Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 10:40:10 (6476)

1996-05-23 10:40:10# 120. lþ. 146.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, SvG (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur

[10:40]

Svavar Gestsson:

Virðulegi forseti. Fyrir þinginu liggja tvö frumvörp, það sem við fjöllum um hér og annað til, sem gera ráð fyrir verulegri skerðingu á frelsi og umsvifamöguleikum verkalýðshreyfingarinnar í landinu. Við höfum reynt allt sem unnt er í þessari stofnun til þess að stöðva framgang þessara mála og hvetja ríkisstjórnina til þess að draga þau til baka. Umræður um þessi mál hafa þegar tekið samtals í kringum 90 klukkustundir og það eru ekki dæmi um annað eins í umræðum á hv. Alþingi.

Það er augljóst, hæstv. forseti, miðað við þær yfirlýsingar sem liggja fyrir að þó að meiri hlutinn hafi sitt fram í þessari stofnun verður meðferð málsins eftir Alþingi vísað út til fólksins, út til samfélagsins. Það byggi ég m.a. á þeirri staðreynd að yfirlýsingar liggja fyrir frá forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar sem heiðra okkur með nærveru sinni, forustumenn Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja. Hyggilegast er engu að síður að hafna þessu máli og þess vegna styð ég frávísunartillögu minni hluta félmn.