Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 14:14:16 (6425)

1996-05-22 14:14:16# 120. lþ. 144.10 fundur 493. mál: #A Norðurlandasamningur um félagslega aðstoð og félagslega þjónustu# frv. 66/1996, GÁS
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[14:14]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Ég styð heils hugar það mál sem hér um ræðir. Hér er eins og hv. frsm. gerði grein fyrir um að ræða einn hornsteininn í virku og góðu samstarfi Norðurlandaþjóðanna. Ástæður þess að ég kveð mér hljóðs eru þær að fyrir liggur að samningur þessi var gerður í Arendal 14. júní 1994. Núna þann 22. maí 1996 erum við að staðfesta þennan samning. Ég hlýt að gera mjög alvarlegar athugasemdir við það að gangverkið hjá framkvæmdarvaldinu sé ekki skilvirkara en hér um ræðir. Ég hef aðeins kynnt mér þetta mál og veit að viðkomandi fagráðuneyti, félmrn., hefur ítrekað sent erindi þess efnis í utanrrn. sem er hinn formlegi aðili málsins en eftir sem áður erum við tveimur árum síðar að staðfesta samninginn. Mér er einnig kunnugt um að þetta hefur valdið nokkrum vandkvæðum í einstaka tilvikum því að hér er um réttarbót að ræða og það liggur fyrir að aðrar Norðurlandaþjóðir hafa fyrir alllöngu staðfest samninginn fyrir sitt leyti. Ég vil því árétta það, virðulegur forseti, að við lærum af þessum mistökum og gætum okkur á því að það gerist ekki aftur heldur göngum röskar til verks en hefur verið gert.