Varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:46:54 (6449)

1996-05-22 15:46:54# 120. lþ. 145.5 fundur 520. mál: #A varnir gegn snjóflóðum og skriðuföllum# (forvarnagjald, lántökur) frv. 62/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:46]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð út af þessu með íbúðarhúsnæði og atvinnuhúsnæði. Það er vissulega svo að í lögum er ekki kveðið skýrt á um þetta og þess vegna var þetta nokkurt álitaefni. Þegar ég kom að málinu vildi ég vera nokkuð viss um það hvernig hefði verið unnið að því áður og hvaða megináherslur menn hefðu lagt í því efni. Þegar við ræðum um varnarvirkin tölum við um að það sé a.m.k. fyrst um sinn lögð megináherslan á það af hálfu ofanflóðasjóðs að taka þátt í varnarvirkjum sem verja íbúðarbyggðina.

Nú er það svo að í mörgum tilfellum getur það farið saman og hlýtur að gera það og þá er það auðvitað vel. Rökin fyrir því eru líka þau að alla jafnan er hægt að fylgjast betur með veru íbúa í atvinnuhúsnæði þannig að ekki sé verið að stofna lífi fólks í hættu, þ.e. þegar um er að ræða vinnutíma og fólk er að degi til við störf sín, en þetta er þó ekki algilt. Við getum tekið sjúkrastofnanir sem dæmi um undantekningu á því þar sem fólk er við vinnu allan sólarhringinn og kannski ekki sami andvari eða sama öfluga vakt á einum tíma sólarhrings eins og öðrum þó auðvitað verði reynt að styrkja öryggisgæsluna og vaktirnar og hvernig boð um hættu berast. Það hefur verið farið ítarlega yfir það mál allt saman. En þetta er sú áhersla sem menn töldu rétt að leggja fyrst um sinn, í það minnsta meðan verið er að móta reglurnar skýrari og auðvitað þá að skapa traustari fjárhagsgrundvöll undir þær framkvæmdir sem þarf að ráðast í.