Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 16:01:31 (6452)

1996-05-22 16:01:31# 120. lþ. 145.8 fundur 527. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 15/1996, SJS
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[16:01]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Eins og hæstv. utanrrh. gat um áðan fór fram umræða um þetta mál fyrir nokkru síðan í kjölfar þess að samningar voru undirritaðir í Ósló. Ég get eins og hæstv. ráðherra að nokkru leyti vísað til þeirra umræðna um mína afstöðu til málsins. Ég gagnrýndi þá og endurtek hér gagnrýni á ákveðin vinnubrögð sem þessu máli tengjast. Ég hélt því þá fram að í raun hefðu atburðir helgarinnar og undirskriftin í Ósló verið sýndarmennska og leiksýning í ljósi þess að efnislega hefði samkomulagið verið klappað og klárt og frá gegnið þá allnokkru áður.

Það sem ég taldi og tel enn sérstaklega gagnrýnisvert í þeim efnum er að stofnanir eins og utanrmn., Alþingi og jafnvel hagsmunaaðilar séu þar með í raun gerð að ómerkingum eða höfð að fíflum með því að telja þeim trú um að við slíka aðila sé verið að eiga eiginlegt samráð ef í reynd er svo í pottinn búið að búið er að ganga frá öllu þannig að litlu verði um þokað.

Það kom síðan á daginn og var staðfest í viðtölum fjölmiðla við hæstv. ráðherra sólarhring eftir að ég lét þessi ummæli falla að í reynd var efnislega í aðalatriðum gengið frá þessu samkomulagi á leynifundi í London allnokkru áður og staðfestust þar þær upplýsingar sem ég hafði fengið að í reynd hafi til að mynda þær tölur sem síðan gengu inn í samninginn að mestu leyti legið fyrir, enda voru þær komnar á flot hér heima. Þessi vinnubrögð gagnrýni ég og vona að þau eigi ekki eftir að endurtaka sig í mikilvægum málum af þessu tagi í komandi framtíð.

Að sjálfsögðu er öllum ljóst sem eitthvað til þessara mála þekkja að nauðsynlegt getur verið að vinna að slíkum málum í skjóli trúnaðar og í friði fyrir fjölmiðlum. Um slíkt er ekki að ræða hér enda svo um hnútana búið að viðkomandi stofnanir og þá einkum og sér í lagi utanrmn. Alþingis eru bundnar trúnaði og mér er ekki kunnugt um að sá trúnaður hafi verið brotinn þannig að það hafi nokkurn tíma skaðað íslenska hagsmuni í tilvikum sem þessum, ekki heldur þó haft hafi verið samráð við aðila eins og helstu hagsmunasamtök eða viðkomandi fagnefnd þingsins, í þessu tilviki sjútvn. Ég tel því að þessi vinnubrögð eigi sér ekki skjól í því að mönnum hafi verið nauðugur sá kostur að ganga fram hjá slíkum aðilum sökum þess að málið þyrfti að fara leynt.

Ég tel, herra forseti, í öðru lagi að ákveðnir efnisþættir þessa samkomulags séu okkur Íslendingum óhagstæðir. Það er einkum tvennt sem ég læt tímans vegna nægja að ræða hér. Það er í fyrsta lagi hin lága upphafshlutdeild sem Íslendingar bera úr býtum, aðeins liðlega 17% af stofni sem ég tel að við getum, bæði á líffræðilegum og sögulegum grunni, gert fulla og réttmæta kröfu til að vera með a.m.k. nálægt þriðjungs hlutdeild í miðað við veiðar á fullvöxnum fiski. Ég óttast og kem betur að því síðar að þessi lága upphafsprósenta eigi eftir að fylgja okkur sem erfiður baggi inn í framtíðina í þessum samskiptum.

Seinna atriðið er 6. gr. bókunarinnar, prótokollsins, sem er I. fskj. með þessari tillögu. Eftir að hafa haft næði til að athuga orðalag þeirrar greinar betur er ég enn óánægðari með hana nú en ég var eftir fyrsta yfirlestur á fyrsta degi eftir að samningarnir voru gerðir opinberir. Ég undrast satt best að segja að samningamenn Íslands skyldu nokkurn tíma fallast á orðalag af því tagi sem er í 2. tölul. 6. gr. bókunarinnar. Fyrri töluliðurinn kveður á um að aðilar skuli koma á fót vinnuhópi vísindamanna og er allt gott um það að segja, það er sjálfsagt mál. Seinni töluliðurinn, sá sem langmestu máli skiptir hér og er í raun og veru það afdrifaríka í þessu samkomulagi varðandi framtíðina er þannig orðaður, herra forseti, að veiklulegra orðalag gagnvart íslenskum hagsmunum er erfitt að hugsa sér. Þar segir, með leyfi forseta:

