Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 13:38:23 (6524)

1996-05-23 13:38:23# 120. lþ. 147.5 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. minni hluta GÁS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur

[13:38]

Frsm. minni hluta samgn. (Guðmundur Árni Stefánsson):

Virðulegi forseti. Hér hygg ég að við ræðum eitt af stóru málum þessa þings, enda ekkert smámál þegar hið háa Alþingi leggur drög að og að óbreyttu afgreiðir frá sér ný lög sem lúta að rekstri Póst- og símamálastofnunar og ekki síður þeirri mikilvægu þjónustu sem hún hefur haft með höndum um langt, langt árabil. Á íslenskan mælikvarða erum við ekki að tala um neina smásjoppu, smástofnun. Við erum að ræða um fyrirtæki sem á eigið fé upp á 13 milljarða kr. miðað við efnahagsreikninga um síðustu áramót og til viðbótar er talið að ótaldar eignir umfram það og viðskiptavild telji í kringum 8 milljarða kr. eða fyrirtæki samtals í dag sem væri á markaði upp á rúma 20 milljarða kr. Það eru engir smápeningar á íslenskan mælikvarða og nauðsynlegt að hv. þingmenn geri sér glögga grein fyrir því hvaða fjárhagslegir hagsmunir eru í húfi. Og þess vegna er mikilvægara en ella að vel til takist þegar framtíðarmálum þess er skipað með löggjöf á hinu háa Alþingi.

Í þessu frv. er ráð fyrir því gert, verði fyrirtækið að hlutafélagi, að það standi sjálft undir skuldbindingum vegna lífeyrisuppbóta og er það metið að þær lífeyrisskuldbindingar liggi nær 8 milljörðum kr. þannig að heimanmundur þessa fyrirtækis þegar lífeyrisskuldbindingar eru frá dregnar er u.þ.b. 13 milljarðar kr. Og svona sem innskot, ég kem nánar að því á eftir, virðulegi forseti, þykir mér margt benda til þess að blankur fjmrh. sjái ekki lengi þetta fyrirtæki í friði með þessa fjármuni annars vegar og komi til með fyrr en síðar að reyna að koma fyrirtækinu í verð og ná þessum fjármunum eða hluta þeirra inn í ríkissjóð, þ.e. hlutafélagið verði selt, það verði einkavætt. En nánar um það síðar.

Eilítið fleira um stærð og umfang þessa fyrirtækis í krónum og aurum, þá eru það ekki færri en 2.500 starfsmenn sem þiggja laun og framfærslu þar með frá þessu fyrirtæki og 3,8 milljarðar kr. runnu í formi launagreiðslna til þessarar starfsmanna á síðasta ári og fyrirtækið veltir ekki minna en 12 milljörðum kr. á hverju einasta ári, þ.e. um það bil einum tíunda af fjárlögum ríkisins ef það er borið saman.

Samkvæmt fjárlagafrv. 1996 er áætlaður hagnaður þessa fyrirtækis u.þ.b. bil tæpar 1.600 millj kr., 1 milljarður 581 millj. nákvæmlega. Og til viðbótar er hagnaður söludeildar sem er sjálfstætt fært fyrirtæki upp á 225 millj. eða samtals er hagnaður þessa fyrirtækis í ár upp á 1.806 millj. Hér er því greinilega um arðbært fyrirtæki að ræða sem skilar hagnaði og enn og aftur vísa ég til þess að það vekur upp þær spurningar hversu lengi hæstv. fjmrh. getur og þorir að láta þetta fyrirtæki í friði þegar það er orðið að hlutafélagi.

Ég nefni einnig að beinar greiðslur í ríkissjóð frá fyrirtækinu munu á þessu yfirstandandi ári verða um 860 millj., þ.e. svonefndar arðgreiðslur eða beinar greiðslur þessa ríkisfyrirtækis í ríkissjóð nema 860 millj. kr. Raunar er ráð fyrir því gert og það fullyrt, þótt ekki hafi verið lögð fram nein nákvæm tölfræði í því sambandi, að skattar á hlutafélagi í eigu ríkisins mundi nema einhverjum svipuðum upphæðum þannig að ríkissjóður ætti að standa í sömu sporum þegar kemur að þeim fjármunum sem hann hefur hirt frá þessu mikilvæga þjónustufyrirtæki.

Það frv. sem við ræðum hér og raunar þau frumvörp þrjú, þ.e. frv. um stofnun hlutafélags um rekstur Pósts og síma, frv. til laga um breytingar á póstlögum og frv. til laga um breytingar á lögum um fjarskipti bera það öll með sér, þ.e. tvö hin síðarnefndu eru í raun lítið annað en fylgifrumvörp með móðurskipinu sjálfu, þ.e. hlutafélagsfrv., að þrátt fyrir alldrjúgan undirbúningstíma og langan aðdraganda að þessu máli, eins og hv. formaður samgn. og frummælandi kom réttilega inn á, hefur verið kastað til höndum. Frv. er langt í frá þannig úr garði gert að unnt sé að afgreiða það frá hinu háa Alþingi. Hv. formaður samgn. nefndi það að frá 1991 hefði vinna af þessum toga verið unnin af hálfu samgrn. og í því ljósi er enn undarlegra en ella að menn í hinu háa ráðuneyti skyldu ekki hafa greiðari svör á reiðum höndum við ýmsum lykilspurningum og áleitnum spurningum sem upp hafa komið við vinnslu málsins en raun ber vitni.

[13:45]

Ég vil hins vegar taka það fram strax í upphafi, virðulegur forseti, að það var rétt lýsing sem kom fram af hálfu framsögumanns, hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar, að nefndin vann ágætlega að þessu máli og reyndi eftir því sem hægt var að fylla upp í göt og hreinar rangfærslur í upphaflegu frv. Hins vegar er því ekki að leyna að minni hluta nefndarinnar þótti alls ekki nóg að gert. Þær litlu breytingar sem hér hafa verið birtar og kynntar af hálfu meiri hluta nefndarinnar taka hugsanlega af versta skaðann í tæknilegu tilliti en út af fyrir sig svara þær engu þeim stóru pólitísku spurningum sem hið háa Alþingi þarf að fá skýr svör við áður en það afgreiðir þetta stóra mál í formi nýrra laga.

