Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:18:43 (6442)

1996-05-22 15:18:43# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:18]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla alls ekki að ræða þetta mál út frá staðháttum í Hnífsdal. Ég hef of litla staðarþekkingu eða þekkingu á snjóflóðasögu þess staðar til að segja neitt um það. Ég vil hins vegar gera athugasemd við þá staðhæfingu hv. ræðumanns að það megi með nokkuð tryggum hætti fá vitneskju um snjóflóð liðinnar tíðar, ég veit ekki hversu langt aftur ræðumaður hafði í huga, út frá rituðum heimildum. Það er mikið traust sett á ritaðar heimildir. Ég hef allt aðra sögu að segja um þetta þar sem ég þekki til, t.d. á Austfjörðum. Þar eru ritaðar heimildir mjög gloppóttar. Þær ná kannski aftur á síðari hluta fyrri aldar, þ.e. til snjóflóðanna á níunda tug nítjándu aldar. Þar hafa menn upplýsingar bæði frá Norðfirði og Seyðisfirði um þessi efni. En lengra til baka voru þarna náttúrlega bara einstök bændabýli og þéttbýli ekki farið að skapast. Lengra ná heimildirnar ekki. Ég held að það sé mjög eðlilegt að menn reyni að nýta allar upplýsingar í rituðu máli en dragi einnig að mat á landfræðilegum aðstæðum og þá þekkingu sem sérfróðir aðilar hafa á þessum málum hvar hættuástand geti skapast. Við verðum að hafa í huga að það er ekkert endanlegt svar um snjóflóðahættu þó ekki hafi fallið snjóflóð niður undir sjávarmál í tvö hundruð ár. Það er ekkert endanlegt svar. Það segir okkur aðeins að það skeður sjaldan. En það er hægt að komast nær hinu sanna með því að athuga landslagið og meta aðstæður.

Hins vegar vil ég að svo miklu leyti taka undir svona aðvaranir hv. þm. að yfirdrífa ekki hættu. Það er auðvitað jafnnauðsynlegt. Menn verða að hafa þar hina bestu þekkingu til að ganga út frá og draga hana að.