Samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 16:28:33 (6456)

1996-05-22 16:28:33# 120. lþ. 145.8 fundur 527. mál: #A samningar um veiðar úr norsk-íslenska síldarstofninum# þál. 15/1996, SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[16:28]

Steingrímur J. Sigfússon (andsvar):

Herra forseti. Auðvitað er ekki við öðru að búast en hæstv. utanrrh. reyni að bera blak af þessu samkomulagi. Reyndar er vandasamt að ræða um viðkvæm hagsmunamál af þessu tagi fyrir opnum tjöldum. Menn reyna væntanlega að haga orðum sínum þannig að það skaði ekki samningsstöðu eða framtíðarhagsmuni Íslands að þessu leyti. Þar af leiðandi segi ég kannski ekki að öllu leyti það sem mér er efst í huga gagnvart orðalagi þessarar 6. gr. af því að ég er ekki viss um að það væri skynsamlegt að þingmenn á Alþingi Íslendinga væru beinlínis að tjá sig þannig um hana eins og væri skapi mínu næst. En ég get bara ekki undir nokkrum kringumstæðum, herra forseti, gefið þeim samningamönnum mjög háa einkunn sem ekki reyna að hnýta svolítið betur fyrir pokann en þarna er gert. Samkvæmt minni máltilfinningu hvort heldur sem er á íslenskri tungu sem ég tel að sé sæmileg eða enskri, þá er þetta afar veiklulegt orðalag sem þarna var sett á blað. Til þess að reyna að ramma það af að úr því að upphafsprósenta okkar í þessari skiptingu er svona lág, langt undir því sem söguleg og líffræðileg rök ættu að veita okkur miðað við stofninn í sæmilegri stærð, þá hefði úr því að þetta var orðað á annað borð þurft að vera mjög vel valið orðalag gagnvart því að við ættum helst, liggur mér við að segja, sjálfkrafa leiðréttingu vísa á grundvelli breyttrar hegðunar stofnsins. Ef þarna hefðu verið fest í sessi tiltekin líffræðileg módel með afgerandi orðalagi um að þau leiddu sjálfkrafa til leiðréttinga í okkar þágu þá hefði verið öðru til að dreifa. Auðvitað er það út af fyrir sig þannig að þegar semja þarf um deilumál milli þjóða eða samskipti þá gerist ekkert sjálfkrafa í þeim efnum. Það þarf að semja. Að því leyti til hefði líka mátt spyrja sig hvort bókunin hefði ekki betur öll verið tímabundin, t.d. til reynslu í þrjú ár á meðan þjóðirnar ræddust áfram við um framtíðarfyrirkomulag þessara mála.

Um aðra hluti, herra forseti, verð ég bæði tímans vegna og eins vegna hins að það er kannski viðkvæmt að ræða þá að öllu leyti hér, að geyma mér til betri tíma að ræða við hæstv. ráðherra.