Ég sagði áðan að breytingartillögur meiri hluta nefndarinnar bæru það með sér að frv. hefði verið illa ígrundað og illa unnið af hálfu ráðuneytisins. Það birtist með skýrum hætti í nokkrum breytinghartillagna meiri hlutans. Hefði frv. verið samþykkt óbreytt með þeim dagsetningum sem í því var að finna, þá hefði það verið algerlega óljóst og alls ekkert fyrir liggjandi hver hefði átt að sinna hér síma- og póstþjónustu í þrjá mánuði á yfirstandandi ári. Það er með öðrum orðum hreint tæknilegt gat í því og fullkomin óvissa um það hver hefði átt að bera út póstinn. Í þetta tæknilega gat hefur verið fyllt með breytingartillögum meiri hlutans.

Stóru atriðin eru þessi: Það hefur verið ítrekað rætt að það að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag væri svar við kröfum breyttra tíma og bent á það að alls staðar í kringum okkur hafi aðrar þjóðir farið svipaða leið. En það er langur vegur frá því, virðulegi forseti, að það eitt að formbreyta þessu stóra þjónustufyrirtæki veiti greið svör og leysi öll þau álitamál sem uppi eru, þ.e. að það eitt að gera þetta að ríkisfyrirtæki, Póst- og símamálastofnun, að hlutafélagi í eigu ríkisins svari því hvernig þetta fyrirtæki, sérstaklega á vettvangi símamála, ætlar að svara þeirri óhjákvæmilegu samkeppni sem mun birtast okkur tiltölulega óheft á árinu 1998. Að sumu leyti er þessi samkeppni þegar gengin í garð í símamálunum á mörgum jaðarsviðum þó að símaþjónustan ein og sér sé fyrst og síðast á hendi Póst- og símamálastofnunar. Þetta frv. svarar ekki þeim spurningum og ég mun víkja að því nánar á eftir.

Því er heldur á engan hátt svarað hvernig þessi stofnun undir nýju heiti, Póstur og sími hf., ætlar sér að standa að samkeppninni, ætlar sér að ganga inn í nýtt samkeppnisumhverfi. Það hefur mjög oft verið rætt í þessu ljósi hvort ekki sé brýn nauðsyn á því að þeir þættir fyrirtækisins sem munu um fyrirsjáanlega tíð lúta áfram einkaleyfi eins og póstþjónustan, þó að menn spái fyrir um ýmsar breytingar á þeim vettvangi, eigi þá ekki að vera í sjálfstæðu fyrirtæki og hafa sinn sjálfstæða fjárhag og búa við hið verndaða umhverfi ef ég má orða það svo. En aftur aðrir þættir sem óhjákvæmilega munu lenda í samkeppninni fengju á sig annað form og yfirbragð. Frv. sem hér um ræðir svarar þessu í engu heldur er þvert á móti eingöngu kveðið á um að þessari stóru spurningu sé velt áfram og alfarið í hendur hæstv. samgrh.

Það er gersamlega ófullnægjandi að hið háa Alþingi afgreiði þessa stofnun frá sér á þennan hátt án þess að neinar upplýsingar liggi fyrir um það hvað hæstv. ráðherra eða stjórnarmeirihlutinn á þingi vill sjá í þjónustu Pósts og síma, í samkeppni eða án samkeppni, hvort um verði að ræða tvö fyrirtæki, þrjú fyrirtæki eða kannski miklu fleiri á þessum vettvangi innan örfárra mánaða eða örfárra ára. Það er ekki boðlegt, virðulegi forseti, að menn afgreiði þær spurningar eingöngu á þann veg að tíminn komi til með að leiða það í ljós. Það segir í athugasemdum með frv. Því hefur hæstv. ráðherra svarað til aftur og aftur. En þetta eru ekki boðleg svör. Það er ekki hægt að ganga frá þessu máli á hinu háa Alþingi með svör af þessu tagi. Hv. alþingismenn eiga kröfur um það að fá að vita hver verði stefnumörkun í þessum efnum og meira en kröfur. Það er raunar skylda þeirra að hafa um það vitneskju til þess að geta tekið til þess afstöðu hvernig þetta mikilvæga þjónustufyrirtæki eigi að líta út. Þá er ég einfaldlega að tala um það, til þess að gera langa sögu stutta, virðulegi forseti, hvort Póstur og sími hf. verði Póstur og sími hf. eins og frv. gerir ráð fyrir í nokkra mánuði á árinu 1997, í nokkur ár hugsanlega eða hvort það megi búast við því að Pósti og síma verði skipt upp í febrúar 1997, að ráðherra taki þá um það ákvörðun, það verði Póstur hf. og Sími hf., það verði Söludeild símans hf., það verði Internet símans hf., það verði Grunnnet símans hf. og svona mætti lengi telja. Við þessu verða að fást svör. Hér er rætt um opna heimild til ráðherra um að hann hafi öll ráð í hendi sér hvernig þessum málum muni þoka fram og enn fremur bent á nauðsyn þess, sem ég í sjálfu sér tek undir að menn þurfi að gaumgæfa sömuleiðis, að tilteknir þættir Póst- og símamálastofnunar, Pósts og síma hf. geti sameinast eða runnið saman við önnur fyrirtæki á markaði um tiltekna þjónustustarfsemi. Við þessum spurningum eru engin svör í frv.

Það liggur líka alveg ljóst fyrir og þarf ekki annað en líta í fylgiskjöl með minnihlutaáliti samgn., að starfsmenn eru langt í frá sáttir við þá afgreiðslu sem frv. gerir ráð fyrir. Þar er þykkur bunki af athugasemdum, spurningum og gagnrýni frá félögum starfsmanna við Póst- og símamálastofnun og enn fremur gagnmerkar ábendingar og athugasemdir lögmanna þessara sömu stéttarfélaga.

