Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 11:10:21 (6544)

1996-05-24 11:10:21# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta SJS (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[11:10]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon):

Herra forseti. Ég mæli fyrir frhnál. minni hluta efh.- og viðskn. á þskj. 1072. Minni hluti efh.- og viðsn. vísar til rökstuðnings í nefndaráliti eftir 2. umr. sem er á þskj. 912. Þar er rækilega farið yfir almenn efnisatriði frv. og rætt um ámælisverð vinnubrögð hæstv. ríkisstjórnar í þessum málum öllum. Ég held að það, herra forseti, dyljist engum að þau gagnrýnis- og varnaðarorð sem uppi voru höfð um frv. og allan málatilbúnað hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum hvað varðar löggjöfina um vinnumarkaðinn hafa rækilega sannast í meðförum málsins á þingi. Það tekur líka til hinnar pólitísku stöðu málsins. Það er orðið lýðum ljóst og hefur væntanlega ekki farið fram hjá neinum að hæstv. ríkisstjórn er komin í miklar ógöngur hvað varðar samskipti við samtök launamanna í landinu. En það hefur líka sannast að efnisatriði þessa frv. og frágangur allur var auðvitað fyrir neðan allar hellur þegar þau voru lögð á borð þingmanna og flutt af hæstv. ríkisstjórn.

Þetta tekur sem sagt bæði til efnisþátta og innihalds frumvarpanna og allra pólitískra aðstæðna í kringum afgreiðslu þeirra.

Eitt af því, herra forseti, sem leitt hefur af þeirri staðreynd að það slitnaði upp úr samstarfi verkalýðshreyfingarinnar og ríkisstjórnarinnar í aðdraganda þessa máls hefur orðið manni ljóst við umfjöllun um málið á þingi og sérstaklega í þingnefnd. Það er sú staðreynd að þar með hurfu frá samráðinu og undirbúningi þessara frumvarpa margir helstu sérfræðingar landsins í vinnurétti. Ég leyfi mér að fullyrða að það hefði aldrei komið til að frumvörp, jafnilla úr garði gerð og með jafnfjölmörgum tæknilegum ágöllum og fingurbrjótum og menn hafa nú verið að rekast á, hefðu verið lögð fram ef sérfræðingar samtaka launamanna og lögfræðilegir ráðgjafar, sem um leið eru helstu sérfræðingar landsins á sviði vinnuréttar, hefðu verið þátttakendur í frumvarpssmíðinni. Af sjálfu leiðir. Enda kemur á daginn að fjölmargt af því tagi er nú verið að reyna að lagfæra vegna þess að þeir sem að frumvarpssmíðinni unnu og bera á henni pólitíska ábyrgð höfðu einfaldlega ekki næga þekkingu á þessu sviði réttarins.

Ég get tekið tekið undir það, herra forseti, að það voru orð að sönnu sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, frsm. meiri hlutans, viðhafði hér trekk í trekk áðan, þ.e. að allt orkaði þetta mjög tvímælis. Ég tek svo sannarlega undir það. (Gripið fram í: Um prestana.) Að vísu var það sérstaklega um prestana en það má segja um málin í heild að allt orkar þetta mjög tvímælis og er þá vægt til orða tekið.

Það má segja, herra forseti, að í heildina tekið segi 19 töluliðir á breytingartillöguskjali við 2. umr. og 16 töluliðir á breytingartillöguskjali við 3. umr. allt sem segja þarf um ástand þessa frv. þegar það var fram lagt. Að það skuli þurfa að tæta þetta svona niður með breytingartillögum í tvígang, bæði við 2. umr. og 3. umr., er alveg óræk sönnun þess að málið var í algerlega óafgreiðsluhæfu formi þegar það kom hér inn. Ég held því að það sé leitun að öðru eins, að frv. að breytingum á vandasamri og viðkvæmri réttarlöggjöf af þessu tagi fái jafnharkalega falleinkunn í meðförum á Alþingi og þetta mál er að fá. Ég endurtek því, herra forseti, að þau varnaðarorð sem uppi hafa verið höfð af talsmönnum og sérfræðingum verkalýðshreyfingarinnar og stjórnarandstöðunni hafa reynst réttmæt. Öll umræða um málin og efnismeðferð sýnir það.

[11:15]

Stjórnarliðar sjálfir viðurkenna upp á sig skömmina með því að vera á handahlaupum fram undir síðustu stundu. Fram að kvöldi þess dags að málið var afgreitt úr nefnd voru menn með breytingartillögur þar sem verið var að reyna að bjarga í horn ýmsum atriðum, þar á meðal og ekki síst hlutum sem varða sjálfa stjórnskipun landsins, stjórnarskrá lýðeldisins og alþjóðlegar þjóðréttarlegar skuldbindingar Íslendinga. Ég kem betur að því síðar. Það kann að vera að mönnum hafi svona að verulegu leyti tekist að bjarga þar í horn með breytingartillögum en þó leikur þar vafi enn á um þó nokkur atriði. Það er ekki til þess að hrósa sér af að vera að sulla löggjöf í gegnum þingið í bullandi óvissu um hvort tilteknir þætti hennar standist stjórnarskrána og þjóðréttarlegar skuldbindingar sem Ísland ber gagnvart alþjóðlegum samþykktum.

Það ber því allt að sama brunni, herra forseti, hvað varðar allar aðstæður við afgreiðslu þessa máls að ótaldri þá þeirri staðreynd að fylgifrv. sjálft, hinn frægi bandormur bandormanna þar sem á að breyta í einu frv. eitthvað á annað hundrað lögum, er ekki á borðinu. Það er búið að gefast endanlega upp við það að hann fái afgreiðslu á þessu þingi. Auðvitað hefði móðurfrv. átt að bíða haustsins eins og afkvæmið, bandormurinn. Öll pólitísk staða málsins gerir það að verkum að það er mjög mikilvægt, herra forseti, að hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar á þinginu nái áttum í málinu og hverfi frá því óheillaráði að þröngva þessu máli í gegn við þessar aðstæður. Það er með ólíkindum að jafnreyndur maður á þessu sviði og hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, fyrrv. formaður Vinnuveitendasambands Íslands, sem gat sér m.a. í þeim störfum gott orð fyrir það að undirbyggja sérstaka samstöðu verkalýðshreyfingar og vinnuveitenda og samvinnu þessara aðila við stjórnvöld, að hann skuli hljóta það ömurlega hlutskipti að gerast framsögumaður meiri hlutans um þessi ósköp. (Gripið fram í: Framsóknarmaður meiri hlutans.) Ja, það liggur við að maður segi framsóknarmaður meiri hlutans. Það er náttúrlega með endemum að þessi örlög skuli þurfa að dæmast yfir þennan mæta mann og auðvitað stórkostlegt niðurlag á hans annars ágæta ferli að mörgu leyti á sviði þessara mála og samskipta aðila vinnumarkaðarins. Menn trúa því auðvitað ekki að þetta sé sami maðurinn og á hafa farið í gagnmerka leyniferð upp í Breiðholt, nánar tiltekið upp í einn af Stekkjunum þar, til þess að ná stjórnmálasambandi við einhverja af helstu forustumönnum verkalýðshreyfingarinnar á þeim tíma. En fróðir menn um sagnfræði og þessa Kremlarlógíu alla telja að það hafi síðar orðið ákveðið lím við gerð þjóðarsáttarsamninga og slíkra hluta. Getur þetta verið sami maðurinn, fyrrv. formaður Vinnuveitendasambandsins og núv. hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem lötrar upp í ræðustólinn til að mæla fyrir þessum ósköpum? Veit hv. þm. ekki að þetta er glapræði? Menn eru komnir í eru ógöngur í samskiptum þessara aðila og það er til marks um stórkostlegt geðleysi og afturför hjá þessum hv. þm. að gera ekki uppreisn gegn þessu.