,,Aðilar skulu nota niðurstöður vinnuhópsins sem grundvöll samningaviðræðna í framtiðinni um verndun stofnsins, skynsamlega nýtingu hans og stjórnun veiða úr honum, m.a. vegna hugsanlegra breytinga á leyfilegum heildarafla og aflahlutdeild aðila að svo miklu leyti sem dreifing stofnsins réttlætir breytingar á gildandi fyrirkomulagi [þ.e. gildandi fyrirkomulagi samkvæmt þessum samningi]. Við sérhverja endurskoðun skal tekið tilhlýðilegt tillit til dreifingar allra hluta stofnsins.``

Þrennt í þessu orðalagi er afar veikt fyrir íslenska hagsmuni. Það er í fyrsta lagi að það er ekki kveðið fastar að orði um endurskoðunarferlið sem slíkt en svo að tala um hugsanlega endurskoðun og breytingu á hlutföllum, ,,possible`` á ensku.

Í öðru lagi er í sömu málsgrein nefnt gildandi fyrirkomulag, þ.e. sú skipting sem samningurinn festir niður, þar með talin 17,2% til Íslands. Í þriðja lagi er vísað til dreifingar allra hluta stofnsins. Hvað þýðir það á mannamáli? Það þýðir að Rússar munu segja: Já, en það verður að taka tillit til þess að við höfum alla ungsíldina, og það þýðir að Norðmenn munu segja: Við höfum allan hrygningarstofninn og hann er svona og svona mikilvægur og það er ekki forsenda til að vera að breyta þessu mikið, drengir góðir eða dömur mínar og herrar. Herra forseti, ég er ákaflega vonsvikinn yfir þessu veiklulega orðalagi 6. gr. svo ekki sé talað um miðað við það hvernig hún var kynnt á fyrstu fundum hæstv. ráðherra í raun sem einhver sigur fyrir íslenskan málstað í þessum efnum. Það er öðru nær, því miður. Staða Íslands jafnvel þótt síldin breyti verulega um göngumynstur á næstu árum og fari að vera meira inni í lögsögunni verður sú að standa frammi fyrir því annaðhvort að segja einhliða upp samkomulaginu eða leita leiða innan ramma samkomulagsins til að fá þessari skiptingu breytt. Og mér segir svo hugur að menn muni verða ákaflega kjarklitlir gagnvart því að segja samkomulaginu upp og það geti staðið í áralöngu þrefi um það að fá að hreyfa við þessari prósentu. Þetta er að mínu mati það langveikasta og alvarlegasta við samninginn, herra forseti, eins og hann er úr garði gerður.

Að öðru leyti er ekki margt um þetta mál að segja. Einhverjir kunna að hafa, eins og maður hefur séð í blaðafréttum að undanförnu, tilhneigingu til þess að lesa inn í þennan samning kosti og galla út frá því nákvæmlega hvað gerist á þessari vertíð varðandi dreifingu síldarinnar, hvað gerðist í fyrra eða hvað kann að gerast á næsta ári. Ég held að það sé ekki merkilegur málflutningur satt best að segja. Það eru langtímahagsmunirnir sem hér skipta máli, áratuga hlutdeild þjóðanna í þessum mikilvæga stofni sem vonandi nær fullri stærð og verður við lýði sem einn mikilvægasti nytjastofn í norðanverðu Atlantshafinu á komandi áratugum eins og hann á að vera. Þá verður hver prósenta dýr og þá skiptir ekki miklu máli hvort t.d. frjálsar veiðar í sumar og ólympískar veiðar sem við hefðum getað hafið mun fyrr en við gerðum hefðu hugsanlega, vegna þess að síldin gengur nú óvenjusnemma norður á bóginn, þýtt eitthvað minni veiði til okkar í ár. Ég leyfi mér að segja að það eru það smámunir. Það eru líka smámunir hvort eitthvað feitari síld næst að einhverju leyti út á þennan samning borið saman við hitt hver verður langtímahlutdeild okkar í þessum stofni. Um það er að sjálfsögðu enginn spámaður, hvorki ég frekar en aðrir, hvernig best hefði ræst úr hagsmunum okkar í þeim efnum. En eitt veit ég og það er það að upphafið veldur miklu. Sá veldur miklu sem upphafinu veldur og það er alveg borin von að horfa fram hjá því að hlutdeild Íslands í þessu upphafi samningaviðræðna um þennan stofn er lélegt.