Í lokin hvað varðar hina stóru þætti frv. vil ég nefna gjaldskrármálin og þá breytingartillögu sem meiri hluti samgn. hefur nú kynnt á síðustu stigum meðferðar þessara mála og lýtur að því ein gjaldskrá taki til landsins alls frá miðju ári 1998. Raunar er þetta að efninu til nákvæmlega sama tillaga og legið hefur fyrir um nokkurra daga skeið í þinginu þar sem hv. þm. Ragnar Arnalds sem 1. flm. lagði til að frá og með 1. júlí á þessu ári yrði þetta mikilvæga skref stigið til þess að jafna aðstöðumun í þéttbýli og dreifbýli þannig að landið yrði allt eitt gjaldsvæði. En flutningsmaður mun væntanlega gera grein fyrir þeim meginhugmyndum. Tillaga meiri hlutans miðar við það að þetta fyrirkomulag verði tekið upp eigi síðar en 1. júlí 1998, sex mánuðum eftir að frelsið gengur í garð, þ.e. sex mánuðum eftir 1. janúar 1998 sem kveður á um það að aðrir aðilar geti haslað sér völl í samkeppni við Póst- og símamálastofnun eða Póst og síma hf. á þessum vettvangi. Um það var spurt í nefndinni núna á síðustu dögum eða klukkutímum hvort skilja bæri þessa tillögu meiri hluta samgn. á þann veg að sérfræðingar ráðuneytins varðandi EES-samninginn og þær skuldbindingar sem við höfum undirgengist í því sambandi eða aðra alþjóðlega samninga, skildu það þannig að löggjafinn gæti með einfaldri samþykkt kveðið á um það að nýr aðili sem ætlaði sér að bjóða upp á þjónustu á vettvangi símans þyrfti að þjónusta allt landið, þyrfti að bjóða öllum landsmönnum upp á sína þjónustu. Við því er ekkert svar að finna, hvorki í nefndaráliti meiri hlutans né í tillögunni sjálfri.

Mér er mjög til efs, án þess að ég gæti fullyrt um það og menn verða þá að sýna fram á það, að við getum upp á eigin spýtur sett um það skilmála að nýir aðilar sem samkvæmt skilmálum frelsis í samkeppnismálum skuli vera gert að þjónusta allt Ísland. Ég þekki þar engar hliðstæður frá nágrannalöndum okkar í þeim efnum sem eru komin dálítið lengra á veg í þessum efnum en við og dreg það satt að segja mjög í efa og hef kallað eftir því í nefndinni og geri það aftur núna í ræðustóli, að menn sýni mér það á blaði og rökstyðji það að svona áskilnaður samrýmist skuldbindingum okkar gagnvart EES-samningi og hinum nýju tímum sem óhjákvæmilega munu renna upp 1. janúar 1998.

Það er annað í þessu sambandi sem þessi breytingartillaga svarar ekki að fullu og öllu og heldur ekki nefndarálitið, þ.e. hvort þessi breytingartillaga meiri hluta nefndarinnar þýði það að staðfesting ráðherra á gjaldskrá Pósts og síma og annarra rekstraraðila í símaþjónustu sé háð því að hún verði hin sama og Pósts og síma hf. Eða hvað er átt við í þessu sambandi hvað viðvíkur öðrum væntanlegum rekstraraðilum sem fara í samkeppni við Póst og síma hf.? Tillaga minni hluta nefndarinnar um eitt gjaldsvæði fyrir landið allt er hins vegar einfaldari og skýrari því hún tekur til þess að það skuli gerast nú þegar, þ.e. eftir 1--2 mánuði og um það deilir enginn að eftir næsta hálfa árið er okkur heimilt að gera hvaðeina í þessum efum sem okkur sýnist. En hinu er ósvarað hvað þá tekur við á hinu væntanlega ári frelsis og samkeppni.

Ég er út af fyrir sig ekki að taka afstöðu til þessara mála. Ég er einfaldlega að benda á enn eitt atriðið þar sem hið háa ráðuneyti og stjórnarmeirihlutinn skilar auðu og getur ekki svarað þeirri lykilspurningu hvort ákvæði af þessum toga komi til með að standast þegar veruleikinn blasir við. Það er vond löggjafarstarfsemi að ganga frá endum og hnútum þannig að menn ætli svona sjá hvað setur, að menn ætli að kanna og athuga hvort þetta komi til með að virka eður ei. En þannig er frágangur málsins.

Virðulegi forseti. Ég er framsögumaður minni hluta samgn. sem er skipaður undirrituðum, Ragnari Arnalds og Ástu R. Jóhannesdóttur. Við höfum í nefndaráliti með þessum þremur lagafrumvörpum gert mjög glögga grein fyrir afstöðu okkar til þessara mála. Fyrst og síðast er hana vitaskuld að finna í móðurfrv., þ.e. frv. um stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar. En í öðrum nefndarálitum er fyrst og síðast vísað til þess nefndarálits.

[14:00]