Ábyrgð ríkisstjórninnar er alger. Það er ríkisstjórnin og hún ein sem ber hina pólitísku ábyrgð. Það þýðir hvorki fyrir hæstv. fjmrh. né hæstv. félmrh. að koma í ræðustólinn og væla um að það hafi slitnað upp úr einhverju einhvern tíma og það sé hinum eða þessum að kenna. Það er sandkassaröksemdafærsla sem dugar ekki vegna þess að realpólitíkusar horfa á þær aðstæður sem málin eru í og eru vaxnir upp úr því að þrátta um það hverjum eitthvað hafi verið að kenna einhvern tíma í fyrndinni. Það skiptir ekki máli. Það sem skiptir máli er sú staða sem uppi er núna pólitískt í þessum efnum, að það er að bresta á styrjaldarástand í samskiptum aðila vinnumarkaðarins. Ríkisstjórnin gengur erinda vinnuveitenda. Hún starfar samkvæmt tilmælum og fyrirmælum úr Garðastrætinu og ég veit ekki hvar hitt batteríið hefur höfuðstöðvar, hvort það er inni á Kirkjusandi eða í nýbyggingunni, Vinnumálasambandið þarna. Og svo er að hluta til hlýtt erlendri ráðgjöf frá Bretlandi og Nýja-Sjálandi um keyrsluna í þessum efnum. En það er ekki hlustað á samtök launamanna og það er ekki hlustað á varnaðarorð stjórnarandstöðunnar né annarra þeirra aðila sem uppi hafa slík.

Þetta, herra forseti, er alveg hörmuleg staða. Þetta er tragík af því tagi sem menn horfa stundum upp á í Shakespeare-leikritum og annars staðar þar sem að söguhetjan er komin út í forað, út í ógöngur og finnur enga leið í land og áhorfendur að leikritinu átta sig á því að það er ekkert eftir nema hin harmrænu örlög vegna þess að forlögin og bygging sögunnar eru þannig úr garði gerð að ekkert annað getur beðið söguhetjunnar en beiskur dauðinn og hörmuleg örlög. (Gripið fram í: Hamlet.) Þetta er svona milliþáttur í Hamlet þar sem lokakaflinn er fram undan, þ.e. kjaraátökin á komandi hausti og vetri.

Er það virkilega svo að ríkisstjórnin og fótgönguliðar hennar eigi sér enga útgönguleið út úr þessum ósköpum, að þeir séu svo illa komnir að í útréttar sáttahendur er ekki tekið? (Gripið fram í: Svo vilja þeir prestskosningar á fimm ára fresti.) Og svo prestskosningar á fimm ára fresti svona til þess að undirstrika það út í hvað menn eru að fara.

Verkalýðshreyfingin og stjórnarandstaðan hafa allan tímann tekið það skýrt fram að við værum tilbúin á hverju stigi málsins til samninga um að koma þessu einhvern veginn í land. Strax við fyrstu umfjöllun þessa máls í efh.- og viðskn. lýstum við fulltrúar minni hlutans því yfir að ef það væru einhver sérstök tiltekin efnisatriði málsins sem ríkisstjórnin pólitískrar stefnumörkunar sinnar vegna eða verkefnaáætlunar á næstu mánuðum teldi sig verða að ná fram svo sem eins og varðandi biðlaunaréttinn einan, þá skyldum við taka á því að vinna málið þannig að einhver tiltekin valin efnisatriði yrðu tekin út úr og um þau fjallað. Að sjálfsögðu var engu lofað um samkomulag en við höfðum skilning á því að kannski væri það eitthvað slíkt sem ríkisstjórnin teldi sig, vegna sinna pólitísku verkefna og stefnu, verða að ná fram. Og þá það. Það er pólitík. Um það geta menn rætt og tekist á um. En að frv. og frumvörpin yfirleitt að öðru leyti yrðu þá sett til hliðar. Á þetta var ekki hlustað og hefur ekki verið enn. Það skyldi keyra málið allt í gegn ofan í kokið á mönnum í andstöðu við allt og alla.

Sama hefur verkalýðshreyfingin sagt. Hún er tilbúin til samninga um þessi mál hvenær sem er. Verkalýðshreyfingin er tilbúin til að setja á fót starfsnefnd á morgun, í dag, ef ríkisstjórnin þiggur það tilboð, vinna í því máli í sumar og leggja málin að nýju fyrir að hausti. Þannig liggur það. Það er alveg á hreinu. Og gæfulegast væri að ríkisstjórnin reyndi að byggja þverpólitíska samstöðu um slíkt vinnuferli og setti málin í milliþinganefnd með fulltrúum allra flokka og verkalýðshreyfingarinnar og vinnuveitenda og þannig yrði að þessu unnið í sumar. Það væri málsmeðferð sem væri öllum aðilum sæmandi því hér eru mikilvæg mál í húfi. En menn hafa sem sagt ekki fundið þessa leið í land. Menn lenda lengra og lengra út í og ofan í foraðið og virðast dæmdir til þessara harmsögulegu endaloka málsins. Þetta er sorglegt. Þetta er dapurlegt og það liggur við að það þurfi prestlærða menn til þess að finna þessu viðeigandi orðalag og jafnvel tóntegund líka. Svona er það, herra forseti.

Í framhaldsnefndaráliti minni hlutans er farið yfir nokkur efnisatriði málsins sem sérstaklega hafa verið tekin til skoðunar og/eða við viljum vekja athygli á vegna umfjöllunar um málið milli 2. og 3. umr. Ég ætla að hlaupa þar á nokkrum atriðum. Ég tek fram að þar verður hvergi um tæmandi yfirferð að ræða bæði tímans vegna og aðstæðna allra. Ég bendi mönnum á að kynna sér fylgiskjöl með nefndarálitinu. Þar eru birt lögfræðiálit þau þrjú sem þegar hafa verið gerð að umtalsefni og einnig fleiri gögn.

