvað því um líkt. Og BSRB og BHM. Er þetta ekki fólkið í landinu, er það ekki, hv. þm. Ísólfur Gylfi? Jú, þetta er einmitt fólkið í landinu. Og hvað var svo Framsókn að reyna að segja við fólkið í landinu undir þessari fyrirsögn, fyrir utan allt það sem hún lofaði unga fólkinu í auglýsingunum? Við skulum aðeins staldra við einn kafla í kosningaloforðunum sem fjallar um lífskjarajöfnun. Veltum aðeins fyrir okkur andanum og inntakinu í þessum fögru fyrirheitum sem Framsókn gaf undir þessum fyrirsögnum. Þar segir m.a., vonandi með góðfúslegu leyfi forseta, sem varla hefur sem mikill framsóknarmaður á móti því að í þennan texta sé vitnað:

,,Framsfl. fagnar því að kjarasamningar á hinum almenna vinnumarkaði skuli hafa náðst.`` En bíðum nú við: ,,Lýsir vonbrigðum með að efnahagsbatinn skuli ekki hafa verið nýttur að þessu sinni til lífskjarajöfnunar.`` Slík er ást og góðvild framsóknarmanna, þeir harma sérstaklega að menn skuli ekki hafa notað efnahagsbatann þá þegar fyrir síðustu kosningar til lífskjarajöfnunar. Svo kemur mjög mikilvæg setning: ,,Samstarf verkalýðshreyfingar, vinnuveitenda og ríkisstjórnar hefur skapað þjóðarsátt í kjaramálum.`` Þarna er ekki lítið sagt. Það er einmitt sagt að hið góða samstarf aðila vinnumarkaðarins og ríkisstjórnar hafi skapað þetta þjóðarsáttarástand, batann og allt það. ,,Ljóst er að til lengdar helst sáttin ekki nema launafólk og fyrirtæki beri sanngjarnar byrðar og njóti ávinnings af auknum þjóðartekjum.``

Það er ekki verið að boða það þarna að til standi að slíta þessu, rjúfa þetta einhliða. Nei. Það er þvert á móti verið að lýsa áhyggjum yfir því ef þetta góða samstarf og þetta jákvæða andrúmsloft skyldi rofna. Þetta var boðskapur Framsóknar fyrir kosningar.

Enn fremur segir: ,,Á næsta kjörtímabili þarf ríkisvaldið og aðilar vinnumarkaðarins`` --- væntanlega saman --- ,,að vinna að lífskjarajöfnun og framsækinni atvinnustefnu. Það eru sameiginlegir hagsmunir atvinnulífsins, launþeganna og ríkisvaldsins að öflugt atvinnulíf blómstri svo að heimilin og fyrirtækin geti greitt niður skuldir sínar.`` Svo komu loforðin eins og alls staðar í annarri hverri setningu. Á hverri blaðsíðu voru mikil og stórfengleg kosningaloforð eins og kunnugt er sem síðan hafa öll verið svikin nema hugsanlega eitt, er mér sagt.

,,Á síðari hluta kjörtímabilsins verði 2--3 milljörðum kr. varið til lífskjarajöfnunar með því að draga úr skattaálögum á meðaltekjufólk, með hækkun skattleysismarka, vaxtabóta, barnabóta og barnabótaauka.`` Það átti aldeilis að gera vel, en að vísu á síðari hluta kjörtímabilsins. ,,Ávinningi af batnandi ytri aðstæðum þjóðarbúsins verði breytt í ytri varanlega kaupmáttaraukningu launafólks án þess að auka verðbólgu. Launastefnan í landinu verði endurskoðuð með það að markmiði að einfalda launakerfið og leiða í ljós raunveruleg kjör einstakra stétta og hópa.``

Þetta er svo fallegt, herra forseti, að það liggur við að maður tárist. Andinn í þessu er svo góður og þar er þvílík mildi, hlýja, væntumþykja og umhyggja fyrir blessuðu láglaunafólkinu og verkalýðshreyfingunni og þá einkum og sér í lagi samstarfi og samvinnu þessara aðila. En þetta var að vísu fyrir kosningar. Þetta var á meðan þetta var fólk í fyrirrúmi. Hér hefur verið vitnað í flokkssamþykktir þar sem Framsfl. lofaði mjög hátíðlega alveg sérstöku samráði við verkalýðshreyfinguna um endurskoðun þessara mála.

