Spilliefnagjald

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 13:14:06 (6518)

1996-05-23 13:14:06# 120. lþ. 147.4 fundur 252. mál: #A spilliefnagjald# frv. 56/1996, umhvrh. (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur

[13:14]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og fram kom við 2. umr. um málið, þá er það rétt tilvitnað hjá hv. 4. þm. Austurl. það sem hann sagð áðan að við áttum nokkur orðaskipti um þessa væntanlegu nefndarskipan. Tillagan liggur fyrir eins og hún er á þingskjölum eftir 2. umr. Það liggur líka fyrir eins og ég reyndar gat um við 2. umr. að ef þetta verður samþykkt eins og þá lá fyrir á breytingartillögum frá hv. umhvn. að ráðherra hefur alla möguleika á því að verða við þeim tilmælum sem sett eru fram í nefndarálitinu og leita leiða til að sjá til þess að þau sjónarmið sem hér eru sett fram og sem vitnað er til, sjónarmið fulltrúa atvinnulífs og almennings geti heyrst í nefndinni með þeim fulltrúum sem þar verða skipaðir samkvæmt umboði ráðherra til að tilnefna tvo menn í staðinn fyrir einn áður. Ég hef ekki valið þessa menn enn þá þannig að það liggja ekki fyrir nein nöfn í því efni, þ.e. hvaða einstaklingar þetta verða. Ég er því ekki tilbúinn til þess að kveða upp úr með það hér og nú. En ég vonast til þess að geta farið að tilmælum og ábendingum hv. nefndar í nefndaráliti.