Kem ég þá fyrst að því, herra forseti, að í upphafi málsmeðferðar eftir 2. umr. málsins, óskuðum við í minni hlutanum eftir því að einhvern veginn yrði reynt að afla eins greinargóðrar lögfræðilegrar úttektar á málinu og kostur væri. Sá tískusiður að vísa hlutum til Lagastofnunar háskólans gat tæplega komið til greina í þessu tilviki þar sem lög um réttindi og skyldur opinberra starfsmanna varða að sjálfsögðu starfsmenn háskólans ekki síður en aðra þannig að það orkar að mörgu leyti tvímælis að slíkir menn séu mikið í því að blanda sér í efnislega umfjöllun um málið, hvort heldur sem frumvarpshöfundar eða umsagnaraðilar og þarf ég vonandi ekki að tala skýrar. Við hurfum því að því ráði að óska eftir því að þrír valinkunnir sjálfstæðir og óháðir lögfræðingar yrðu fengnir til þess að gefa sínar sjálfstæðu álitsgerðir á ýmsum álitamálum sem þarna voru uppi. Í því sambandi var saminn spurningalisti með sex rökstuddum spurningum þar sem vísað var í tilteknar greinar stjórnarskrárinnar, samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og félagsmálasáttmála Evrópu m.a., svo og stjórnsýslulög og fleiri þætti og tilgreint á hvaða atriðum sérstaklega væri óskað álits. Þetta skilaði sér í að mínu mati mjög merkum lögfræðilegum álitsgerðum og vel unnum með tilliti til aðstæðna og tíma. Og það er ekki nokkur vafi á því að þessi úttekt var bæði brýn og þörf. Hún leiddi í ljós ýmislegt sem svo sannarlega var ástæða til að draga fram í dagsljósið.

Það má segja að kannski meginniðurstaða lögfræðiálitanna varði álitamál sem tengjast 74. gr. stjórnarskrárinnar og ákveðnum samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og félagsmálasáttmála Evrópu. Þar er fyrst og fremst verið að tala um 87. og 98. gr. samþykkta Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og 4. mgr. 6. gr. félagsmálasáttmála Evrópu. Þetta vísar einkum og sér í lagi til þess réttindamissis sem fjölmennir hópar starfsmanna áttu í vændum og eiga að hluta til enn að missa samkvæmt 22. gr. eða með því að falla undir 22. gr. frv. Í reynd er það svo að 22. gr. eins og hún er upphaflega í frv. jafngilti því að fjölmennir hópar, jafnvel nánast heil stéttarfélög opinberra starfsmanna, hefðu misst verkfalls- og samningsrétt og búið við verulega skert tjáningarfrelsi og rétt gagnvart stjórnsýslulögum og fleiri þáttum.

Það má segja að meginniðurstaða lögfræðinganna sé sú að eftir þær breytingar sem nú er ætlunin að gera samkvæmt breytingartillöguskjali á 22. gr., sé ástæða til að ætla að greinin þannig úr garði gerð sleppi hvað varðar ákvæði stjórnarskrárinnar og nefndra samþykkta. En eins og hún er í frv. er alveg ljóst að svo var ekki. Með því að gagn\-álykta, og það þarf raunar ekki gagnályktun til því að það kom skýrt fram í máli lögfræðinganna, er verið að segja í þeirra álitum: ,,Greinin eins og hún er í frv. óbreytt er skýlaust stjórnarskrárbrot og brot á tilvitnuðum samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og félagsmálasáttmála Evrópu.`` Af hverju er það? Það er vegna þess að undir hana falla samkvæmt frv. fjölmennar, óskilgreindar stéttir opinberra starfsmanna og hópar eins og allir starfsmenn Alþingis, allir starfsmenn í Stjórnarráðinu og allir yfirmenn í stofnunum og aðrir sambærilega settir menn án frekari skilgreiningar, sbr. 10. lið greinarinnar eins og hún er í frv. Ég held þess vegna að niðurstaða lögfræðinganna að þessu leyti, þó svo þeir segi og tóku það skýrt fram á fundum með nefndinni að breytingarnar skipta sköpum um stöðu frv. að þessu leyti gagnvart stjórnarskrá og þjóðréttarlegum skuldbindingum, þá er verið að segja: ,,Kæmu þær ekki til er frv. greinilega kolfallið gagnvart þessum ákvæðum stjórnarskrárinnar og þjóðréttarlegra skuldbindinga.``

[11:30]

Staðreyndin er sú að það er langt síðan frv. hefur fengið jafnhroðalega falleinkunn að þessu leyti til eins og það sem hér á í hlut. Ég sé að hæstv. fjmrh. hristir hausinn og lætur illa undir þessu, herra forseti, og þá er rétt að fara aðeins betur yfir þetta af því það dugar greinilega ekki að beita þessum einföldu röksemdum á hæstv. ráðherra. Hann skilur þetta ekki. Við skulum þá fara betur yfir málið.

Hvers vegna er það sem lögfræðingarnir gera svona mikið úr breytingartillögunni? Það er vegna þess að þeir segja: ,,Heimildir til að undanþiggja tiltekna hópa opinberra starfsmanna þeim mannréttindum að mega semja um kaup sitt og kjör, mega fara í verkföll og mega tjá sig, verða að vera afmarkaðar og fyrir þeim verða að vera skýr rök. Samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og þá væntanlega líka með túlkun íslensku stjórnarskrárinnar taka það ekki gilt að einstaklingar séu sviptir þessum mannréttindum nema fyrir því séu haldbær og viðurkennd rök. Hvað viðurkenna t.d. samþykktir Alþjóðavinnumálastofnunarinnar í þessum efnum? Jú, það liggur nokkuð ljóst fyrir. Það er skýrt. Það eru fyrst og fremst tveir hópar sem viðurkennt er að ríkin hafi heimildir til að takmarka þennan rétt gagnvart. Það eru æðstu yfirmenn stjórnsýslunnar, menn sem gegna þannig störfum að stjórnsýslan má ekki við því að þeir geti lagt niður störf og vegna almannareglu, vegna brýnna hagsmuna ríkisins er af þeim sökum talið réttlætanlegt að svipta þá þessum rétti. Það er að flestra dómi þannig að þá er fyrst og fremst um að ræða mikilvægustu og æðstu yfirmenn stjórnsýslunnar í hverju landi.

Hinn hópurinn eru þeir sem gegna öryggisgæslustörfum af því tagi að til að hægt sé að halda uppi reglu má þjóðfélagið ekki við því að þeir leggi niður störf. Þar er fyrst og fremst tvennt viðurkennt af hálfu Alþjóðavinnumálastofnunar. Það er her og hann höfum við ekki sem betur fer, ekki innlendan, og það er lögregla. Það er öryggisgæsla af því tagi, her og lögregla og hugsanlega að einhverju leyti tollgæsla í skilningnum landamæraeftirlit o.s.frv. Þetta eru hóparnir. Kannski fangaverðir einnig. Um það má deila hvort nauðsynlegt sé líka af öryggisástæðum eða jafnvel af félagslegum ástæðum eða mannúðarástæðum að halda uppi reglu að því leyti til vegna þeirra sem eru ekki frjálsir ferða sinna og sæta slíkum ráðstöfunum af hálfu samfélagsins. Og búið. Punktur. Fleira er ekki viðurkennt. Það flokkast undir brot á þessum samþykktum eða ólöglega mannréttindaskerðingu að ganga lengra. Þetta er alveg skýrt, þetta er svona. Þar af leiðandi, herra forseti, er 22. gr. eins og hún er í frv. út úr öllu korti gagnvart þessum skilgreiningum. Það er fráleitt að halda því fram að allir starfsmenn Alþingis og stofnana þess, þ.e. skrifstofumenn hjá Ríkisendurskoðun, skuli sæta þessari mannréttindaskerðingu, að starfsmenn skrifstofu forseta Íslands skuli sviptir þessum mannréttindum, að allir starfsmenn Stjórnarráðsins skuli sæta þessari mannréttindaskerðingu. Það er út í hött að halda því fram að það ógni almannareglu eða öryggi ríkisins ef svo er ekki. Svo ekki sé minnst á 10. liðinn eins og hann er fram settur um þá aðra sem skipaðir eru í störf af forseta Íslands samkvæmt mjög mismunandi lagaákvæðum sem eru nánast tilviljunarkennd gagnvart því hverjir af einhverjum sögulegum eða gömlum ástæðum voru skipaðir. --- Herra forseti. Ég krefst þess að fjmrh. sem er hér að hrista hausinn og láta ófriðlega, sé í salnum. Ég veit að vísu að höfundur frv. á ekki seturétt inni í þingsalnum en hann má þó vera í dyrunum mín vegna, sjálfur páfinn. Ég geri þá hlé á máli mínu, herra forseti, þangað til fjmrh. kemur í salinn.