Ég sagði, virðulegi forseti, að meginstefið við kynningu á þessu stóra frv. hafi verið það að óhjákvæmilegt sé með öllu að halda óbreyttu rekstrarformi hjá þessari þjónustustofnun. Vísað er til þess að aðrar þjóðir hafi farið svipaða leið til að mæta hinni miklu samkeppni á þessu sviði. Víst er það rétt. Flestir samgöngunefndarmenn fóru einmitt í mjög gagnlega ferð til nokkurra nágrannalanda, Noregs og Danmerkur til að kynna sér hvernig að verki hefði verið staðið í þeim ríkjum. Hvað svo sem um niðurstöður þeirra mála má segja í þessum tilteknu ríkjum er ljóst að undirbúningur var með talsvert öðrum hætti en hér gerist. Hann var lengri, ítarlegri og markvissari. Það breytti þó ekki því að í öllum þessum ríkjum varð niðurstaðan sú strax í upphafi og ekki síður þegar frá leið að viðkomandi starfsmenn þessara fyrirtækja í þessum tveimur löndum báru skarðan hlut frá borði. Gegnumheilt var þróunin sú að um var að ræða um 30% fækkun starfsmanna. Hvaða starfsmenn voru þetta? Voru það forstjórarnir og deildarstjórarnir, verkfræðingarnir, sérfræðingarnir? Nei, langur vegur frá, þar varð fjölgun. Það sem meira var, þar voru launin hækkuð umtalsvert, forstjóralaunin, verkfræðingalaunin og sérfræðingalaunin hækkuðu umtalsvert þegar fyrirtækin voru komin í einkaeign úr hendi ríkisins. En þau hreyfðust lítt eða ekki þegar komið var á gólfið. Og þar varð bókstaflega um 30% fækkun starfsmanna að ræða. Ég held því að það sé alveg óhætt, virðulegi forseti, að horfa á hlutina eins og þeir eru og eins og þeir munu verða. Við erum að horfa til þess að á örfáum mánuðum eða missirum sjáum við fram á slíka þróun hér hjá þessari stóru stofnun með 2.500 starfsmenn. Þar munu stjórnvöld og stjórnendur kappkosta að fækka starfsfólki. Án þess að ég sé að kveða hér upp stóra dóma í því sambandi finnst mér ástæða til að óttast að tæpur þriðjungur starfsmanna, þessara 2.500 starfsmanna, þurfi að vera uggandi um framtíð sína hjá þessu fyrirtæki. Vissulega má leiða að því getum, eins og gerðist raunar á hinum Norðurlöndunum líka, að það náist viðunandi samningar um starfslok hjá eldri starfsmönnum þessara stofnana og að að hluta til megi ná um þetta viðunandi sátt og samkomulagi. Það gerðist á hinum Norðurlöndunum í mörgum tilfellum en öðrum ekki. Mismunurinn enn og aftur á aðdraganda og undirbúningi þessa máls hér og þar er sá að þar höfðu menn einmitt gert ráð fyrir þessum möguleika, gengið til þess verks með tiltölulega opin augu og gert úr garði tiltölulega þétta og öfluga löggjöf hvað varðar einmitt heimildir til starfslokasamninga og biðlauna, námskeiðahalds o.s.frv. En er því að heilsa hér hjá okkur í þessu sambandi? Er einhver ástæða til sérstakrar bjartsýni í þeim efnum að við séum vel í stakk búin til að ganga til gamalla og gróinna starfsmanna Pósts og síma og segja þeim eftir að fyrirtækið er komið í hendur stjórnar hlutafélags að nú þurfi að fækka, nú þurfi að ná hagstæðum og góðum starfslokasamningum við þessa aðila? Nei, allar kringumstæður eru þvert á móti þannig, virðulegi forseti, að það mun reynast býsna erfitt. Einmitt vegna þess að hér hefur ríkisstjórnin farið mikinn í þessum grundvallarréttindamálum sem munu koma upp á borð þegar til slíkra viðræðna er komið. Þar er ég auðvitað að ræða um frv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna sem 8. gr. þessa frv. tekur sterklega mið af. Það er því ekki að ástæðulausu, virðulegi forseti, að 2.500 framfærendur, starfsmenn þessara stofnana, beri verulegan ugg í brjósti vegna þessara skipta. Svörin sem þeir hafa fengið við áleitnum en eðlilegum spurningum hafa verið býsna fátækleg. Raunar var það þannig að minni hluti samgn. trúði því að það væri vinna í gangi í ráðuneytinu á meðferðartíma þessa frv., þ.e. frá því að mælt var fyrir því og á meðan það var til umfjöllunar í hv. samgn. og tilraunir væru uppi um það af hálfu forsvarsmanna Pósts og síma og ekki síst hæstv. ráðherra og forsvarsmanna ráðuneytisins að fækka þessum álitamálum og treysta þetta nauðsynlega samband og trúnaðartraust sem þarf að vera til staðar þegar jafnmikilvæg og stór breyting á sér stað sem hér um ræðir. En því var alls ekki að heilsa. Slík vinna fór aldrei af stað. Þær einustu viðræður sem fulltrúar stéttarfélaganna hjá Pósti og síma áttu við ráðuneytið snerust um að safna upplýsingum um það hvernig best væri að því staðið að hefja samningaviðræður þegar samningar væru úti um næstu áramót. Gott og vel, væntanlega og vonandi kemur sú vinna að einhverju gagni. En það er skelfilegt og ég lýsi sérstökum vonbrigðum mínum með það að þessi tími skuli ekki hafa verið nýttur betur til að freista þess að koma til móts við eðlilegar ábendingar og skynsamlegar frá starfsmönnum um stórmál og reyna að fækka þeim og ná um það þokkalegri sátt við starfsmenn þannig að menn þyrftu ekki að vera hér í stórri styrjöld við starfsmenn sem sannarlega og með réttu eru uggandi um sinn hag og reyna jafnframt að lagfæra hér frv. sem allt frá upphafi var illa unnið og svarar í engu hinum stóru spurningum um framtíð póst- og símamála hér á landi.

Hér eru á ferðinni tvö fylgifrv. með móðurskipinu sjálfu. Annars vegar er um að ræða lög um fjarskiptamál. Það hefur verið boðað að heildarendurskoðun þeirra laga sé í bígerð og raunar vel á veg komin. Um það var rætt að til þess gæti komið að það frv. yrði sýnt hér á vordögum en væntanlega afgreitt á haustdögum. En það er ákaflega slæmt og gagnrýnivert að þegar menn eru að formbreyta Pósti og síma þá skuli þeir ekki jafnframt hafa heildaryfirsýn yfir það hvernig fjarskiptalögum skuli til haga haldið og hvers konar mynd á að bregða upp af því stóra máli. Þess vegna er frv. kannski svo rýrt í roðinu. Þær breytingar á fjarskiptalögum sem hér er að finna eru ákaflega smávægilegar og raunar bara eins og ég sagði áðan nauðsynlegur fylgifiskur til þess að frv. um hlutafélagið Póst og síma gangi tæknilega upp. En fjarskiptafrv. segir okkur ekkert og lýsir í engu upp þá glænýju mynd sem okkur hefur verið birt og mun birtast enn skýrar í hinni öru þróun fjarskiptamála sem átt hefur sér stað og mun enn frekar eiga sér stað. Það er vont mál og sýnir okkur enn og aftur að þrátt fyrir langan aðdraganda hafa menn ekki unnið sína heimavinnu svo vel sé.

Síðan kemur að lykilspurningunni, herra forseti, um hlutafélagavæðinguna. Það hafa allir gert þetta, er gjarna viðkvæðið. Það er alls staðar verið að hlutafélagavæða fyrirtæki af þessum toga þar sem við blasir samkeppni við fyrirtæki á almennum markaði. Ríkið á systematískt að reyna að draga sig út úr þessum rekstri eða a.m.k. gera hann þannig úr garði að hann sé samkeppnishæfur og fljótari til að mæta breyttum kringumstæðum og losna þannig undan hinu seinvirka kerfi og því að sækja allt sitt umboð til hins háa Alþingis eða hins háa ráðuneytis eftir efnum og ástæðum. Á það var bent í nefndinni engu að síður að það eru ýmsar fleiri leiðir sem hægt er að fara í þessum efnum. Hlutafélag er ekki allra meina bót og ekki eina rekstrarúrræðið sem þekkist hér á landi. Það var til að mynda bent á að ekki síður hefði komið til greina að gera þetta fyrirtæki að sjálfseignarstofnun eins og ýmsir fjárfestingarsjóðir ríkisins eru og raunar ríkisbankarnir. Það er engin tilviljun og rétt að segja það eins og það kemur fyrir af skepnunni að ástæða þess að á þessi rekstrarform er bent er að þau hafa í raun alla plúsana með sér. Þau gera það að verkum að fyrirtækin eru sjálfs sín ráðandi og geta brugðist skjótt við nýjum aðstæðum. Hins vegar hafa sjálfseignarfyrirtæki í eigu ríkisins með hugsanlega sjálfstæðri stjórn kosinni af Alþingi það líka í sér að þeim verður ekki breytt einfaldlega. Þau verða ekki svo einfaldlega seld á frjálsum markaði. En sama hvað hver segir, virðulegi forseti, hér erum við auðvitað aðeins að taka fyrsta skrefið í langri vegferð. Það er undirliggjandi og óþarfi að reyna að fela það í þessari umræðu að vitaskuld ætlar þessi ríkisstjórn eða a.m.k. hluti hennar að koma þessu fyrirtæki á markað, ætlar að selja Póst og síma.

