Tekjuskattur og eignarskattur

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 16:31:53 (6457)

1996-05-22 16:31:53# 120. lþ. 145.7 fundur 344. mál: #A tekjuskattur og eignarskattur# (nauðasamningar) frv. 64/1996, Frsm. ÁE (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[16:31]

Ágúst Einarsson:

Herra forseti. Ég mæli fyrir nál. frá efh.- og viðskn. á þskj. 1007. Með þessu frv. mun fjmrh. öðlast heimild til að mæla með nauðasamningum að fullnægðum tilteknum skilyrðum. Þá mun þessi heimild hafa þau áhrif að skattheimta ríkissjóðs verði ekki sú hindrun sem verið hefur hingað til fyrir því að nauðasamningar gætu tekist við skuldheimtumenn.

Fjallað var um þetta mál í efh.- og viðskn. og komu á fund nefndarinnar Indriði H. Þorláksson, skrifstofustjóri í fjármálaráðuneyti, Sigurður Þórðarson ríkisendurskoðanda og Lárus Ögmundsson, lögfræðingur Ríkisendurskoðunar. Þá fékk nefndin sendar umsagnir um málið frá Alþýðusambandi Íslands, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, Lögmannafélagi Íslands, Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna, Sambandi íslenskra viðskiptabanka, Samtökum iðnaðarins og Verslunarráði Íslands.

Uppistaðan í umsögnum var jákvæð gagnvart þessum breytingum þannig að nefndin leggur til að frumvarpið verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Orðin ,,sem og öðrum sköttum sem lokunarheimild fylgir lögum samkvæmt`` í 1. tölul. 3. efnismgr. 1. gr. falli brott.

Skilyrði sem sett eru fyrir nauðasamningum eru m.a. að gjaldandi sé skuldlaus í virðisaukaskatti, staðgreiðslu opinberra gjalda, tryggingagjalds og vörugjaldi, sem og öðrum sköttum. Í frv. stóð ,,sem og öðrum sköttum sem lokunarheimild fylgir lögum samkvæmt``. Nefndin taldi að ekki ætti að gera það með þessum hætti í útfærslu frv. og gerir því tillögu um það að fella þessi orð niður, ,,sem og öðrum sköttum sem lokunarheimild fylgir lögum samkvæmt``. Að öðru leyti mælir nefndin með því að frv. verði samþykkt og öll hv. efh.- og viðskn. stendur að þessu nál.