(Forseti (GÁS): Við bíðum ráðherra. Hann er á næstu grösum.)

Hæstv. ráðherra getur reynt að sitja hér inni og standa svo fyrir máli sínu en vera ekki að hlaupa í hliðarsali til að reyna að smíða sér einhver rök í málinu sem engin eru auðvitað, með aðstoð hjálparkokka sinna. (Fjmrh.: Vill enginn hlusta á hv. þm. ...) Herra forseti. Það er leiðinlegt að eiga við þennan skæting í hæstv. ráðherra. Hann þolir greinilega ekki að það sé rætt við hann á mannamáli og hefur greinilega vonda samvisku í málinu. Og mikið skil ég hæstv. ráðherra vel að bæði hann og meðreiðarsveinar hans séu heldur lúpulegir satt best að segja því að ég held að í annan tíma hafi slíkir tæplega fengið jafnrækilega á kjaftinn í einu máli. (Fjmrh.: Hvers konar mannasiðir eru þetta.) Það er auðvitað slíkur hroðalegur dómur sem þetta frv. er að fá og útreið að hæstv. fjmrh. væri nær að vera til friðs heldur en vera með þessi ófriðarlæti hér á bekkjum. (Fjmrh.: Ég held að hv. þm. verði að sýna einhverja smámannasiði í ræðu ...) Herra forseti. Það er forseti sem áminnir ræðumann en ekki fjmrh. og ég fer fram á það að fjmrh. verði hafður á sínum stað í þessari umræðu. (Gripið fram í: Ætlar hann að stjórna ...) Að hann sé ekki að reyna að stjórna fundinum eða vera með skæting við ræðumann sem hefur orðið.

(Forseti (GÁS): Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur orðið.)

(Fjmrh.: Það verður að sýna einhverja kurteisi.) Ég þakka fyrir. (SvG: Láta fjmrh. stjórna fundinum líka?)

Herra forseti. Það er þannig með þessa 22. gr. að þau lögfræðilegu gögn sem nú liggja fyrir í málinu eru að mínu mati alveg fullnægjandi til þess að skýra þetta mál. T.d. 10. liður til viðbótar þessari almennu upptalningu á starfsmönnum tiltekinna embætta hist og her er auðvitað svo gjörsamlega fráleit í ljósi þess sem nú liggur fyrir varðandi það hversu menn verða að vanda sig gagnvart því að afmarka þá hópa sem réttlætanlegt er að sæti þessari mannréttindatakmörkun, skulum við segja, sem það er að hafa hvorki samnings- né verkfallsrétt og þar á ofan takmarkað tjáningafrelsi. En það er auðvitað sjálfstætt mál og enn ein hneisan í málinu að menn skyldu vera að hnýta inn í þetta að taka líka af þeim málfrelsið. En við vitum sem eitthvað þekkjum til löggjafarinnar og uppbyggingu stjórnsýslunnar að framsetning af þessu tagi eins og er í 10. liðnum: Þeir aðrir, sem skipaðir eru í störf af forseta Íslands samkvæmt öðrum lögum, svo og þeir er gegna störfum sem öldungis verður jafnað til embætta þeirra manna sem getið er ...`` er gjörsamlega yfirgengileg nálgun í málinu vegna þess að með þessu er verið að segja að það geti verið meira og minna tilviljanakennt hverjir lenda þarna undir. Á það þá að vera þannig að það verði nánast eins og pílukast, eins og tengingakast, eins og bara happadrætti eða lottó án efnislegs rökstuðnings og efnislegs bakgrunns hverjir eru látnir sæta þessari skerðingu og hverjir ekki? Auðvitað gengur þetta ekki. Auðvitað er þetta gjörsamlega út í hött. Ég tel að sem sagt þetta liggi svoleiðis fyrir að það þýði ekki og þurfi ekki --- já, ég skal gera hlé á meðan fjmrh. grætur á öxl hæstv. forseta.

(Forseti (GÁS): Hv. 4. þm. Norðurl. e. hefur orðið.)

Ég legg til að það verði sóttur vasaklútur handa hæstv. ráðherra ef þetta heldur svona áfram. Síðan er það þannig, herra forseti, að eitt mál stendur eftir í þessu sem þrátt fyrir breytingartillögur meiri hlutans er óútkljáð. Það gerir það að verkum, því miður, að áfram er þessi óvissa uppi í málinu. Það er a.m.k. eitt mál og er ég þó ekki að skrifa upp á að samkvæmt breytingartillöguskjalinu sé þetta orðið að öðru leyti fullnægjandi. En eitt er alveg morgunljóst og það er það að 4. tölul. í 22. gr. eins og hann yrði samkvæmt breytingartillögu meiri hlutans er enn óútkljáð vandamál í þessu sambandi ef svo má að orði komast. Það er þetta með biskup Íslands, vígslubiskupa, prófasta og presta þjóðkirkjunnar því að það er einfaldlega þannig að til þess að réttlætanlegt sé að prestar þjóðkirkjunnar séu taldir þarna upp sem embættismenn í þessum skilningi og það sem verra er, þar með án verkfalls- og samningsréttar og með takmarkað tjáningarfrelsi, þá verða þeir að falla undir þessa skilgreiningu. Þeir þurfa samkvæmt samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og vænanlega eins og það yrði líka túlkað gagnvart íslensku stjórnarskránni að vera annað tveggja: Hluti af æðstu stjórnsýslu ríkisins sem nauðsynlegt er að halda uppi á öllum tímum vegna almannareglu eða hluti af öryggisgæslukerfi þjóðfélagsins, sambærilegir við her eða lögreglu. En það hefur held ég engum dottið í hug að líkja prestunum við her nema þá að þeir væru hermenn guðs og er það þá í friðsamlegum tilgangi vonandi. (Gripið fram í: Hjálpræðisherinn.)

