Réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 15:49:54 (6450)

1996-05-22 15:49:54# 120. lþ. 145.6 fundur 376. mál: #A réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga# frv. 65/1996, Frsm. SP (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[15:49]

Frsm. allshn. (Sólveig Pétursdóttir):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti á þskj. 898 um frv. til laga um réttaraðstoð við einstaklinga sem leita nauðasamninga fyrir hönd allshn.

Nefndin hefur fjallað um málið og fengið gesti á fund til sín og eins bárust umsagnir sem nefndin fór yfir.

Eins og heiti frumvarpsins ber með sér miðar það að því að auðvelda einstaklingum sem eiga í verulegum fjárhagsörðugleikum að leita nauðasamninga. Í því felst að ríkið greiðir kostnað af aðstoð við að leita nauðasamnings, fyrst og fremst lögmannsþóknun, ásamt greiðslu tryggingar fyrir kostnaði við undirbúning og gerð nauðasamnings. Þó er miðað við að slík aðstoð nemi að hámarki 250.000 kr.

Samkvæmt frumvarpinu verður það í höndum þriggja manna nefndar sem dómsmálaráðherra skipar að yfirfara umsóknir og meta þörfina á réttaraðstoð í hverju tilviki fyrir sig. Allsherjarnefnd leggur áherslu á að fjárhagsaðstoð nemi aldrei hærri fjárhæð en sem svarar til raunverulegs kostnaðar í hverju tilviki fyrir sig. Skv. 5. gr. getur ráðherra sett reglugerð þar sem mælt er nánar fyrir um framkvæmd laganna. Nefndin telur brýnt að slík reglugerð verði sett og þar verði m.a. tekið á þessu atriði.

Með hliðsjón af framansögðu mælir nefndin með að frumvarpið verði samþykkt óbreytt. Allir nefndarmenn allshn. undirrita nefndarálitið, en tveir nefndarmenn eru þó með fyrirvara.