Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 13:21:27 (6523)

1996-05-23 13:21:27# 120. lþ. 147.5 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur

[13:21]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson):

Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti samgn. á þskj. 960 um frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar ásamt breytingartillögum við sama frv. á þskj. 961.

Umræður um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar hafa staðið yfir í allmörg ár. Vegna fyrirhugaðrar aðildar Íslands að samningi um Evrópska efnahagssvæðið skipaði hæstv. samgrh. nefnd þann 12. ágúst 1991 til þess að endurskoða lög þessi. Nefndin skilaði áliti í apríl 1993 og komst að þeirri niðurstöðu að skynsamlegast væri að breyta Póst- og símamálastofnun í hlutafélag. Síðan hefur verið unnið að þeim undirbúningi með margvíslegum hætti.

Það er ekki óeðlilegt að menn spyrji hvers vegna nauðsyn sé á því að breyta gróinni stofnun eins og Póst- og símamálastofnun í hlutafélag. Ég hygg að mörgum sé þannig farið að þeir telji að það þurfi býsna veigamikil rök til þess að breyta stofnun sem í meginatriðum hefur staðið sig vel og hefur t.d. tryggt hér lág afnotagjöld Pósts og síma. Hver eru þessi rök? Þau fyrstu eru þessi:

Miklar breytingar eru núna að verða á skipan fjarskiptamála í sem breiðustum skilningi þess hugtaks í heiminum. Hin gamla vernd og þröskuldur okkar Íslendinga, fjarlægðin, á ekki við þegar kemur að fjarskiptamálum. Póstur og sími, sem fyrrum gat starfað í tiltölulega vernduðu umhverfi án afskipta eða íhlutunar erlendra aðila, stendur nú frammi fyrir því að tæknin hefur gert það að verkum að þessi samkeppni er orðin staðreynd. Það er ljóst að þessi mál hafa þróast mun hraðar en menn almennt óraði fyrir. Póstþjónusta og fjarskiptastarfsemi af öllu tagi verður ekki lengur rekin sem einkaréttarlegt svið. Samkeppni er þegar orðin að staðreynd og mun verða á fleiri sviðum en áður. Við þessu þarf að bregðast með margvíslegum hætti til þess að tryggja að hér á landi verði til staðar öfugt íslenskt fjarskiptafyrirtæki sem getur tekið þátt í þeirri miklu byltingu á fjarskiptasviðinu sem er að verða og mun verða einn af hornsteinum framtíðarþjóðfélagsins á Íslandi.

Þegar fyrirtæki eins og Póstur og sími er kominn í nýtt umhverfi, umhverfi samkeppninnar, þá hljótum við að rökstyðja það sérstaklega ef við förum ekki svipaða leið formbreytingar og farin hefur verið í löndunum í kringum okkur þar sem álíka hefur staðið á. Það er tæplega tilviljun að fyrirtæki á sviði fjarskipta á öðrum Norðurlöndum hafa undantekningarlaust farið leið formbreytingar, hlutafélagaleiðina. Til marks um það hversu ör þróunin hefur verið er það að segja að árið 1990 höfðu einungis tvö lönd á hinu Evrópska efnahagssvæði breytt rekstrarformi hinna opinberu fyrirtækja á starfssviði Pósts og síma.

Nú standa hins vegar mál þannig að Póstur og sími er eina símastofnunin á Evrópska efnahagssvæðinu sem enn hefur ekki verið breytt í hlutafélag. Öll hafa þessi lönd með öðrum orðum kosið þessa leið til þess að takast á við verkefni framtíðarinnar.

Það var líka mjög athyglisvert sem fram kom við 1. umr. um þetta mál á Alþingi að almennt voru menn þeirrar skoðunar að það rekstrarform sem nú væri til staðar væri alls ekki heilagt og það kæmi fyllilega til álita að skoða önnur form. Þá liggur auðvitað langsamlega beinast við að við nýtum hlutafélagaformið því að það er það sem við þekkjum best í atvinnurekstri hér á landi. Það hefur almennt gefist vel og þetta er það form sem við höfum þróað mest, m.a. með löggjöf. Stefán Már Stefánsson prófessor bendir á það í bók sinni um hlutafélög að hér hafi orðið til ítarleg og viðamikil lagasetning um hlutafélög með þarfir viðskiptalífsins að leiðarljósi þar sem markmiðið hefur einkum verið að skapa þannig öryggi í viðskiptum að viðskiptamenn og hluthafar njóti nægilegrar verndar.

