Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:23:21 (6444)

1996-05-22 15:23:21# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:23]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Allar ritaðar heimildir sem snerta svona mál á að draga að. Það á að kemba rit eins og bækur Árna Magnússonar og Bjarna Pálssonar, jarðabækurnar, í von um að þar kunni eitthvað að leynast. Einnig dagbækur sem hægt er að fá aðgang að frá einstaklingum fyrr og síðar sem eru varðveittar. Um þetta þarf ekki að deila. Ég fór ofan í snjóflóðasögu minnar heimabyggðar eftir 1974 á vegum bæjaryfirvalda og reyndi að draga fram vitneskju bæði munnlega og ritaða varðandi þau efni. Þá komst maður auðvitað að því að menn vissu eitt og annað. En mín niðurstaða úr því öllu saman svona eftir á er sú að yfir snjóflóð sem ekki hafa skemmt mannvirki fennir í minni manna nánast á stundinni. Á meðan menn voru ekki meira vakandi almennt fyrir þessum málum og skráðu þau beinlínis niður höfðu slík snjóflóð einfaldlega ekki fallið. Menn átta sig almennt ekki á þeim ógnarkröftum sem þarna eru á ferðinni og eru ekki að halda því til haga þó það hafi komið snjóflóð yfir óbyggt landsvæði sem ekki hefur valdið neinum skaða. Þannig er ekki hægt að treysta minni manna um þau efni einu sinni, þar verður að draga inn fleiri forsendur. Þetta held ég að við þurfum að hafa í huga. Hins vegar tek ég skýrt fram að ég vil síst af öllu gera of mikið úr þeirri hættu sem hér er um að ræða. Og það er mjög langt frá því að öllum byggðum undir fjallshlíðum fylgi snjóflóðahætta almennt séð. Það eru sérstakar aðstæður í landslagi sem framkalla hana sem menn þurfa að fara yfir og meta. Svæði sem standa hlið við hlið undir sama fjalli geta verið í mjög mismunandi aðstöðu hvað þetta snertir. Þetta þurfa menn að greina eftir bestu getu.