[22:30]

Svo erum við í þeim sporum að hæstv. félmrh. er að þröngva í gegnum þingið með tilstyrk skjaldsveina sinna frv. þessu sem hann ber ábyrgð á í samvinnu við hæstv. fjmrh. sem flytur hitt meginskerðingarfrv., þvert ofan í þessi gefnu loforð. Í andstöðu við hvað? Við fólkið í landinu. Við kjörna umbjóðendur heildarsamtaka launamanna sem í eru um það bil 110--120 þús. félagsmenn. Ég veit ekki hver getur sagt með einhverjum rétti að hann sé í þessum skilningi umbjóðandi fólksins í landinu ef það er ekki það fólk sem hefur verið kosið til trúnaðarstarfa í verkalýðshreyfingunni til að semja um kaup og kjör og gæta hagsmuna sinna umbjóðenda. Svo kemur hæstv. félmrh. og segir: ,,Það verður bara að hafa það.`` Og í dag voru röksemdirnar orðnar þær að hann þyrfti að koma þessum frumvörpum í gegn vegna þess að hann ætti ekki nema þrjú ár eftir í ráðherraembætti í mesta lagi, ráðherraembætti félagsmála.

Nei, herra forseti. Þetta er alveg ótrúleg uppákoma. Hér er ekki verið að tala um hluti sem eru hversdagslegir. Þetta er ekki eitthvað sem hefur borið upp á svona reglubundið með nokkurra ára millibili eða mér liggur við að segja áratuga. Hér er verið að rjúfa samskiptahefðir sem eru helgaðar af meira en hálfrar aldar sambúð þessara aðila í þjóðfélaginu, í raun allt frá því að skipulögð verkalýðshreyfing á Íslandi komst á legg og fékk þá stöðu sem hún náði fljótlega upp úr kreppunni miklu. Það hefur ekki gerst að það hafi verið reynt að valta einhliða yfir heildarsamtök launamanna eins og nú er lagt til.

Herra forseti. Mér finnst ekki hægt að þessi umræða fari fram eða henni ljúki a.m.k. öðruvísi en forustumenn stjórnarflokkanna komi og taki þátt í henni. Ég spyr t.d.: Hvar er hæstv. utanrrh.? Á hæstv. utanrrh. að komast upp með það að þegja í gegnum allar umræður um bæði þessi mál, koma hér hvergi nærri, sjást yfirleitt ekki í þingsalnum? Herra forseti. Enn sem komið er hafa tveir framsóknarmenn talað í öllum umræðunum um þessi mál. Það er hæstv. félmrh. eðlilega og það er hv. þm. Guðni Ágústsson. Enginn framsóknarmaður tók til máls eða hefur enn tekið til máls um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Það er að vísu athyglisvert að eini óbreytti þingmaður Framsfl. sem hér hefur talað, hv. þm. Guðni Ágústsson, er einn af forsetum þingsins, og það kvað mjög við annan tón í hans máli. Í raun sagði hv. þm. að það ætti að fresta þessu frv. Er það kannski þess vegna sem allir framsóknarmenn eru hér fjarverandi, þ.e. af því að þeir eru fleiri sama sinnis og baklandið hjá hæstv. félmrh. sé e.t.v. eitthvað vakurt og þess vegna hafi verið settur plástur fyrir munninn á þingmönnum Framsfl., og þeir hafi ekki málfrelsi? Sama er mér um það. En ég tel, herra forseti, að það sé réttmæt krafa að hæstv. utanrrh., formaður Framsfl., komi og standi fyrir máli Framsfl. í þessari umræðu áður en henni lýkur. Hann rökstyðji það m.a. hvernig þetta samrýmist kosningaloforðum Framsfl., ítrekuðum fjálglegum yfirlýsingum um hið mikla samstarf sem Framsfl. ætlaði að eiga við verkalýðshreyfinguna og alla umhyggjuna sem hann bar fyrir launafólki fyrir kosningar, með fólk í fyrirrúmi.