Ég nefndi hér í framhjáhlaupi í gríni og alvöru að þá þekkti ég hæstv. fjmrh. illa ef hann gæti séð þetta hlutafélag í friði frekar en önnur fyrirtæki sem hér hafa verið gerð að hlutafélögum á síðustu árum af hálfu hins háa Alþingis. Þar nægir að nefna Lyfjaverslun ríkisins þar sem keyrð var hér í gegn á hálfum degi heimild til fjmrh. til að selja helminginn. Örfáum dögum síðar, vegna góðrar sölu, fékk hann að selja hinn helminginn. Það tekur ekki nema dagstund í sjálfu sér að keyra í gegn slíka heimild ef pólitískur vilji er fyrir hendi. Ég hef því nokkrar áhyggjur af því, virðulegi forseti, að þessi áskilnaður sem nefndur er í 1. gr. frv., þar sem segir að allt hlutafé félagsins skuli vera í eigu ríkisins og skuli sala þess óheimil án samþykkis Alþingis, sé býsna léttvægur þröskuldur þegar til kastanna kemur ef ríkisstjórnarflokkarnir ná saman um það markmið að koma þessu fyrirtæki á markað og selja það í bútum eða allt í senn.

Það er einnig annað í því sambandi sem er ekki pólitísks eðlis heldur raunverulega í tengslum við anda þessa frv. og vekur upp tilteknar grunsemdir um það hvort ekki sé í raun og sanni verið að lauma einkavæðingunni og heimild til ráðherra um sölu einstakra hluta í gegn án þess að það sé sagt berum orðum. Hún er að vísu tiltölulega fortakslaus þessi 1. grein frv. Það segir hér orðrétt, með leyfi forseta:

,,Við stofnun félagsins skal allt hlutafé þess vera í eigu íslenska ríkisins og skal sala þess óheimil án samþykkis Alþingis.``

En nú skulu hv. þm. lesa þetta og renna sér inn í 2. gr. frv. Þar kveður við allt annan tón því þar er veitt eftirfarandi heimild til handa ráðherra eða hlutafélaginu:

,,Heimilt er hlutafélaginu að stofna nýtt félag eða félög, sem alfarið verði í eigu þess, til þess að annast ákveðna þætti í starfsemi þess. Í sama tilgangi getur hlutafélagið ákveðið skiptingu þess í samræmi við ákvæði 133. gr. hlutafélagalaga, nr. 2/1995.``

Hvað þýðir þetta í raun? Þýðir þetta í raun að ef stjórn hlutafélagsins tekur um það ákvörðun að söludeild símans ætti að sameinast einhverju fyrirtæki út í bæ þá verði það gert? Ef síminn hf. ætlaði sér að koma sér út úr því fyrirtæki aftur og selja sinn hlut, þýðir þetta þá að sú sala sé óheimil án þess að Alþingi komi að henni?

[14:15]

Ég held að engum detti í hug að þeir túlki það þannig, hæstv. ráðherra eða aðrir forsvarsmenn fyrirtækisins sem þá verða. Ég hef ekki nokkra trú á því. Svona mætti út lengja þessa línu og hugsa sér enn flóknari samrunakenningar sem eru út af fyrir sig meira en kenningar því það liggur nokkuð í landi og því hefur verið lýst yfir af forsvarsmönnum Pósts og síma að þeir sjái ákveðna kosti í því að sameinast sérstaklega erlendum fyrirtækjum á þessum vettvangi um tiltekna þjónustuþætti. Er þá með öðrum orðum hlutafélaginu Pósti og síma hf., heimilt samkvæmt 2. gr. eins og hér segir að kaupa sig inn í þessi fyrirtæki og því fyrirtæki að kaupa sig inn í önnur fyrirtæki. En Pósti og síma hf. er hins vegar óheimilt að selja hluta hluta sinn í þessum samrunafyrirtækjum, dótturdótturdótturfyrirtækjum, án þess að Alþingi Íslendinga heimili það. Ég hef ekki trú á að það sé hinn ýtrasti skilningur. Hér eru því augljóslega á ferðinni leiðir fyrir hæstv. ráðherra, kjósi hann að fara þær sem ég hygg að hann muni gera, sem gera það að verkum að 1. gr. frv., áskilnaður um atbeina Aþingis komi til sölu fyrirtækisins eða hluta fyrirtækisins í dótturfyrirtækjum, heldur ekki. Það væri mjög fróðlegt að fá skýr svör við því af hjá framsögumanni, hv. formanni samgn., hvort hann líti þannig á að 1. gr. laganna um áskilnað þess að ekki verði seldir hlutir úr þessu félagi án atbeina Alþingis, þýði að hún gildi afdráttarlaust, einnig um væntanleg dótturfyrirtæki og samrunafyrirtæki. Þetta þarf að vera mjög skýrt og afdráttarlaust. Löggjafinn þarf að vita nákvæmlega hvað hann er að segja og gera í jafnstóru máli og hér um ræðir. Þess vegna er spurning mín ákaflega einföld: Er það skilningur framsögumanns að bann við sölu án samþykkis Alþingis taki líka til dótturfyrirtækja og samrunafyrirtækja Pósts og síma hf.? Ég held að skýrari geti spurningin ekki verið. Ég vænti þess og hef ekki trú á öðru en að svar hans verði það sömuleiðis.