Þetta, herra forseti, liggur þannig að fyrir utan það klúður sem það er að vera með prestana þarna inni, þá er mjög mikill vafi á því svo ekki sé fastar að orði kveðið að það sé með nokkru móti hægt að teygja skilgreiningarnar á þessu tvennu, stjórsýslunni og örygginu, þannig að þær taki yfir presta landsins, ef svo má að orði komast með fullri virðingu, almenna óbreytta presta landsins sem eru bara rétt sisvona að messa á sunnudögum í sínum sveitakirkjum, að það falli t.d. undir öryggi ríkisins að þeir skuli ekki hafa samnings- og verkfallsrétt og ekki hafa tjáningarfrelsi nema í takmörkuðum mæli. Það er þannig. Hér er verið að tala um alvörumál, herra forseti. Hér er verið að tala um að það eigi að fara að klúðra við afgreiðslu málsins þessum þáttum þannig að það verði til vansa. Nú er ég ekkert að segja að prestar munu fara að leita réttar síns hjá alþjóðlegum úrskurðaraðilum hvað þetta snertir, en það er ljóst að það er einstaklingsbundinn réttur hvers og eins að gera það. Það þarf ekki nema einn einasta prest í landinu til sem segir: ,,Þessu uni ég ekki. Ég sætti mig ekki við það að mega ekki í predikuninni á sunnudaginn kemur lýsa yfir samstöðu með opinberum starfsmönnum sem eru í kjarabaráttu. Ég má ekki minnast á það einu orði. Þá verð ég tekinn og dæmdur og settur í steininn samanber viðlagaákvæðin í 40. gr. Þessu uni ég ekki. Ég vil geta tjáð mig úr stólnum um jafnt þessi mál sem önnur, tel það vera hluta af sjálfstæði míns embættis og ég vísa þessu máli til æðri dómstóla, þ.e. ekki þess eina og sanna og síðasta heldur út til Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og sæki rétt minn þangað.`` Og hvað gerist þá? Það eru því miður að mínu mati, herra forseti, verulegar, ég segi ekki yfirgnæfandi líkur á því að íslenska ríkið fengi þar á sig dóm.

Þá kemur enn að því sem best er að taka þá í leiðinni að þessi ósköp þýða jafnframt að prestarnir verða á fimm ára ráðningakjörum eins og aðrir opinberir starfsmenn. Þar með er gripið inn í það skipulag sem gilt hefur um starfsmenn kirkjunnar. Þar með eru í raun og veru upphafin ákvæði laga um ráðningar presta og prestskosningar og þetta þýðir væntanlega að hver einasti söfnuður í landinu verður einhvern veginn að kalla sér eða kjósa sér eða ráða sér prest á fimm ára presti. Þetta er grundvallarbreyting á stöðu þjóðkirkjunnar í landinu. Og lærðir menn segja og þar á meðal kemur það fram í umsögn formanns Prestafélags Íslands til nefndarinnar að þetta samrýmist ekki kirkjuskipaninni, að þetta sé inngrip í sjálfstæði þjóðkirkjunnar í landinu, að þetta sé brot á ordinantíunni og þetta sé meira að segja í andstöðu við Ágsborgarjátninguna, sjálfa lútherskuna (Gripið fram í: Það er ekkert annað.) þannig að menn eru komnir í hreinar ógöngur og siðaskiptin jafnvel að verða bara ógild og er þá mikið sagt. (Gripið fram í: Farðu nú að hætta þessu.) (SvG: Það á að bakka með Jón Arason.) Ja, það liggur við og eru þá engir smáhlutir undir. (Gripið fram í: Og syni hans.)

[11:45]

Það er, herra forseti, spurning hvort það dugar að halda þessari umræðu áfram lengur nema hæstv. dómsmrh. og kirkjumrh. sé viðstaddur. Ég þykist vita að fleiri hafi áhuga á því að ræða þetta mál. Það er svo með mál af þessu tagi sem eru almenns eðlis og taka til margra þátta að þau geta átt sér hliðarmál og hliðarverkanir sem einar og sér eru stórmál í sjálfu sér. Ég er alveg sannfærður um að ef hér væru á dagskrá lög um ráðningu presta, yrðu heitar umræður um það mál sem slíkt. En það er hér falið inn í þessum óskapnaði og hefur kannski ekki vakið athygli eða notið sín í efnislegri umræðu sem slíkt af þeim sökum. En meginniðurstaðan er þessi, herra forseti. 22. gr. eins og hún er í frv. var algerlega ótæk. Hún var brot á ákvæðum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar og væntanlega einnig félagsmálasáttmála Evrópu. Hún hefði væntanlega verið talin stangast á við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar. Um það ber lögfræðingunum saman að brtt. sem nú er lögð fram skiptir í þeim efnum sköpum og með gagnályktun þar af leiðandi ljóst að upphaflega útgáfan gat ekki gengið. Enn er það því miður þannig og einkum og sér í lagi vísa ég þá til þessa með prestana að mikill vafi leikur á að málið sé, þrátt fyrir breytingartillöguna, í afgreiðslutæku horfi.

Í öðru lagi og þessu tengt, herra forseti, gera lögfræðingarnir takmörkun á mannréttindum eða tjáningarfrelsi opinberra starfsmanna, samanber sérstaklega 40. gr. frv., að umtalsefni. Það er enginn vafi að niðurstaða þeirra er sú að þar sé gengið langt út fyrir eðlileg takmörk, það verði að færa efnisleg rök og haldbær fyrir því að beita slíkum sviptingum eða skerðingum og það sé ekki gert í frv. Einkum og sér í lagi eru það hin kostulegu orð 40. gr. um að ,,stuðla að`` sem þar eru tekin fyrir. Og vel að merkja, meiri hlutinn hefur áttað sig á því að þarna væri of langt gengið og leggur til í 11. tölul. á breytingartillöguskjalinu að orðin ,,stuðla að`` í 40. gr. falli brott. Þetta er enn ein sönnun þess að frv. í sínum upphaflega búningi stóðst ekki, það gekk út yfir öll eðlileg takmörk hvað það varðar að svipta embættismenn almennum mannréttindum.

Í þriðja lagi er fjallað ítarlega í áliti lögmannanna um þá skerðingu á andmælarétti og einnig málskotsrétti til æðra stjórnvalds sem frv. felur í sér hvað opinbera starfsmenn snertir. Þar eru að vísu lögfræðingarnir þeirrar skoðunar að út af fyrir sig geti Alþingi ákveðið að svipta menn þessum réttindum. Það sé að vísu óæskilegt út frá jafnræðissjónarmiðum séð og öðru slíku að velja út einn hóp þegna þjóðfélagsins og taka af honum þessi réttindi, en það sé þó á valdi Alþingis að setja slík lög. En öllum ber þeim saman um að þetta sé þvert á réttarþróunina undanfarin ár og þvert á anda stjórnsýslulaganna, fráleitt í ljósi þeirrar réttarþróunar og réttarbóta sem menn hafa verið að reyna að lögfesta hér m.a. með stjórnsýslulögunum á síðustu árum. Því miður leggur meiri hlutinn ekki til breytingu á þessu ákvæði.