Nauðsynlegt er að tryggja að Póstur og sími geti farið að taka þátt í skyldum rekstri. Smám saman eru skilyrðin á milli þjónustusviða síma, fjarskipta og tölvu að verða mjög óljós. Það eru því að verða mjög vandfundin rök fyrir því að fyrirtæki á einu þessara sviða hasli sér ekki völl á öðru. Enginn vafi er á því að að núverandi rekstrarform Póst- og símamálastofnunar virkar hamlandi á þessa þróun og er því þrándur í götu þeirrar uppbyggingar sem Póstur og sími þarf að geta tekið þátt í, m.a. á alþjóðlegum vettvangi. Því er jafnvel haldið fram að þetta rekstrarform standist tæplega í ljósi þeirra breytinga sem fram undan eru í ljósi alþjóðlegra skuldbindinga.

Virðulegi forseti. Í starfi sínu að undirbúningi leitaði samgn. mjög víða fanga. Við kölluðum m.a. á fund til okkar fulltrúa stéttarfélaganna sem starfa innan Pósts og síma. Við fengum enn fremur á okkar fund ýmsa sérfræðinga og fórum mjög rækilega yfir lögfræðileg álitamál og þær grundvallarspurningar er lutu að réttarstöðu starfsmanna Pósts og síma.

Grundvallaratriði í þessu sambandi er það sem kemur fram í greinargerð með því frv. sem við ræðum í dag, þ.e. að ætlunin er að tryggja starfsmönnum Póst- og símamálastofnunar störf hjá nýju félagi Pósts og síma hf. á kjörum sambærilegum þeim sem þeir nutu áður hjá Póst- og símamálastofnun. Þetta er nauðsynlegt að menn hafi í huga. Þær breytingartillögur sem meiri hluti hv. samgn. leggur hér fram eru í allnokkrum liðum.

Allnokkrar breytingar eru gerðar á þeim þætti frv. er lýtur að vinnunni að sjálfri formbreytingunni. Breytingartillögur meiri hluta samgn. snúa í fyrsta lagi að því að hlutafélagið Póstur og sími hf. taki til starfa 1. janúar 1997 í stað 1. október 1996. Kemur þar hvort tveggja til að heppilegast er talið að starfsemi félagsins hefjist í upphafi almanaksárs og einnig hitt að ekki skipti síður máli að betri tími gefst þá til nauðsynlegs undirbúnings vegna stofnunar félagsins. Þá er gerð tillaga um að lögin taki gildi 1. september nk. í stað 15. júlí, en að lögin um stjórn og starfrækslu Póst- og símamálastofnunar, nr. 35/1977, með síðari breytingum, falli úr gildi þegar Póstur og sími hf. tekur til starfa, þ.e. frá 1. janúar 1997. Með því að gildistaka laganna verður síðar en gert var ráð fyrir í upphaflegu frv. þykir rétt að við endanlegt mat á stofnhlutafé skuli sérstaklega höfð hliðsjón af áhrifum verðbreytinga og rekstrar á efnahag stofnunarinnar á árinu 1996 og er það áréttað með breytingartillögu við frv. þar að lútandi.

Í öðru lagi er ákvæði um stofndag sett inn í bráðabirgðaákvæði. Þá er kveðið skýrt á um skipan sérstakrar þriggja manna undirbúningsnefndar til þess að annast undirbúning og nauðsynlegar aðgerðir vegna formbreytingarinnar. Þessi nefnd fær skýrt afmarkað hlutverk. Heimildir hennar ná aðeins til þess að gera löggerninga sem nauðsynlegir eru vegna undirbúnings að stofnun félagsins og vegna fyrirhugaðrar starfrækslu. Skal félagið bundið af umræddum löggerningum.

Það mál sem mest hefur verið rætt í tengslum við formbreytingu á Póst- og símamálastofnun eru þau sem lúta sérstaklega að réttindum starfsmanna. Í þessu sambandi er mjög mikilvægt að hafa í huga það ákvæði 1. mgr. 8. gr. frv. að fastráðnir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar skuli eiga rétt á störfum hjá hinu nýja félagi og skulu þeim boðnar stöður hjá þeim sambærilegar þeim er þeir áður gegndu hjá stofnuninni enda haldi þeir þeim réttindum sem þeir þegar hafa áunnið sér hjá stofnuninni.