Ég bind við það vonir þrátt fyrir allt, þó að með afgreiðslu þessa frv. sé Alþingi í raun búið að framselja öll afskipti sín af framgangi þessara mála, að þá hafi vigtarþungir þingmenn á borð við hv. þm. Einar K. Guðfinnsson eitthvað um það að segja í þessum stærsta stjórnmálaflokki þjóðarinnar, hvernig farið skuli með. Á það var drepið oftar en einu sinni í þessari nefnd að vegna þess hversu frv. svarar fáu og hversu margt er framselt í hendur ráðherra eða sérstakra nefnda eins og ég mun ræða hér nánar á eftir, að það sé mikilvægt að koma á nokkurri festu í þeim efnum þannig að Alþingi fylgist með þessari þróun næstu mánuði og missiri. Hafi ég misst af því í ræðu hv. þm. áðan að hann hafi áform uppi um það þá biðst ég afsökunar á því. Hv. þm. hafði skilning í samgn. á mikilvægi þess. Um það var rætt af hálfu meiri hluta nefndarmanna að hæstv. samgrh. yrði gert að skila skýrslu um framgang mála með tiltölulega skömmu millibili. En ég vildi hins vegar festa þetta enn frekar í sessi og benti á að það eru fjölmörg dæmi um það að sérstakar nefndir skipaðar þingmönnum fylgist með undirbúningi að tilteknum málum þegar ákvörðun er tekin um að tiltekin löggjöf taki ekki gildi fyrr en eftir svo og svo langan tíma. Ég minnist þess til að mynda í mjög umdeildu máli um lyfjalög þegar undirritaður gegndi embætti heilbrrh. að það varð að samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu að heilbrrh. í því tilfelli skipaði nefnd sem fylgdist með þróun lyfjamála í aðdraganda hinnar nýju löggjafar eða þeirra ákvæða sem kannski mestu máli skiptu. Sú nefnd starfaði þokkalega skulum við segja en allt að einu varð þetta tæki til og tryggði að stjórn og stjórnarandstaða, hv. þm., hefðu beinlínis inngrip í og yfirsýn hvernig þessi mál þróuðust. Ekki síður í þessu máli sem lýtur að jafnmörgum ríkisstarfsmönnum og hér um ræðir er mikilvægt að hv. þm. hafi tæki og tól til þess að veita aðhald og eftirlit með framgangi mála hjá væntanlegri stjórn fyrirtækisins og sérstakri nefnd ráðherra og ekki síður ráðherra hæstv. sjálfum. Ég árétta því ósk mína við hæstv. ráðherra, sem kemur hér senn og ég vona að hv. formaður nefndarinnar komi þeim skilaboðum til hans, að hann gefi skýra yfirlýsingu um að hann muni kalla til liðs hóp þingmanna sem gefi þeim möguleika á að fylgjast með þróun mála og samskiptum við starfsmenn, þ.e. að þeir verði eins konar hliðarnefnd við þá nefnd sem á hér að fá altækt vald samkvæmt 5. gr. frv. Þetta er mín formlega ósk og ég held að hún sé nú ekki mjög ósanngjörn í sjálfu sér í ljósi þessara kringumstæðna sem ég hef hér farið nokkrum orðum um.

Kemur þá kannski að þessari nefnd sem ég var að nefna og er að finna í 5. gr. frv. Í upphaflega frv. var ráð fyrir því gert að samgrh. skipaði nefnd þriggja óvilhallra manna til að endurmeta eignir stofnunarinnar, skuldbindingar og viðskiptavild o.s.frv. Nú hefur heldur betur vægi þessarar nefndar verið aukið stórkostlega. Það er engin tilviljun að vægi hennar er aukið í tillögum meiri hluta samgn. Meiri hluti samgn. áttaði sig á því að í stórum atriðum, þrátt fyrir breytingar og lagfæringar, svaraði þetta frv. ekki fjölmörgum spurningum sem á leituðu. Ef ég man orðalag rétt hefur nefndin vald sem er ígildi löggjörninga sem þýðir í raun og sanni að þessi nefnd hefur um það alræðisvald hvernig kaupin gerast á eyrinni og samningar verða við starfsmenn á sumardögum og haustdögum í aðdraganda þess að nýtt hlutafélag verður að veruleika. Auðvitað er það grafalvarlegt mál að einhver nefnd manna sem samgrh. skipar einn og sér fái alræðisvald frá hinu háa Alþingi til að fara fram með þeim hætti sem henni sýnist best í samskiptum og samningum við starfsmenn og hafi vald löggernings í því sambandi en það þýðir í raun og veru að þeir samningar sem þessi nefnd gerir eru óafturkræfir. Þeir eru endanlegir. Við erum að setja hér á bráðabirgðastjórn þessa fyrirtækis og meira en það því þessir menn munu síðan enga ábyrgð bera á því hvernig mál munu fram ganga þegar síðan væntanlega stjórn fyrirtækisins tekur við um næstu áramót. Þetta fyrirkomulag gagnrýnum við harðlega. Það er ekkert bragð af löggjafarstarfi á borð við þetta. Það er ekki bjóðandi hinu háa Alþingi að ljúka löggjafarstarfi eins og hér um ræðir, þ.e. að vísa þessu út fyrir veggi Alþingishússins, út fyrir veggi raunar Pósts og síma til einhverra manna úti í bæ sem eiga að ganga frá öllum endum. Þetta er eitthvað sem hið háa Alþingi, hvort sem það eru þingmenn stjórnar eða stjórnarandstöðu, geta ekki sæst á. Ekki síst í ljósi þess þegar jafnmörg óvissu\-atriði liggja fyrir í samskiptum og samningum við starfsmenn og hér eru dæmi um. Þær eru ófáar spurningarnar sem frá starfsmönnum hafa komið og þykkur bunki frá lögmönnum þeirra og stéttarfélögunum sjálfum. Það er afgreiðsla sem er okkur ekki sæmandi að afgreiða þessi mál með takmarkaðri 8. gr. frv. sem tekur fyrst og síðast mið af skerðingarfrv. um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna en að öðru leyti að vísa málinu út í bæ. Ætli stjórnarmeirihlutinn að knýja þessa grein í gegn þá er það lágmarkskrafa eða ósk að ráðherrann mæti eðlilegri gagnrýni á þennan framgangsmáta þannig að hann tryggi a.m.k. alþingismönnum eða fulltrúum þeirra þátt í eftirliti með framgangi þessara mála. Ég fyrir trúi ekki að menn ætli sér að afgreiða og þvo hendur sínar af samskiptunum við starfsmenn með því einu að afgreiða 8. gr. og altækt vald til handa einhverjum þremur mönnum sem verða skipaðir af samgrh. Það er ekki löggjafarstarf sem er boðlegt og til eftirbreytni.