Mergurinn málsins er sá, herra forseti, að í reynd þarf að snúa efnisákvæðum frv. við þannig að almenna reglan verði málskotsréttur til æðra stjórnvalds eins og annars staðar í þjóðfélaginu. En telji menn þörf á að afmarka hann sérstaklega á einhverjum stöðum, væri frekar hægt að gera það í einhverjum tilgreindum tilvikum. En að ganga frá þessu eins og frv. gerir, þ.e. að almenna reglan sé að opinberir starfsmenn séu sviptir málskotsrétti er mjög óeðlilegt, svo ekki sé fastar að orði kveðið, og hrein afturför og öfugþróun borið saman við þróun réttarins að þessu leyti á undanförnum árum.

Í fjórða lagi, og fleiri af þessum stóru efnisþáttum sem lögfræðiálitin fjalla um ætla ég ekki að taka fyrir, er fjallað um biðlaunaréttinn. Þar komast lögfræðingarnir að vísu að mismunandi niðurstöðu. Tveir telja að ekki sé um að ræða skerðingu á réttindum sem líklegt sé að séu stjórnarskrárvarinn einkaeignarréttur viðkomandi manna. Sá þriðji leiðir hins vegar að því sterk röku að um slíkt sé að ræða og bendir þar m.a. á bæði dóma og þróun af ýmsu tagi sem vísi í þá átt þótt rétt sé að taka fram að um þetta atriði sem slíkt, sérstaklega um stöðu biðlaunaréttarins sem slíks, hefur ekki fallið að mér skilst efnislegur dómur. Þótt það mál hafi verið hluti af málum sem komið hafa bæði fyrir undirrétt og Hæstarétt á undanförnum árum, hafa þau mál verið til lykta leidd með öðrum málsrökum en þeim sem sneru að biðlaunaréttinum og eðli hans sem slíkum og má þar t.d. taka SR-málið fræga.

Það sem sérstaklega er rétt að vekja athygli á er með hvaða hætti er verið að taka af biðlaunaréttinn. Og það er einmitt ítarlega yfir það farið af hálfu lögfræðinganna, sérstaklega Láru V. Júlíusdóttur sem gerir þessu máli mjög góð skil. Og það kom fram hjá ýmsum viðmælendum nefndarinnar að það skiptir ekki bara máli að biðlaunarétturinn sem slíkur sé tekinn af með einhverjum hætti, heldur hvernig það er gert. Það gæti orðið það sem réði úrslitum um niðurstöðu í dómsmáli sem þessu tengist því hér valin sú leið að aftengja biðlaunaréttinn með í raun og veru mjög grófum hætti, ef svo má að orði komast, þ.e. með því að segja: Hann skal upphafinn ef menn taka við öðrum ,,sambærilegum störfum`` án frekari skilgreiningar. Og það er jafnframt þannig frá málum gengið að öll laun sem menn fá fyrir önnur störf af hvaða toga sem er skuli dragast frá biðlaunum, öll laun. Þótt menn fari í störf frá hinu opinbera út á almenna vinnumarkaðinn, gerólík að eðli og réttarumhverfi, skal biðlaunarétturinn samt skerðast um þau laun sem þar eru í boði. (Gripið fram í: Hvernig á að sanna launin...) Svo er það kapítuli út af fyrir sig hvernig í ósköpunum á að framkvæma þetta. Hver á að upplýsa um þau laun sem menn kunna að fá hér eða þar og einhvers staðar? (Gripið fram í: Eftirlitsstofnun.) Það verður svei mér blómleg tíð hjá eftirlitsiðnaðinum við það mál. En það sem skiptir þó líklega mestu máli, herra forseti, að áliti margra lögfræðinga og sérfræðinga í vinnurétti sem fyrir nefndina komu er að það er rofið sambandið milli réttarumhverfisins og eðlis starfsins. Með öðrum orðum, það skiptir ekki máli hvaða réttarumhverfi er í nýja starfinu hvað varðar hluti eins og fæðingarorlof, veikindaorlof, eftirlaun eða lífeyrisréttindaávinnslu o.s.frv. ef einhver ráðherra eða annar slíkur ákveður að starfið sé sambærilegt.

Við getum tekið einfalt dæmi. Ef kennari, sem verið hefur í starfi hjá ríkinu og haft þar réttindi samkvæmt þessum lögum og biðlaunarétt og allt það, ræður sig til einkaskóla er að vísu um að ræða sambærilegt starf væntanlega í þeim skilningi að það er líka kennsla, en þar hefur hann kannski ekki neinn rétt til fæðingarorlofs eða veikindarétt, eða allt annan og takmarkaðri en hann hafði áður. Og hann hefur kannski engan rétt til lífeyrisávinnslu eða annað þar fram eftir götunum. Þá segja höfundar frv.: Skiptir ekki máli. Réttarumhverfið í hinu nýja starfi skiptir ekki máli, ef það telst sambærilegt sem slíkt. Heldur þetta? Gengur þetta? Verður ekki biðlaunarétturinn settur í samhengi við heildarkjör og réttindi starfsmannanna eins og þau voru og sagt: Ef þau skerðast að einhverju leyti, þó ekki sé endilega vegna launa heldur vegna þess að réttindaumhverfið er annað, þá verður biðlaunarétturinn virkur? Þessu halda mjög margir lögfræðingar fram og að því leyti til er í besta falli ljóst, herra forseti, að það er grenjandi óvissa um að þetta gangi eins og hér er lagt upp með og mestar líkur á því að afleiðing þess að vanda ekki betur til vinnubragða hvað þetta snertir verði bullandi málaferli og óróleiki á næstu missirum.

Herra forseti. Í gegnum þetta hef ég í leiðinni að nokkru leyti gert grein fyrir helstu breytingartillögum meiri hlutans þannig að ég get farið þar fljótt fyrir sögu. Ég hef rætt rækilega um 22. gr. og breytingarnar sem þar eru gerðar og eru auðvitað veigamiklar í sjálfu sér því þær afmarka verulega þann hóp sem áður var ætlunin að láta falla undir þetta nýja hugtak, embættismenn. Það er einnig umtalsverð breyting að okkar mati að í 13. tölul. breytingartillöguskjalsins á þskj. 1057 að fella á niður 2. mgr. 47. gr. frv., þ.e. þá illræmdu málsgrein sem átti að færa eða margir óttuðust að mundi færa, svo maður haldi öllu rétt til haga, ófélagsbundnum mönnum, þeim sem gengju úr verkalýðsfélögum, forréttindi umfram aðra. Sem sagt þau forréttindi að geta staðið utan stéttarfélaga, losnað við að greiða til þeirra iðgjöld, en fá á silfurfati réttindi þau hin sömu og verkalýðsfélög kynnu að semja um.

Því er að vísu haldið fram af hálfu hæstv. fjmrh. og fleiri og má vel vera að sé rétt að gagnvart opinberum starfsmönnum yrði þetta í lagi vegna þess að þá gildi önnur lagaákvæði, lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna og einhver ákvæði sem gott ef ekki eru frá 1915 og 1986 um það sem sagt að menn skuli greiða fyrir þá þjónustu sem þeir óbeint fá ef þeir standa utan stéttarfélaga en taka kjör samkvæmt því sem stéttarfélögin semja um. En þá stendur enn eftir sá hópur sem nú kemur undir gildissvið þessara laga sem eru opinberir starfsmenn í almennu verkalýðshreyfingunni. Um þá gilda ekki lög um kjarasamninga opinberra starfsmanna eða hafa ekki gert. Óvissan gat því enn þá verið þar hvernig færi um ófélagsbundna menn sem komið hefðu úr röðum félagsmanna almennu verkalýðsfélaganna. En í öllu falli er það svo og það er ljóst að við teljum það verulega bót að þessi umdeilda grein falli út og þannig gefist kostur á því að vanda betur til frágangs þessara mála.

