Stéttarfélög og vinnudeilur

Þriðjudaginn 21. maí 1996, kl. 23:07:24 (6405)

1996-05-21 23:07:24# 120. lþ. 143.8 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 143. fundur

[23:07]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kem upp til að mótmæla þeirri staðhæfingu og fullyrðingu hæstv. félmrh. að Alþýðusamband Íslands hafi slitið viðræðum um breytingar á lögum um stéttarfélög og vinnudeilur. Það er rangt. Þessum viðræðum lauk þegar hæstv. félmrh. tók ákvörðun um að fara að vilja samtaka atvinnurekenda og keyra fram þessar lagabreytingar í gegnum þingið.

Hér hafa verið gefnar mjög mótsagnakenndar yfirlýsingar. Annars vegar segir hæstv. félmrh. að hann hlusti ekki á lófatak, láti ekki stjórnast af lófataki, hann geri það sem honum finnst rétt. Það sem menn hins vegar furða sig á í þjóðfélaginu öllu er að einum hæstv. ráðherra geti fundist það yfirleitt vera rétt að gera grundvallarbreytingar á samskiptareglum á vinnumarkaði þvert á vilja allrar verkalýðshreyfingarinnar. Enn mótsagnakenndari verða þessar yfirlýsingar þegar þær eru síðan kórónaðar með þeirri staðhæfingu að sami ráðherrann sé gefinn fyrir samninga, hann vilji fara samningaleið. Hæstv. ráðherra verður að gefa okkur nánari skýringar á þessu, annars vegar þeirri yfirlýsingu sinni að hann sé reiðubúinn að fara samningaleiðina og hins vegar hinni: að hann hlusti aðeins á eigin sannfæringu, honum finnist hann vera að gera rétt í þessu efni og við það muni sitja.