Virðulegi forseti. Ég nefndi það áðan að við værum að renna inn í nýtt skeið. Það er þó ekki alveg yfir línuna. Um það er ekki deilt að nýir tímar og örar breytingar eru að verða á símaþjónustunni. Á hinn bóginn er ekkert í hendi um það hvernig þróun mála verði af hálfu póstsins. Þar er þetta býsna hefðbundið og verður það væntanlega um ófyrirsjáanlega tíð. Þannig að ef tilgangurinn hefur verði sá einn af hálfu stjórnarmeirihlutans að mæta breyttum tímum hvers vegna á það við varðandi póstinn? Hvaða rök hníga að því að pósturinn verði hlutafélagavæddur og síðan væntanlega einkavæddur? Hvaða samkeppni er það sem hann ætlar að standa í núna á næstu vikum, mánuðum eða árum? Hvað er fyrirséð í því? Af hverju þarf að hrista upp alla hluti á þeim endanum? Eru einhver rök sem mæla með því? Við þessu hafa engin svör fengist frekar en við svo mörgu öðru. Á hinn bóginn er það þannig eins og ég gat um að samkeppnin verður hörð. Hún verður grimm væntanlega þrátt fyrir tiltölulega lítinn markað hér á landi í símamálunum. Þess vegna er það að meiri hluti samgn. og stjórnarliða verður að skýra út mjög skilmerkilega þær andstæður sem er að finna í málflutningi þeirra þegar þeir tala um nauðsyn þess að koma þessu fyrirtæki af höndum ríkisins, út úr sölum Alþingis, í hendur þeirra sem kunna til verka og geta brugðist skjótt við. En að hinu leytinu til koma þeir með breytingartillögu sem í raun og sanni neglir þetta fyrirtæki, geirneglir þetta fyrirtæki og segir til um það að þetta fyrirtæki eigi sex mánuðum eftir að frelsið gengur í garð að standa svona eða svona að gjaldskrármálum. Raunar er gengið svo langt og má túlka það þannig að hugmynd þeirra sé að samkeppni annarra aðila verði háð þessum sömu lögmálum. Hér eru á ferðinni fullkomnar andstæður í málflutningi. Enn og aftur legg ég engan dóm á það hvað er rétt eða rangt að svokomnu máli. Ég bara spyr: Hvers konar aukið frelsi er það til stjórnenda nýja hlutafélagsins um að bregðast við áreiti þegar Alþingi á sama tíma ákveður að fyrirtæki skuli vesgú lúta ákvörðun hæstv. samgrh. þegar kemur að ákvörðun um gjaldskrá og meira en það, skuli haga sér svona og svona á tilsettum tíma eftir eins og hálfs árs rekstur í hlutafélagaformi. Og skuli þá vera búið að gera tiltekna hluti. Hér rekst hvað á annars horn og það er nauðsynlegt að hæstv. ríkisstjórn glöggvi sig sjálf á því hvert hún er að stefna með löggjöf af þessum toga. Hér ganga menn fyrst fram tvö skref og síðan til baka eitt a.m.k. Enn og aftur segi ég það, virðulegi forseti, að ég er sammála þeirri meginhugsun --- það má enginn skilja orð mín öðruvísi --- að landið verði eitt gjaldsvæði sé þess nokkur kostur að stýra málum þannig. Við höfum kost á því núna. Við getum það núna óumdeilt ef við gerum það strax. Óumdeilt mun það virka hér til 1. jan. 1998. En hvað þá tekur við, um það er fullkomin óvissa.

[14:30]

Hv. stjórnarliðar gæta sín á því að láta þetta ekki virka alveg strax. Nei, þeir ætla að láta þetta virka í hinu nýja umhverfi, 1. júlí 1998, því að þá munu allar líkur benda til þess að Eftirlitsstofnun ESB eða ESA muni vera búin að grípa í taumana og segja: ,,Nei strákar mínir og stelpur. Þetta má ekki. Þetta er ekki hægt.`` Það fer því lítið fyrir því hygg ég vera þegar hv. þm. stjórnarinnar fara út á land hver af öðrum og segjast hafa komið því í gegn á hinu háa Alþingi að samræma gjaldskrána og að núna lækki símakostnaður úti á landsbyggðinni. Það verði bara eftir tvö ár. Kannski sleppa þeir því. En þeir sleppa örugglega því að allt bendi til þess að eftir tvö ár verði þetta ekki hægt, þ.e. að þegar gildistakan á að verða, þá komi alþjóðasamningar í veg fyrir það. Þetta er létt í vasa. Maður næstum því sæi í gegnum fingur sér með þetta ef það væru að koma kosningar en þær verða ekki fyrr en 1999 að óbreyttu þannig að hv. stjórnarliðar, landsbyggðarþingmenn væntanlega flestir, munu sitja --- ég þori ekki að segja það --- þeir munu sitja uppi með það að þetta verði bara orðin tóm, að þetta verði eitthvað sem þeir geti ekki gert og það er býsna létt í vasa. Þetta er hinn kaldi veruleiki málsins. Ég held að það sé nauðsynlegt að hv. þingmenn stjórnarinnar átti sig á þessu og gleðjist ekki of mikið að hafa náð þessum stóra áfanga í gegn hjá Pósti og síma eða hjá hæstv. samgrh. því að þetta loforð er létt í vasa af hálfu hæstv. samgrh. og forsvarsmanna Pósts og síma þegar til kastanna kemur, er ég hræddur um. Ég er hræddur um að þetta verði býsna létt í vasa.

