Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 10:37:49 (6474)

1996-05-23 10:37:49# 120. lþ. 146.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SJS (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur

[10:37]

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Með frumvörpum sínum er hæstv. ríkisstjórn að rjúfa áratuga hefð sem skapast hefur um samskipti aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda. Hæstv. ríkisstjórn á því að velja nú heppilegasta kostinn og draga þetta frv. til baka. Frv. er þannig til komið og það er þannig að innihaldi að afleiðingar af lögfestingu þess verða ófyrirséðar. Hæstv. ríkisstjórn er að stofna til ófriðar, safna glóðum elds að höfði sér með ófyrirsjáanlegum afleiðingum. Að vísu hefur frv. tekið miklum breytingum og er orðið að verulegu leyti útþynnt frá því sem upphaflega var en enn standa eftir efnisþættir sem eru ekki viðunandi og enn eru óuppgerðar sakir vegna þeirra vinnubragða sem hæstv. ríkisstjórn hefur ástundað. Það er því langhyggilegast fyrir alla aðila að þetta frv. hverfi af borðum þingmanna og því rétt að segja já við þeirri tillögu í nefndaráliti á þskj. 985 að vísa því til ríkisstjórnar. Ég segi já.