Stéttarfélög og vinnudeilur

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 10:45:02 (6479)

1996-05-23 10:45:02# 120. lþ. 146.1 fundur 415. mál: #A stéttarfélög og vinnudeilur# (sáttastörf, vinnustaðarfélög, vinnustöðvun o.fl.) frv. 75/1996, BH (grein fyrir atkvæði)
[prenta uppsett í dálka] 146. fundur

[10:45]

Bryndís Hlöðversdóttir:

Herra forseti. Verði frv. sem hér er til umræðu samþykkt sem lög frá Alþingi, þá yrðu það söguleg tíðindi því með því verður í fyrsta sinn tekið það skref að setja lög um samskipti aðila vinnumarkaðarins fullkomlega í andstöðu við gervalla verkalýðshreyfinguna í landinu. Ríkisstjórn Davíðs Oddssonar tekur sér það hlutverk að hlutast freklega til um innri málefni stéttarfélaga. Hún tekur sér það hlutverk að nýta sér þann meiri hluta sem hún hefur á hinu háa Alþingi og valtra yfir verkalýðshreyfinguna. Hún hefur rofið grið við verkalýðshreyfinguna og þar með ógnað friði á vinnumarkaði. Hún hefur valið að þjónusta atvinnurekendur og hunsa launafólk og samtök þess. Stjórnarandstaðan hefur haldið þeirri kröfu stíft á lofti að frv. skuli vísað til ríkisstjórnarinnar þar sem því verði komið í eðlilegan samráðsfarveg. Það er eina skynsamlega lausnin út úr þessu ótrúlega klúðri hæstv. ríkisstjórnar. Ég segi já.