Samningur um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 14:21:10 (6429)

1996-05-22 14:21:10# 120. lþ. 144.11 fundur 492. mál: #A samningur um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum# frv. 74/1996, Frsm. GHH (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[14:21]

Frsm. utanrmn. (Geir H. Haarde):

Herra forseti. Hér er um að ræða frv. sem ætlað er að veita lagagildi alþjóðlegum samningi um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum. Við höfum rætt þetta mál í utanrmn. og orðið sammála um að mæla með samþykkt frv. enda teljum við að í því geti falist auknir möguleikar fyrir íslensk stjórnvöld til þess að hafa eðlilegt eftirlit á vettvangi skattamála út fyrir landsteinana. Óskað var eftir áliti efh.- og viðskn. um málið en engar athugasemdir bárust.

Frv. gerði ráð fyrir því að ákvæði samningsins um gagnkvæma stjórnsýsluaðstoð í skattamálum öðlist lagagildi en slíkt fyrirkomulag hefur færst í vöxt með auknu samstarfi milli þjóða. Í fskj. með frv. er ákvæði samningsins sett upp á íslensku og ensku á greinargóðan hátt. Hins vegar telur nefndin nægjanlegt og eðlilegt með tilliti til íslenskra laga og meðferðar mála á Alþingi, samanber nefndarálit allshn. á þskj. 715, um frv. til laga um mannréttindasáttmála Evrópu á 117. löggjafarþingi, að alþjóðasamningar séu lögfestir á íslensku eingöngu. Hin enska gerð samningsins er birt í frv. og er eðlilegt skýringargagn en að mati nefndarinnar á hún ekki erindi í Stjórnartíðindi eða lagasafn. Nefndin vill þó leggja áherslu á að opinber tungumál samningsins, sem eru enska og franska, og enda þótt einungis íslenski textinn verði lögtekinn geta enski og franski textinn verið mikilvægir, m.a. til túlkunar á vafaatriðum um merkingu orða samningsins. Þess vegna er mikilvægt að sérfræðingar og allur almenningur eigi greiðan aðgang að samningnum á frummálum hans jafnt sem íslensku þótt einungis hin íslenska þýðing birtist í Stjórnartíðindum og lagasafni.

Með þessum skýringum leggur nefndin til að frv. verði samþykkt, herra forseti.