En virðulegi forseti. Að lyktum í okkar nefndaráliti bendum við á að með þetta mál er ekki hægt að höndla öðruvísi en þannig að það fari aftur til ríkisstjórnarinnar og menn vinni sína heimavinnu. Ég fyrir mitt leyti hef enga afstöðu tekið til þess og get enga afstöðu tekið til þess samkvæmt þeim gögnum sem hér liggja fyrir hvort það sé það eina rétta að hlutafélagavæða Póst og síma eða hvort við eigum að fara þá leið sem ég vildi gjarnan ræða og á upplýsandi hátt, þ.e hvort það sé skynsamlegra að hlutafélagavæða bara símann og ganga þá þannig frá endum og hnútum gagnvart starfsmönnum, gagnvart ráðstöfunarrétti og valdi ráðherra að menn vissu nákvæmlega hvað þeir væru að gera með því. Í mínum huga er það eitthvað sem kemur fyllilega til álita og við ætlum að skoða og ríkisstjórnin ætti að gaumgæfa. Ég vænti þess að við margir hv. þm. stjórnarandstæðinga værum tilbúnir til þess að fara í þá vinnu með hv. stjórnarliðum þannig að kannski væri heppilegast að vísa þessu ekki til ríkisstjórnarinnar heldur til milliþinganefndar því að það er augljóst mál að eftir fimm ára undirbúningstíma í hinu háa ráðuneyti hafa menn ekki getað unnið sína heimavinnu og ekki skilið málið. Það er kannski best að þetta verði á vettvangi Alþingis. Það er kannski misskilningur hjá okkur minnihlutamönnum í samgn. að vera að vísa þessu til ríkisstjórnarinnar. Hún gerði þetta og getur ekkert gert með þetta í ljósi reynslunnar. En allt að einu er alveg ljóst að þá vinnu þarf að vinna. Það er mergur þessa máls og ekki hjá honum komist.

Í fylgiskjölum með þessu nefndaráliti minni hlutans er einnig að finna lítilvæga ábendingu sem sjá mátti í Morgunblaðinu fyrir ekki margt löngu. Við þekkjum öll þann sönglanda sem er eins og beint upp úr Biblíunni að það að einkavæða og það að tryggja samkeppni á þessum markaði sé bara eins og peningar í hendi, sé bara eins og handhafaávísun upp á það að verðið lækki. En einn af yfirmönnum Pósts og síma, verkfræðingur þar á bæ, sýndi það mjög glögglega --- hann er ekki fjarri okkur núna sá maður --- sýndi okkur það mjög glögglega að þróun mála hér á landi undir þessari skelfilegu ríkiseinokun í gjaldskrármálum hefur verið þannig að við getum staðið keikir og stoltir þegar við til að mynda lítum til Mekka frjálshyggjunnar, Bretlands, þar sem þróunin hefur verið allt allt önnur og verðið hækkað stórkostlega. Nú veit ég að hv. formaður samgn. Einar K. Guðfinnsson þekkir vel til í Bretaveldi. Hann hefur líka vafalaust fylgst grannt og gaumgæfilega með þessari þróun mála þar. Hann hefur vafalaust hringt þar nokkrum sinnum bæði úti og inni þannig að ég hygg að ég komi ekkert að tómum kofunum í þessum efnum þegar ég nefni þennan samanburð. En auðvitað er þetta mjög eftirtektarvert og sýnir okkur að menn geta hvorki gert þætti máls að trúaratriðum né málað þá dökkum og hvítum litum þegar rætt er um ríkisrekstur á sviði almannaþjónustu eins og hér og svo hins vegar einkarekstur. Það er ekki peningur í hendi endilega að allur almenningur hafi hag af því að einkavæða. Og þess vegna geri ég það að umtalsefni sem ég hef raunar gert áður að það sem er undirliggjandi í þessu öllu saman eru auðvitað áform þessarar ríkisstjórnar um að koma þessu fyrirtæki á markað áður en langt um líður og selja. Og hugsið ykkur þá mynd, virðulegi forseti.

Við þekkjum stöðu samgöngumála þessarar þjóðar. Við vitum hver heldur um þræði þegar kemur að skipaleiðunum. Við vitum hvers hönd er alls ráðandi í umferðum um loftin blá. Og hverjir haldið þið að hafi stórar fúlgur handbærar þegar til sölunnar kemur, á fyrirtæki sem eru upp á 13 milljarða kr.? Eru þeir á hverju strái utan þessa húss? Ætli það séu ekki sömu fyrirtækin og eru á hinum sviðum samgöngumála. Það yrði aldeilis skemmtilegt líf þegar allir þessir þrír meginþræðir, fjarskiptin, skipin og flugvélarnar fléttast saman. Það er ekki mikið sem við höfum að gera eftir það og mikið er traust á því liði. Ég nefni þar engin fyrirtæki en auðvitað vita allir hvað ég er að meina. Þetta er undirliggjandi og nauðsynlegt að halda rækilega til haga í þessari umræðu og er hinn pólitíski þáttur málsins.

Mér segir svo hugur um að á næsta reglulega þingi, 1996--1997 --- það líði ekkert lengri tími. Það verður á vorþingi 1997 --- sem við sjáum hér frv. um sölu á hlutum úr Pósti og síma hf. Ég bið, virðulegi forseti, menn að minnast þessara orða minna og einkum bið ég forseta að minnast þeirra alveg sérstaklega af því að nú veit ég að hv. þm. Guðni Ágústsson hefur áhyggjur af þessu brambolti öllu. Hann hafði áhyggjur í morgun og hann hefur áhyggjur líka í eftirmiðdaginn. Þetta er erfiður dagur hjá hv. þm. vænti ég. (Gripið fram í: ... í kvöld.) Ég þori nú varla að hugsa um það hvernig honum kemur til með að líða í kvöld þegar við ræðum væntanlega réttindi og skyldur opinberra starfsmanna.

Það skulu vera mín lokaorð að árétta það alveg hávaðalaust og öfgalaust og beina þeim vinsamlegu ábendingum til yfirvegaðra forustumanna í samgn., hv. þm. Einars K. Guðfinnssonar og varaformanns nefndarinnar, hv. þm. Magnúsar Stefánssonar, að þeir skoði hug sinn í hljóði og átti sig á því að hér er um feigðarflan að ræða og engan veginn samboðið þeim að skilja svona við þetta stóra verk og að þeir setjist að þessu verki núna í sumar. Samgn. hyggur væntanlega á það að skoða stöðu samgöngumála einhvers staðar úti á landi. Ég fyrir mína parta er tilbúinn að framlengja þeirri ferð og setjast með þeim yfir þetta í hálfan mánuð til að gera þetta þannig úr garði að eitthvert vit sé í. En svona getum við ekki skilið við málið, virðulegi forseti. Það er alltént alveg ljóst og því árétta ég þá skýru og glöggu tillögu minni hluta nefndarinnar að þessum frv. öllum þremur verði vísað til ríkisstjórnarinnar á nýjan leik.