Hin efnisáhrif þessarar greinar sem menn óttuðust voru þau að hún yrði til að grafa undan stöðu verkalýðsfélaganna, ýta undir það að menn færu úr þeim og sæju sér engan hag í því að vera í þeim. Enda vandséð að menn geri það ef þeir geta fengið alla þjónustu þeirra gratís nema þá þeir sem á grundvelli stéttarvitundar og af hugsjón vildu styrkja verkalýðshreyfinguna eða verkalýðsfélög með aðild sinni. Að öðru leyti væru þá engin sérstök rök fyrir því að vera þar innan borðs, eða hvað? Þetta mundi heita það sem sagt var einu sinni á þingi: Að fá allt fyrir ekkert. Það er að segja ef mönnum væri gert með sérstakri mismunun af þessu tagi hærra undir höfði ef þeir stæðu utan verkalýðsfélaga en innan þeirra.

Sömuleiðis má segja að þær lagfæringar sem gerðar eru í 11. brtt.. á 40. gr. frv. og ég hef hér fjallað um séu að sjálfsögðu til bóta, þ.e. að fella niður þessi fráleitu orð að ekki einasta sé mönnum bannað að fara í verkföll og allt það, heldur stuðla að þeim eða öðrum sambærilegum aðgerðum með hvaða hætti sem er. Eins og bent var á hefði þetta þýtt að öllum þeim sem falla undir skilgreininguna embættismenn, þar með taldir prestar landsins, væri væntanlega bannað að skrifa blaðagrein eða opna munninn í stólnum um nokkuð það sem tengja mætti við kjarabaráttu ef hún stæði yfir. Auðvitað er svona ákvæði alveg gersamlega út úr kú og sem betur fer hafa menn séð að sér og leggja til að það sé fellt niður.

Í heildina tekið, herra forseti, ætla ég að láta nægja að segja að þessar breytingartillögur allar sýna það sem við höfum hamrað á, þ.e. hversu mikil hrákasmíð þetta frv. var í upphafi og í raun ótrúlega lítt unnið, svo ekki sé fastar að orði kveðið.

[12:00]

Herra forseti. Þrátt fyrir gífurlega vinnu sem efh.- og viðskn. hefur reynt að leggja í þetta mál og fleiri á undanförnum vikum er langt frá því að menn hafi haft það næði og það tóm til þess að ígrunda þessi mál sem eðlilegt væri. Þetta frv., þessi vandasama löggjöf, er dæmigerð fyrir það að málið mundi bíða sér til mikilla bóta, efnislega. Þetta er mál sem hefði verið æskilegt að vinna í í milliþinganefnd eða í einhverjum farvegi yfir sumarið og hafa svo a.m.k. allt haustmissirið til að taka það til rækilegrar skoðunar í efh.- og viðskn. Þannig hefur efh.- og viðskn. á undanförnum árum oft unnið að vandasamri löggjöf. Ég gæti nefnt sem dæmi samkeppnislög. Þegar þau voru sett var lagt í gríðarlega vinnu. Efh.- og viðskn. tók sér tíma, fór í vinnuferðir, sat yfir málinu heilu dagana og fékk til sín sérfræðinga. Hver varð niðurstaðan? Hún varð sú eftir þriggja missira vinnu að mjög vönduð og heildstæð samkeppnislöggjöf var afgreidd í samstöðu frá Alþingi. Ég get trútt um talað því ég var þátttakandi í þessari vinnu allri. Ég hafði lagt fram frv. til laga um nýja samkeppnislöggjöf árið á undan í hæstv. ríkisstjórn og leyfi mér að segja að ég hafði haft þó nokkur áhrif á þá vinnu sem þar fór fram. Einhvern tíma hefðu það þótt tíðindi að sósíalistinn ég og frjálshyggjumennirnir úr Sjálfstfl. sem að þessu starfi komu hefðum orðið sammála á Íslandi á árinu 1992 um samkeppnislög. En það gerðist og segir sína sögu um hvort tveggja. En fyrst og fremst er það góður vitnisburður um þau vinnubrögð sem þá voru ástunduð. Menn fengu frið og næði til þess að grandskoða málin og ná saman. Og ætli það sé ekki vænlegra til árangurs og farsælla fyrir samfélagið en að þræla hlutunum áfram með þeim hætti sem hér er verið að reyna, þræla hlutunum áfram í svona andstöðu. Og að þessu sinni ekki bara við okkur stjórnarandstæðinga. Menn geta gert lítið með okkar sjónarmið og okkar málafylgju og vinnu ef þeir vilja. En það er því miður ekki bara svo að það sé í andstöðu við okkur og gegn okkar sannfæringu um það að þessi mál séu ekki nógu vel unnin, heldur er það líka í andstöðu við alla verkalýðshreyfinguna. Tugi þúsunda og hundruð þúsunda félagsmanna þeirra og forsvarsmenn. Og það er öllu alvarlegra og verra mál.

Að síðustu, herra forseti, að lokinni þessari umfjöllun málsins og í ljósi breytingartillagna sem nú liggja fyrir við 3. umr. og þeirra breytinga sem gerðar voru á frv. eftir 2. umr. standa þau mál þannig að það hefur engu breytt um harða andstöðu samtaka launamanna við þetta frv. Við sáum til þess, fulltrúar minni hlutans, að forustumenn helstu samtaka opinberra starfsmanna og almennu verkalýðshreyfingarinnar komu fyrir efh.- og viðskn. á lokastigi umfjöllunar um málið til þess að það lægi alveg ljóst fyrir, skýrt og milliliðalaust, hver væri þá orðin afstaða verkalýðshreyfingarinnar til þessara mála. Og svörin voru skýr. Hún er óbreytt. Við viljum þessi mál út af borðinu, við krefjumst þess að þau verði ekki afgreidd vegna þess að þau eru enn efnislega óþolandi fyrir okkur og líka vegna þess að það eru óuppgerðar sakir vegna þeirra vinnubragða sem ástunduð hafa verið í þessu sambandi. Hvort tveggja stendur eftir. Málin hafa vissulega breyst og að ýmsu leyti til bóta, hæstv. ríkisstjórn og meiri hluti hennar er sem betur fer ekki svo heillum horfinn að hann hafi ekki séð að sér í ýmsum greinum. Þótt það séu kannski minni líkur nú en voru áður á því, sem voru yfirgnæfandi, að frv. brjóti beinlínis stjórnarskrá og alþjóðlegar samþykktir, er eftir sem áður þarna á ferðinni fjölmargt efnislegt sem við getum ekki sætt okkur við. Það liggur því alveg skýrt fyrir, eins skýrt og nokkuð getur verið, herra forseti, að afstaða verkalýðshreyfingarinnar er óbreytt. Hún krefst þess að þessi mál verði ekki afgreidd og afstaða stjórnarandstöðunnar er sömuleiðis óbreytt. Við munum því leggjast gegn afgreiðslu þessa máls og nefndaráliti okkar lýkur á þeirri niðurstöðu.

