Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 11:07:33 (6542)

1996-05-24 11:07:33# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, HG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[11:07]

Hjörleifur Guttormsson (andsvar):

Virðulegur forseti. Það er sérstaklega það sem varðar það að telja starfsmenn kirkjunnar með embættismönnum. Það er það atriði sem ég vil fá nánari skilgreiningu á af hálfu frsm. meiri hlutans því að ég fæ ekki séð að þeir falli undir þann kvarða sem upphaflega er dreginn í frv. að vera hluti af æðstu stjórn ríkisins. Það væri kannski hugsanlegt að menn tækju biskup og vígslubiskup, en að fella alla presta landsins undir æðstu stjórn ríkisins eða öryggisgæslu... (Gripið fram í.) Nú er fulltrúi hinnar geistlegu stéttar að skýra málið fyrir hv. frsm. þannig að nú fáum við vafalaust alveg ákveðið og skýrt svar við þessu því að þarna kom línan. En þetta tel ég alveg nauðsynlegt að sé rætt og skýrt. Hvernig í ósköpunum á að halda því fram að prestastéttin í landinu sé hluti af æðstu stjórn ríkisins eða öryggisgæslu? Og hvers eiga prestar landsins að gjalda? Ég veit að það hafa komið erindi en ég tel að þau séu ekki á skynsamlegum rökum reist þau erindi sem hafa komið frá hinum geistlegu fulltrúum í landinu.