Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 14:28:47 (6433)

1996-05-22 14:28:47# 120. lþ. 144.18 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, KPál
[prenta uppsett í dálka] 144. fundur

[14:28]

Kristján Pálsson:

Herra forseti. Vegna fram komins frv. um varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum tek ég fram að ég er hlynntur því að þjóðin taki sameiginlega á þeim gríðarlega vanda sem einstök byggðarlög standa frammi fyrir vegna náttúruhamfara. Það er samfélagsleg skylda þótt ljóst sé að hér er um verulega skattlagningu að ræða á húseigendur hvar sem er á landinu.

Það sem rekur mig aftur á móti upp í ræðustól er hvernig þessum fjármunum er ráðstafað. Þegar lögin um ofanflóðasjóð voru tekin til umræðu í vetur varaði ég við því að hættumat á byggðarlögum gengi of langt og útfærslur þess gætu leitt til þess að byggðir, sem hafa aldrei verið taldar í hættu, væru flokkaðar innan hættusvæða. Mér sýnist því miður að hér hafi farið á versta veg eins og í byggðarlagi vestur við Djúp sem heitir Hnífsdalur. Samkvæmt því mati sem þar er búið að gera er allt byggðarlagið nú undirlagt og á hættusvæði að mati Veðurstofu og Almannavarna ríkisins.

[14:30]

Mér sýnist að með þessu áframhaldi verði að kaupa upp öll hús á þessum stað því það er búið að skjóta rótum efans hjá öllum íbúum svæðisins sem eiga í raun samkvæmt þessu mati það undir ákvörðunum Veðurstofu og Almannavarna hvort það er í húsunum sínum á vetrum eða hvort það þarf í tíma og ótíma að fara úr þeim. Það er ekki eitt einasta hús í þessu byggðarlagi undanþegið þessu mati.

Með þessu er verið að leggja í eyði byggð sem hefur staðið í hundruð ára. Ég vek sérstaka athygli á þessu hér og beini þeim varnaðarorðum til hæstv. umhvrh. og ríkisstjórnar. Með sama áframhaldi verður vart byggilegt undir fjallshlíðum á Íslandi að mínu mati. Ég tel að miklu frekar eigi að leita af hálfu Veðurstofu og annarra aðila eftir leiðum sem geta verndað byggðirnar, fundið leiðir til þess að beina snjóflóðum í ákveðnar áttir en gera hættumat sem leiða til þess að fólk getur ekki sjálfs sín vegna og fjölskyldu sinnar haldist við á þessum svæðum þrátt fyrir það að engar sögur fari af því að þar hafi nokkru sinni fallið snjóflóð þrátt fyrir árhundruða samfellda byggð á viðkomandi stöðum.