Auðvitað ætti hæstv. forsrh. einnig að koma til umræðunnar. Hann ber ábyrgð á þessum málum í heild sem pólitískur oddiviti og talsmaður ríkisstjórnarinnar. Ég veit ekki, herra forseti, hvort það eru aðstæður til að fá þessa ágætu höfðingja í hús á þessu kvöldi, en í öllu falli vil ég að sú ósk verði borin þeim að áður en umræðunni ljúki þá verði þeir hér til svara fyrir hönd sinna flokka. Ég tel að af minna tilefni hafi verið farið fram á það að forustumenn stjórnarflokka mæti til leiks auk þess sem þeim er ekki vandara um en öðrum að sinna sínum þingskyldum og vera á svæðinu.

Herra forseti. Hugsandi menn í þjóðfélaginu og það á bara ekki bara við um forustumenn í verkalýðshreyfingu og stjórnarandstöðu og aðra slíka, heldur verð ég þess var æ oftar þessa dagana að t.d. forsvarsmenn í atvinnulífinu og þeir sem fara með efnahagsmál þjóðarinnar hafa orðið miklar áhyggjur af þessu ástandi. Við mig talaði m.a. einn af helstu hagfræðingum þjóðarinnar í ábyrgðarstöðu í dag og hans erindi var að spyrja hvernig ég mæti andrúmsloftið og ástandið í þessum efnum gagnvart haustinu og því sem fram undan væri. Það þarf að reyna að gera einhverjar þjóðhagsspár og horfa fram í tímann um það hvernig þetta er að þróast. Seðlabanki, Þjóðhagsstofnun og aðrir slíkir aðilar eru að reyna að átta sig á því hvernig landið liggur. Og hvað er það sem gjarnan stendur í textunum sem ein helsta óvissan þegar verið er að vinna slíka hluti? Jú, það er staðan í kjaramálum. Það er andrúmsloftið í samskiptum aðila vinnumarkaðarins eins og það heitir á löggiltu stofnanamáli. Og þeir sem með þessi mál fara, aðrir en hæstv. ríkisstjórn sem virðist ekki hafa af þessu neinar áhyggjur, hafa auðvitað dagvaxandi áhyggjur af því til hvers sé verið að stofna í þjóðfélaginu, að kannski sé nú verið að klúðra fimm til sex ára stöðugleika sem tókst að innleiða með þó nokkrum fórnum á árabilinu 1989--1991, glata honum, fórna honum á altari þessarar þrjósku sem hæstv. félmrh. er annar aðalfulltrúinn fyrir. Það er dapurlegt og ömurlegt til þess að hugsa ef það á að verða hlutskipti okkar að klúðra því út úr höndunum á okkur aftur vegna þvermóðsku af því tagi sem ein stendur eftir í þessu máli, því að hæstv. ráðherra hefur auðvitað ekki tekist að færa fram nein haldbær rök fyrir því að neina sérstaka nauðsyn beri til að þröngva þessu í gegn nú á þessu vori, enga. Ég bið hæstv. ráðherra þá að reyna betur. Hvaða einstök efnisatriði í þessum frv. eru þannig vaxin að það skipti einhverju máli í einhverju tilliti að þau séu nú sett í lög í andstöðu við allt og alla? Hverju á það að breyta nema því einu sem er til hins verra upp á þetta andrúmsloft og þessi samskipti?

Auðvitað hafa ábyrgir aðilar í þjóðfélaginu af þessu miklar áhyggjur. Það hefur verið reynt ítrekað að vara við, benda á þá hættu sem hér er fyrir dyrum og það er langt síðan það kom fram að tilvist þessara frv. sem slík var farin að spilla andrúmsloftinu milli aðila. Það eru blindir menn sem horfast ekki í augu við það sem þarna er að gerast. Þó það væri ekkert annað en það að öll verkalýðshreyfingin í landinu er í fyrsta skipti um langt árabil algerlega að sameinast. Það er að mínu mati hið besta mál og fagnaðarefni. En það er kannski ekki alveg víst að allir aðrir líti eins á það. Þá hélt ég að menn hefðu kannski ástæðu til þess að hugsa aðeins sinn gang í þeim efnum því að auðvitað er samtakamáttur launamanna, ef þeir ná að stilla saman strengi í allsherjarsamstöðu, þvert yfir öll sambönd og félög, margfaldur á við það sem er ef hvert og eitt samband eða félag er að heyja sína kjarabaráttu sér.

