Stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar

Fimmtudaginn 23. maí 1996, kl. 14:44:47 (6527)

1996-05-23 14:44:47# 120. lþ. 147.5 fundur 331. mál: #A stofnun hlutafélags um rekstur Póst- og símamálastofnunar# frv. 103/1996, 364. mál: #A póstlög# (Póstur og sími hf.) frv. 107/1996, 408. mál: #A fjarskipti# (meðferð einkaréttar ríkisins) frv. 99/1996, Frsm. meiri hluta EKG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 147. fundur

[14:44]

Frsm. meiri hluta samgn. (Einar K. Guðfinnsson) (andsvar):

Virðulegi forseti. Varðandi þá spurningu hv. þm. hverjir hafi veitt okkur ráð í þessum efnum, þá er það auðvitað ekki það sem skiptir máli í þessu sambandi. Við höfum leitað víða fanga. Það sem er aðalatriði málsins er að þessi tillaga er að sjálfsögðu sett fram á ábyrgð meiri hluta samgöngunefndar og það er meiri hluti samgn. Alþingis sem einn svarar fyrir þessa tillögu þannig að við munum hvorki skýla okkur á bak við einn né neinn í þessum efnum. Við stöndum að þessari tillögu og við erum sannfærð um það og vitum að hún stenst.

Það sem hv. þm. er í raun og veru að segja er það að tillaga sú sem hann stendur að varðandi jöfnun símkostnaðar þýði að þetta standist í nokkra mánuði þangað til frelsið gengur í garð, að á þeirri stundu muni allt breytast og ekki vera hægt að halda sér við áskilnað um að það sé eitt símgjald. Ég minni hv. þm. á að það kom mjög glögglega fram í ferð samgn. um Norðurlöndin að símafyrirtækin þar styðjast fyrst og fremst við ákvæði í starfsleyfi sem viðkomandi ríkisstjórnir hafa veitt þeim og í þessum starfsleyfum er einfaldlega kveðið á um það hvernig verð skuli lækka á símgjöldum í viðkomandi landi. Danska símafyrirtækinu er t.d. gert að lækka símkostnað sinn um tilteknar prósentur á hverju einasta ári. Þannig er það. Og auðvitað hefur viðkomandi samgrh. fullar heimildir til þess að setja slíkan áskilnað inn í rekstrarleyfi sem hann gefur út.

Hins vegar blasir við í framtíðinni að tæknin er að gera það að verkum að menn geta með ýmsu móti komist fram hjá þessu með gervihnöttum og öðru þess háttar, þá vandast það mál almennt. En það breytir því ekki að möguleikarnir eru fyrir hendi til þess að setja fyrirtæki sem starfar hér á landi skilyrði um taxta.