Ég vil svo áður en ég lýk máli mínu, herra forseti, aðeins segja á nýjan leik almennt um þetta mál að það virðist einhvern veginn ekki hafa tekist að kveikja á perunni eða perunum, það er líklega rétt að hafa þetta í fleirtölu, hjá hæstv. ráðherrum og hv. stjórnarliðum varðandi það hversu alvarlegt mál er hér á ferðinni. Maður verður að vísu rækilega var við það að úti í þjóðfélaginu hefur það stimplast alveg inn endanlega hvað hér er að gerast. Ég er ekki að segja að almenningur í landinu hafi sett sig í einstökum atriðum nákvæmlega og í smáatriðum ofan í efnisþætti þessa máls, enda varla til þess hægt að ætlast. En hitt er ljóst að almenningur á Íslandi hefur alveg meðtekið hvað er að gerast. Það sem er að gerast er að ríkisstjórnin er komin í stríð við verkalýðshreyfinguna. Ríkisstjórnin hefur sagt upp friðnum. Fram undan eru átök í kjaramálum, óvissa og veruleg hætta á því að þeim stöðugleika sem við höfum náð að búa við nú um nú um nokkurra ára bil verði fórnað á altari þessarar fávisku. Ég kem ekki fyrir mig neinu einu íslensku orði sem lýsir þessu betur en orðinu þrái. Þetta virðist vera orðinn einhver þrái í hæstv. ríkisstjórn, sérstaklega t.d. hæstv. félmrh. varðandi frv. um stéttarfélög og vinnudeilur sem meira og minna ekkert er orðið eftir af nema nafnið tómt. Samt þráast hæstv. félmrh. við. Hann finnur ekki leið í land, vill ekki viðurkenna ósigur sinn og er kominn út á þessar hryllilegu blindgötur.

Herra forseti. Ég vil svo að lokum óska eftir því að hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra verði látinn vita af því að hans sé óskað við umræðuna. Ég geri ekki kröfu til þess að hann komi nú áður en ég lýk máli mínu, en ég áskil mér rétt til þess síðar í umræðunni að leggja spurningar fyrir hæstv. dóms- og kirkjumálaráðherra hvað varðar 4. tölul. 22. gr. frv. eins og hann er lagður upp í breytingartillöguskjali meiri hlutans. Ég tel ekki hægt að ljúka umræðum um þetta hvað það mál varðar öðruvísi en hæstv. dómsmrh. eigi kost á því að lýsa sinni afstöðu til þessa máls. Ég teldi það hneyksli ef umfjöllun um þetta yrði lokið án þess að æðsti yfirmaður þeirra mála í landinu kæmi til umræðunnar.

Ég fer í öðru lagi fram á að formenn stjórnarandstöðuflokkanna sýni þessari umræðu þann sóma að vera hér viðstaddir. Mér finnst það ekki hægt, herra forseti, að halda áfram umræðum um þetta mikla mál á lokastigi þannig að það sé galtómur ráðherrabekkurinn. Ég tek það fram að hæstv. fjmrh. þurfti að bregða sér aðeins frá lögmætra erinda og með mínu samþykki þannig að ég er í þessu tilviki ekki að vísa til hans. Ég krefst þess að hæstv. utanrrh. og hæstv. forsrh. verði viðstaddir í dag og séu við þessa umræðu. Þeir eru pólitískir ábyrgðaraðilar þessara mála og það er hneyksli ef þeir ætlað að bjóða Alþingi upp á þá vanvirðu og verkalýðshreyfingunni og stjórnarandstöðunni og öðrum sem í hlut eiga að henni ljúki án þess að þeir svo mikið sem séu viðstaddir, svo ekki sé minnst á að Framsfl. er yfirleitt algerlega týndur í þessu máli eins og reyndar flestum öðrum. Hæstv. utanrrh. er að reyna að bjóða mönnum upp á það og þjóðinni ekki síst að Framsfl. sé algerlega í felum. Að hann sem formaður flokksins þori aldrei í ræðustól í hvorugu málinu, þetta er hneyksli. Eða er samviska hæstv. utanrrh. þannig á sig komin í þessum efnum að hann þori ekki í ræðustólinn til þess að standa fyrir máli Framsfl.? Er það þannig, herra forseti?

Nú vill svo til að sjónvarp landsmanna sendir út umræður og hæstv. utanrrh. hefur kjörið tækifæri til þess að koma í ræðustólinn í eftirmiðdaginn og standa fyrir máli Framsfl. sem menn hafa eðlilega harðlega gagnrýnt fyrir að ganga erinda íhaldsins og frjálshyggjunnar. Ég óska því eftir því, herra forseti, að þessi ósk verði tekin alvarlega. Ég mótmæli því að umræðunni ljúki öðruvísi en formenn stjórnarflokkanna komi hingað og okkur gefist kostur á því að leggja fyrir þá spurningar og eiga við þá orðastað. Alveg sérstaklega höfða ég hér til formanns Framsfl. Af eðlilegum ástæðum er kannski ríkari ástæða en ella til að hann komi hér þar sem þetta mál er á verksviði hæstv. fjmrh. og hæstv. fjmrh. stendur að því leyti til fyrir máli Sjálfstfl. í þessum efnum.

Ég tel jafnframt eðlilegt að hæstv. forsrh. sem pólitískur ábyrgðaraðili og forustumaður ríkisstjórnarinnar í heild gefi einhver skýr svör. Það gengur ekki annað en þessir hæstv. ráðherrar svari því hvernig þeir sjá þetta mál í samhengi við komandi kjarasamninga svo eitt dæmi sé tekið. Annað gengur ekki.

Að lokum, herra forseti, er það afstaða minni hlutans að leggjast gegn þessu máli. Við leggjum því til að því verði vísað frá með svofelldri rökstuddri dagskrá:

,,Þar sem samtök launafólks leggjast algerlega gegn máli þessu, afgreiðsla þess mundi stórspilla andrúmsloftinu í aðdraganda komandi kjarasamninga og málið er enn langt frá því að vera fullunnið og á því fjölmargir tæknilegir jafnt sem efnislegir ágallar samþykkir Alþingi að vísa frv. frá og taka fyrir næsta mál á dagskrá.``

Verði tillaga þessi felld mun minni hlutinn greiða atkvæði gegn frv. í heild sinni.

Kristín Ástgeirsdóttir sat fundi nefndarinnar sem áheyrnarfulltrúi og er samþykkt nefndaráliti þessu.

Undir þetta rita Steingrímur J. Sigfússon frsm., Ágúst Einarsson og Sighvatur Björgvinsson. Alþingi, 23. maí 1996.

Herra forseti, ég hef lokið máli mínu.

(Forseti (GÁS): Vegna óskar hv. þm. um viðveru hæstv. ráðherra við umræðuna vill forseti upplýsa að boðum hefur verið komið til þeirra varðandi þessa ósk.)

Ég þakka.