Kannski er það þannig, herra forseti, eins og segir í máltækinu að ekki verðið feigum forðað og hæstv. ríkisstjórn verði bara að fá að ganga þessa feigðargötu sína á enda og sitja þá uppi með allt í logandi verkföllum og átökum í þjóðfélaginu undir næstu áramót og við því sé í sjálfu sér ekkert frekar að gera. Það fara að nálgast þau tímamót í þessum málum að a.m.k. af okkar hálfu í stjórnarandstöðunni verður ekkert frekar að gert. Hæstv. ríkisstjórn verður bara að bergja af þessum beiska bikar sínum og axla af því ábyrgð að hafa kveikt þetta ófriðarbál í þjóðfélaginu.

Vissulega er búið að þynna frv. dálítið út og tína út úr því hluti sem í því voru í byrjun og voru náttúrlega fráleitustu þættirnir sem menn hafa áttað sig á og ráðherra þar með talinn að gengu ekki upp. Eftir standa ákveðin efnisatriði en þó kannski fyrst og fremst vitnisburðurinn um þessi samskipti og það andrúmsloft sem búið er að eitra með þessum vinnubrögðum sem ekki verður svo auðveldlega afmáð og er hið versta mál. Ég verð að segja alveg eins og er að ég batt við það vissar vonir, t.d. að í þessari viku mundi hæstv. félmrh. finna leið í land, t.d. í tengslum við þing Alþýðusambands Íslands.

Hæstv. forseti. Ég efast um að hæstv. félmrh. veiti nokkuð af að einbeita sér að því einu að hlusta og það er ekki víst að það dugi einu sinni. Það hefur ekki sýnt sig undanfarna daga að það nægi jafnvel til þess að skilningsljósið tendrist í huga hæstv. ráðherra.

En það stendur þannig á að nú halda stærstu heildarsamtök launamanna í landinu, Alþýðusamband Íslands, þing sitt. Þessi atburður og þessi vika hefði að mínu mati getað gefið félmrh. kjörið tækifæri til að bjarga sér í land og rúmlega það. Ég held að hæstv. félmrh. hefði getað slegið sér verulega upp og lyft Framsókn pínulítið upp úr forarvilpunni sem hún er komin ofan í, sýnt ofurlítinn manndóm, skorað prik gagnvart samstarfsflokknum í stað þess að láta hann nota sig eins og gólftusku ef hæstv. félmrh. hefði mannað sig upp í að fara á alþýðusambandsþing, ávarpa þar þingfulltrúa og bjóða Alþýðusambandinu sættir og setja málið í endurskoðun þar í sumar. Það er auðvitað alveg augljóst mál hvað hefði gerst. Hæstv. félmrh. hefði orðið maður dagsins. Hann hefði fengið dúndrandi lófatak í staðinn fyrir að í dag var púað á hann. Skyldi það ekki vera vænlegra fyrir hæstv. félmrh. inn í framtíðina og þessi tæpu þrjú ár sem hann í mesta lagi á eftir í ráðherrastóli að eigin sögn, að leggja upp með það veganesti? Og ætli sjálfstæðismenn hefðu þá átt annan kost en velja sömu leið og bjóða fyrir sitt leyti upp á sams konar samkomulag með það frv. sem þeir bera ábyrgð á, þ.e. hæstv. fjmrh. og frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Nú kann að vera að hæstv. félmrh. eigi enn eftir að halda á alþýðusambandsþing og hann eigi enn eftir þennan kost. Ég skora á hæstv. félmrh. --- það er sagt stundum að sofa á hlutunum --- að hann sofi þá á þessu í nótt eða vaki yfir því ef svo ber undir og velti þessu alvarlega fyrir sér. Ég er ekki viss um að hæstv. ráðherra eigi oft á því sem eftir er af hans pólitísku ævi a.m.k. eftir að standa á afdrifaríkari vegamótum en hann að mörgu leyti gerir nú. Ég er sannfærður um það að gangi hæstv. félmrh. þessa feigðargötu á enda, þá mun það hvíla eins og pólitískur skuggi yfir ferli hans það sem eftir er (Gripið fram í: Það verður engin ferill.) að hafa látið nota sig í þessi skítverk í nafni frjálshyggjunnar, að þjösnast svona á launamönnum í landinu og samtökum þeirra sem ég veit að er tungutak sem hæstv. ráðherra skilur, ,,að þjösnast á einhverjum``.