Við 1. umr. þessa máls var allmikið rætt um það hver væri staða starfsmanna varðandi biðlaunaréttinn. Um þetta var nokkur ágreiningur og þessi mál voru ennfremur rækilega reifuð í athugasemdum sem samgn. bárust jafnt munnlega sem skriflega af fulltrúum starfsmanna og stéttarfélaga og lögfræðinga sem kallaðir voru til verksins. Niðurstaða meiri hluta samgn. var sú að leggja til nokkrar breytingar á 8. gr. frv. þar sem sérstaklega er fjallað um þessi mál.

Við 1. mgr. bætist þannig við ákvæði þar sem sérstaklega er tekið fram að um rétt fastráðinna starfsmanna til biðlauna skuli farið eftir þeim lögum um réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins sem eru í gildi við gildistöku frv. Þá var nokkuð gagnrýnt það ákvæði frv. að starfsmenn Póst- og símamálastofnunar yrðu að hafa fallist á tilboð um sambærilegt starf hjá Pósti og síma hf. innan hálfs mánaðar frá því að þeim bærist það. Því er hér lagt til að fresturinn verði lengdur í sex vikur.

Í 3. mgr. frv. var gert ráð fyrir því að fastráðinn starfsmaður missti biðlaunarétt sinn ef hann höfðaði mál til greiðslu biðlauna. Frá þessu er fallið með breytingartillögu meiri hlutans en þess í stað er byggt á því að ef fastráðinn starfsmaður, þrátt fyrir að taka sambærilegri stöðu hjá Pósti og síma hf., fái greidd biðlaun eða bætur fyrir missi biðlauna úr ríkissjóði vegna formbreytingarinnar, þá falli sjálfkrafa niður biðlaunaréttur hans hjá félaginu. Með þessu eru tekin af öll tvímæli um að menn geti ekki átt tvöfaldan biðlaunarétt. Með öðrum orðum, menn geta ekki í senn flutt með sér biðlaunarétt yfir í hið nýja félag og átt rétt á biðlaunum frá Póst- og símamálastofnun.

Um önnur réttindi en biðlaunarétt fer ýmist samkvæmt kjarasamningum sem í gildi eru eða almennum lögum. Ef sérstaklega er litið til lífeyrisréttinda þá er í 17. gr. laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins kveðið á um þetta í 2. mgr. þar sem segir, með leyfi virðulegs forseta:

,,Sé staða eða starfi sjóðfélaga lagður niður, á hann rétt á að vera áfram í sjóðnum og greiða iðgjöld, sem miðuð séu við laun í þeim launaflokki, er staða hans var í, er hún var lögð niður. Nýtur hann þá sömu réttinda úr sjóðnum sem hann hefði gegnt starfi sínu áfram.``

[13:30]

Það er þýðingarmikið að hafa þetta í huga vegna þess að það svarar í raun spurningunni um það hvort menn geti haldið áfram að vinna sér rétt í Lífyrissjóði starfsmanna ríkisins þó svo að formbreyting Póst- og símamálastofnunar eigi sér stað og hvernig sú ávinnsla á sér stað. Þetta svarar líka spurningum manna sem svo stendur á um að hafa verið að vinna sér rétt og hafa stefnt að því að nýta sér t.d. hina svokölluðu 95 ára reglu. Möguleikarnir eru til staðar líkt og gildandi lög um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins kveða á um.

Ástæða er til þess að vekja athygli á því að umsagnaraðilar gerðu engar skriflegar athugasemdir við 4. mgr. 8. gr. frv. þar sem kveðið er á um lífeyrisréttindi, enda er þar einfaldlega vísað til gildandi laga um Lífeyrissjóð starfsmanna ríkisins.

