Vegáætlun 1995--1998

Miðvikudaginn 22. maí 1996, kl. 17:26:31 (6467)

1996-05-22 17:26:31# 120. lþ. 145.9 fundur 295. mál: #A vegáætlun 1995--1998# (endurskoðun fyrir 1996) þál. 12/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 145. fundur

[17:26]

Svavar Gestsson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er í sjálfu sér enginn munur á mínum viðhorfum og hv. þm. í þessu efni. Ég tel að ríkissjóður sé sjóður sjóðanna og hann eigi að eiga sem flesta vini. Það situr síst á mér eftir margar skýrslur um þau mál og margar ræður að finna að þeim viðhorfum sem hv. þm. hafði í þeim efnum.

En það er dálítið sérkennileg staða sem er með þessi verkefni eins og ég rakti áðan þannig að mér finnst kannski réttlætanlegra en venjulegra að skoða þessa hluti. Svo er hitt líka að mér sýnist satt að segja að staða ríkissjóðs á þessu ári eigi ekki að hafa versnað. Mér sýnist að miðað við allar aðstæður geti staða ríkissjóðs batnað dálítið á þessu ári, sem betur fer, frá því sem menn höfðu gert ráð fyrir þegar gengið var frá fjárlögunum. Það á m.a. rætur til verulegrar innflutningsaukningar hvort sem það er af góðu eða illu. Það er samt sem áður veruleiki að það hefur áhrif á stöðu ríkissjóðs. Mér finnst þess vegna að það sé kannski réttlætanlegra en ella væri að hreyfa máli af því tagi sem hér er um að ræða.

Það er líka alveg rétt hjá hv. þm. að sú tala sem hér er nefnd í þál. sé að einhverju leyti óraunsæ. Hún er jafnvel of há, ég skal ekki um það segja. Það er hugsanlegur hlutur m.a. vegna þess að olíuverð geti farið lækkandi vegna þess að nú er farið aftur að framleiða og selja olíu í Írak. Ég bendi þá á að sjónarmið af því tagi sem hér eru uppi hafa mjög oft áður komið fram á Alþingi þegar breytingar hafa orðið á olíuverði, alveg sérstaklega hjá þingmönnum Framsfl. fyrr á árum og Sjálfstfl. Ég man t.d. mjög vel eftir því á þeim tíma þegar ég var viðskrh. og bensínverð erlendis hækkaði um 200% voru þingmenn Sjálfstfl. og Framsfl. þeirrar skoðunar að það væri mjög nauðsynlegt að setja þak á þessa hluti áður en miklu lengra væri haldið og ríkissjóður græddi of mikið á því.