Almennt um þessi mál og stöðu hæstv. ríkisstjórnar gagnvart þeim, herra forseti, þá er manni líka náttúrlega býsna brugðið þegar maður veltir því fyrir sér hvers konar vitnisburð, vinnubrögð á vegum ríkisstjórnar og ráðuneyta, frumvörpin tvö hafa í raun og veru dregið fram. Er það svo að það sé mönnum ekkert umhugsunarefni að við höfum fengið tvö stjórnarfrumvörp um afar mikilvæga löggjöf í okkar landi, grundvallarlöggjöf, undirstöðulöggjöf um samskipti aðila, sem bæði hafa fengið þann harkalega dóm að vera ónothæf eins og þau voru lögð fram og væntanlega mjög líklega vera brot á stjórnarskrá og alþjóðlegum samningsskuldbindingum Íslands, bæði tvö? Að vísu er verið að reyna að lagfæra þau, þynna þau út, draga út úr þeim það versta en það dugar ekki einu sinni til.

Í efh.- og viðskn. í kvöld, herra forseti, voru lagðar fram þrjár lögfræðilegar álitsgerðir um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna. Og hvað fólst í þeim? Það fólst í þeim algerlega ótvíræður dómur um það að frv. eins og það var lagt fram var út úr öllu korti miðað við ákvæði stjórnarskrár Íslands, ákvæði Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og fleiri slíkra samþykkta. Það er að vísu sagt að eftir þær breytingartillögur sem meiri hluti efh.- og viðskn. hefur verið að vinna að og voru að hluta til gerðar við 2. umr. en hafa nú verið kynntar á nýjan leik, 15 tölusettar tillögur fyrir 3. umr. málsins, þá sé að vísu búið að sneiða hjá vissum brotum sem þarna voru í uppsiglingu gagnvart stjórnarskrá og samþykktum en þó ekki öllum. Kannski er hæstv. félmrh. líka hreykinn af því að sitja í ríkisstjórn sem leggur fram ekki eitt heldur tvö eða fleiri frv. sem eru þannig úr garði gerð, eins og þau eru lögð fyrir þingið, að þau standast ekki (Gripið fram í: Fimm.) --- eða hvað þau eru mörg --- og koma svo og segja að það sé búið að laga þetta, að það sé búið að taka af þessu það versta og þetta sé nú að verða í lagi, að verða okkuð gott. Er það nokkuð til að hrósa sér af, þ.e. að sennilega verði búið að bjarga þessu þannig í horn að þetta sleppi? Mér finnst það satt best að segja ekki vera mikill metnaður sem menn hafa fyrir hönd sjálfra sín og vinnubragða sinna. Það er auðvitað aldrei gott þegar menn hlaupa á bak við embættismenn sína í þessum efnum. En ég trúi eiginlega ekki öðru en eitthvað af þessu lögfræðingaliði sem er í vinnu í ráðuneytunum við að unga út þessum pappírum sem ráðherrarnir taka svo höfundarábyrgð á, líði svolítið illa yfir þeim dómi sem þeir hafa fengið. Eru það ekki hálaunaðir og sprenglærðir prófessorar og alls konar lögfræðiséní sem hafa verið á góðum launum í aukagetu við það hjá ríkinu að semja þessa pappíra en eru svo tættir sundur, teknir í nefið af þeim lögfræðilegu ráðgjöfum sem nefndir þingsins hafa leitað til? (Gripið fram í: Í vörina.) Það er bannað. Eða verður senn bannað.

[22:45]