Það er enn fremur rétt að minna á nú þegar við erum að ræða formbreytingu á ríkisfyrirtæki að sérstök lög um réttarstöðu starfsmanna við aðilaskipti að fyrirtækjum voru samþykkt á Alþingi á árinu 1993, lög nr. 77 frá því ári. Þar er gert ráð fyrir því í 2. gr. laganna að nýr eigandi, og það er ljóst mál að þetta á við í tilviki Pósts og síma, skuli takast á hendur réttindi og skyldur fyrri eiganda samkvæmt ráðningarsamningi og virða þau launakjör og starfsskilyrði sem samþykkt hafa verið í almennum kjarasamningum með sömu skilmálum og giltu fyrir fyrri eiganda þar til samningi verður sagt upp eða hann rennur út eða þar til annar kjarasamningur öðlast gildi eða kemur til framkvæmda eins og segir í 2. gr. þeirra laga. Þetta þýðir að þrátt fyrir formbreytingu á Póst- og símamálastofnun er ljóst að núverandi kjarasamningar starfsmanna munu halda gildi sínu þar til öðruvísi er um samið. Þau réttindi sem fjallað er um í kjarasamningum halda sér óhögguð þar til nýr kjarasamningur hefur verið gerður. Það kemur þannig til umfjöllunar í frjálsum samningum aðila hvernig áframhaldandi ávinnslurétti, sem svo er kallaður, verður háttað. Það hlýtur að teljast óeðlilegt að binda það í lögum um tiltekið hlutafélag að áframhaldandi ávinnsluréttur skuli fara eftir öðru en því sem samið er um milli starfsmanna og stofnunar.

Um skipan orlofsmála er fjallað í orlofslögum nr. 30/1987 og kjarasamningum. Um áframhaldandi ávinnslurétt í orlofsmálum yrði að sjálfsögðu samið í komandi kjarasamningum en á meðan nýir samningar eru ekki undirritaðir gilda að sjálfsögðu þeir samningar sem nú eru í gildi milli Póst- og símamálastofnunar og starfsmanna hennar. Svipað er að segja um fæðingarorlof. Um fæðingarorlof gilda sérstök lög, nr. 57/1987, og reglugerð enn fremur.

Um sértæk fæðingarorlofsréttindi verður að fjalla í komandi kjarasamningum, þ.e. þau réttindi sem eru umfram lögin þar sem reglugerð er bundin við opinbera starfsmenn. Það er hins vegar ástæða til þess að árétta að núverandi reglugerð um fæðingarorlof mun gilda fyrir starfsmenn Póst- og símamálastofnunar og Pósts og síma hf. þar til um annað verður sérstaklega samið.

Um veikindarétt opinberra starfsmanna gildir nú reglugerð nr. 411/1989. Áunnin veikindaréttindi sem starfsmenn hafa hlotið þegar formbreytingin á sér stað munu vitaskuld fylgja inn í hið nýja félag.

Virðulegi forseti. Sú breyting sem hér er verið að leggja til á að geta orðið til þess að efla stöðu Pósts og síma enn frekar og tryggja betur stöðu félagsins í framtíðinni. Það er mikið í húfi því að hér er um að ræða mjög þýðingarmikla starfsemi. Engu að síður er verið að leggja til breytingu sem er á margan hátt flókin. Fyrirtækið sem hér um ræðir er stór vinnuveitandi og hver einasti íbúi landsins hefur bein samskipti við Póst- og símamálastofnun. Þess vegna er ekki óeðlilegt að menn vilji vanda sem best þennan undirbúning. Það hefur verið gert með lagasetningunni með því að málið hefur átt langan aðdraganda eða allt frá árinu 1991 að sett var á laggirnar nefnd, eins og áður sagði, til þess að fjalla um breytingar á réttarstöðu Pósts og síma. Það hefur jafnframt verið gert í vinnu samgn. sem kallað hefur til sín fjölda fólks og leitað eftir skriflegum og munnlegum umsögnum víða að. Engu að síður er það svo að fjölmörg álitamál hljóta að koma upp í vinnunni sem fram fer á þessu ári að frekari undirbúningi formbreytingarinnar. Þess vegna kaus meiri hluti hv. samgn. að lengja þann tíma sem til undirbúnings væri áður en hið nýja félag tæki til starfa.

Það er skoðun mín að það sé eðlilegt að þegar mál skýrast er lengra líður á árið verði samgn. Alþingis gerð grein fyrir stöðu málsins og hún fái þannig tækifæri til að fylgjast með þessari mikilsverðu vinnu.

Ég vil svo að lokum í umfjöllun um þetta frv. þakka meðnefndarmönnum mínum jafnt í meiri hluta sem í minni hluta ágætt samstarf og góða vinnu við undirbúning þessa máls. Við sem stöndum að þessu nefndaráliti höfum hlýtt á margvísleg og ólík viðhorf og reynt að taka ákvörðun okkar á grundvelli þess sem við vissum best fyrir starfsemi Póst- og símamálastofnunar og til hagsbóta fyrir það starfsfólk sem þar vinnur og fyrir notendur Pósts og síma.

