Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:38:50 (6446)

1996-05-22 15:38:50# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:38]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það eru þrjú atriði sem ég vildi nefna. Í fyrsta lagi varðandi kostnaðarþátttöku sveitarfélaga þá bárust til umhvn. tvö erindi frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga, hið fyrra dagsett 2. maí 1996 en hið síðara 21. maí 1996. Bæði eru mjög eindregin að því er varðar það atriði að létta beri beina kostnaðarþátttöku sveitarfélaga í gerð varnarvirkja og kostnaði vegna þeirra aðgerða sem lög gera ráð fyrir að ráðist verði í til varnar öryggis gegn snjóflóðum. Þetta er mjög eindregið og um þetta hlýtur að verða umræða. Það kemur jafnframt fram það álit að ef menn bera fyrir sig að þetta sé frumkvæðisatriði sveitarfélaganna þá komi til greina af þeirra hálfu að aflétta eða afsala sér því frumkvæði. Ég ætla ekki að fara út í þetta hér. Það er ekki tími til þess. En þetta eru mjög eindregin sjónarmið sem koma þarna fram og hlýtur að þurfa að meta.

Í öðru lagi vildi ég ítreka hvatningu mína til hæstv. ráðherra um að fella framkvæmdir við snjóflóðavarnir undir mat á umhverfisáhrifum. Það eru ýmis rök fyrir því. Ef af tímanlegum ástæðum ekki er talin ástæða til þess að því er varðar Flateyri þá verður ráðuneytið að meta hvort þar er gerð undantekning af þeim sökum, en það á ekki að leiða til þess að í framtíðinni verði þetta undanþegið.

Þriðja atriðið sem ég vil nefna er sú spurning sem uppi er varðandi atvinnuhúsnæði annars vegar og hins vegar og íbúðarhúsnæði hins vegar sem mér finnst ekki hafa legið skýrt fyrir, en upplýsingar hafa nú borist um og ég hefði sjálfsagt átt að vita það frá umræðum um málið. En það hafði farið fram hjá mér þar til vitneskja kom um það inn í umhvn. að atvinnuhúsnæði væri í rauninni alveg utan við þær aðgerðir sem nú er verið að ræða um að því er varðar öryggisráðstafanir í formi varnarvirkja.