Mér finnst, herra forseti, þetta vera þvílíkur dómur sem þessi vinnubrögð eru öll að fá. Að vonum, því að svona á auðvitað ekki að standa að hlutunum. Hversu gæfulegt er það t.d. að ætla að setja löggjöf um vinnumarkaðinn á Íslandi, bæði almenna vinnumarkaðinn, stéttarfélög og vinnudeilur, um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna og ganga algerlega fram hjá samráði við helstu sérfræðinga landsins í vinnurétti? Hverju eru helstu sérfræðingar landsins í vinnurétti? Það eru t.d. þeir lögfræðingar í landinu sem starfa fyrir verkalýðshreyfinguna. Af hverju eru þeir það? Vegna þess að þeir sérhæfa sig í þeim rétti, að túlka þann rétt, að skýra þann rétt, að fara með ágreiningsmál á grundvelli þeirra laga, að sækja mál fyrir hönd launamanna fyrir dómstólum landsins og jafnvel fyrir alþjóðlegum dómstólum. Og er það þá trúverðugt eða gæfuleg vinnubrögð að ganga algerlega fram hjá þeirri sérfræðiþekkingu sem þar er í landinu og er einstök? Það liggur auðvitað í hlutarins eðli að það eru engir aðrir sérfræðingar í landinu til sem búa yfir og sameina á einum stað meiri þekkingu um þessi mál heldur en einmitt lögfræðingar og lögfræðilegir ráðunautar launamannasamtakanna í landinu. En hæstv. ríkisstjórn gefur ekkert fyrir það. Henni kemur það ekki við. Hún kemur svellköld með frumvörp sem reynast svo gersamlega ónothæf, sem reynast púra brot á samþykktum ILO og væntanlega á stjórnarskránni eins og þau eru fram borin. Hún huggar sig svo við að hún sé að reyna að bjarga þessu í horn og nefndarmenn meiri hlutans eru á handahlaupum með breytingartillögur milli umræðna með málið allt meira og minna í höndunum fram á síðustu stundu að reyna að sigta út það versta.

Samt er t.d. 22. gr. frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna mjög sennilega hæpin eins og hún er þrátt fyrir allar breytingarnar, bæði gagnvart 74. gr. stjórnarskrárinnar og samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar. Meðal annars af þeim sökum að allir prestar í landinu eru allt í einu komnir þarna inn sem embættismenn eða eiga að gera það samkvæmt brtt. Og er þó hæpið að færa það undir sérstakt öryggi ríkisins að þeir geti messað á sunnudögum þótt það sé gott í sjálfu sér. En á því hálmstrái eru menn að hanga að það sé réttlætanlegt að taka samningsrétt, verkfallsrétt og tjáningarfrelsi af embættismönnum af því að þeir séu nauðsynlegir vegna öryggis ríkisins eða þeir séu æðstu menn stjórnsýslunnar í landinu eða eitthvað þar fram eftir götunum. Og gangi svo hverjum sem vill það vel að teygja það yfir alla presta.

Nei, herra forseti. Auðvitað er það þannig að hæstv. ríkisstjórn á að sjá að sér og forða sér í land með þessi mál. Ég vil leyfa mér að trúa því að það standi enn opið af allra hálfu sem að málinu koma að reyna að finna einhverja brú í land fyrir hæstv. ríkisstjórn og náttúrlega grátt leikna menn og fótsára eins og hæstv. félmrh., reyna einhvern veginn að búa til þannig lausn að allir geti haldið andlitinu eins og sagt er. Góðir menn verða að leggjast undir feld og hugsa upp einhverja góða lendingu þannig að menn komist út úr þessum ógöngum. Öll þjóðin horfir upp á það að þessi mál eru komin í endemis klúður og það verður að reyna einhvern veginn að gera gott úr því ef hægt er. Mönnum ber sú skylda skynseminnar vegna og í þágu farsælla málalykta almennt og ekki síst í stórmálum af þessu tagi að leita alveg til hinstu stundar að einhverri færri landtöku fyrir alla viðkomandi aðila.

Ég er alveg viss um að afdrifaríkustu sólarhringarnir í þessu máli standa yfir eða fara í hönd. Og ég er alveg viss um það að ef hæstv. félmrh. tekst ekki að finna þessa landgönguleið í þessari viku áður en þingi Alþýðusambandsins lýkur, missir hann af gullnu tækifæri til að bjarga sínu skinni. Þó skiptir það ekki mestu máli í þessu sambandi heldur hitt að efnisleg niðurstaða í málinu verði farsæl.

Ég ætla því að lokum, herra forseti, af því að ég ætla ekki að teygja þessar umræður lengra fram á kvöldið að enda þetta með því að skora á hæstv. félmrh. að vera hófstilltan, segja ekki í andsvari neina vitleysu sem hann á eftir að sjá eftir og væri betur ósögð, fara frekar heim og hugsa málið.