Undir nefndarálit meiri hluta samgn. ritar sá sem hér stendur sem er formaður og frsm., Magnús Stefánsson, Stefán Guðmundsson, Árni Johnsen, Egill Jónsson og Kristján Pálsson hv. þingmenn.

Varðandi frv. til laga um breytingu á lögum um fjarskipti nr. 73 28. maí 1984, sbr. lög nr. 32 14. apríl 1993, er það að segja að hér liggur enn fremur fyrir nefndarálit ásamt brtt. frá meiri hluta samgn. varðandi það.

Nefndin fjallaði um málið og fékk á sinn fund fulltrúa Fjarskiptaeftirlitsins, Guðmund Ólafsson, Sigurgeir H. Sigurgeirsson frá samgrn. og Andra Árnason hæstaréttarlögmann. Frv. var lagt fram sem fylgifrv. með frv. til laga um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar, en gert er ráð fyrir að hlutafélagið taki til starfa 1. janúar 1997. Með frv. er ekki gert ráð fyrir að frv. afsali sér einkarétti á því að veita talsímaþjónustu, en miðað er við að samgrh. geti falið sérstökum aðila að annast þá fjarskiptaþjónustu sem ríkið hefur einkarétt á og skal sá aðili nefnast rekstrarleyfishafi. Núgildandi fjarskiptalög gera ráð fyrir að opinberir aðilar annist framkvæmdir varðandi fjarskiptakerfið, viðhald þess og annað sem því viðkemur. Með frv. er gert ráð fyrir að rekstrarleyfishafi taki að sér þessar framkvæmdir og hann hafi þær skyldur og réttindi sem nauðsynleg eru til þess að rækja það hlutverk. Þá er lagt til að lögfest verði almenn takmörkun á bótaábyrgð rekstrarleyfishafa. Ábyrgðartakmörkunin nær eingöngu til meints tjóns sem rekja má til sambandsleyfis og rofa á fjarskiptum eða annarra truflana sem kunna að verða á rekstri fjarskiptanetsins, eða mistaka við afgreiðslu símskeyta, hvort sem rekja má slíkt til línubilana, bilana í sambandsstöðvum eða annarra ástæðna. Ákvæði um ábyrgðartakmörkun er að finna í reglugerð, en rétt þykir að veita henni ótvíræða lagastoð.

Meiri hluti nefndarinnar mælir með samþykkt frv. með breytingum sem lagðar eru til á sérstöku þingskjali og lúta að framangreindum atriðum, m.a. er miðað við að frv. verði að lögum í samræmi við frv. um Póst og síma þann 1. janúar nk. Þá leggur meiri hlutinn til að lögfest verði að eigi síðar en 1. júlí 1998 skuli notkunargjald fyrir talsímaþjónustu vera hið sama alls staðar á landinu og skuli innheimta sérstaks álags vegna langlínusamtala óheimil frá þeim tíma. Þessi breyting er talin möguleg með hliðsjón af tækniframförum og í ljósi þeirra. Rétt þykir að veita nokkurn aðlögunartíma svo að sem minnst röskun hljótist af.

Þá mæli ég að lokum fyrir nefndaráliti á þskj. 962 um frv. til laga um breytingu á póstlögum nr. 33/1986, frá meiri hluta hv. samgn. Nefndin fjallaði um viðkomandi mál og fékk á sinn fund Halldór S. Kristjánsson, skrifstofustjóra í samgrn. Frv. var lagt fram sem fylgifrv. með 331. máli sem fjallar um formbreyting Pósts og síma. Með frv. eru aðeins lagðar fram breytingar sem eru nauðsynlegar vegna fyrirhugaðrar formbreytingar á Pósti og síma. Þar sem gert er ráð fyrir að Póstur og sími hf. taki til starfa um áramótin 1996--1997 en ekki 1. október 1996 eins og upphaflega var gengið út frá í frv. leggur nefndin til að frv. verði samþykkt með eftirfarandi breytingu: Í stað orðanna ,,1. október 1996`` í 6. gr. komi: 1. janúar 1997.

Undir þetta nefndarálit rita Einar K. Guðfinnsson formaður og frsm., Egill Jónsson, Magnús Stefánsson, Kristján Pálsson, Stefán Guðmundsson og Árni Johnsen.