Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 12:14:38 (6546)

1996-05-24 12:14:38# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[12:14]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Mér þykir mjög miður ef hv. þm. hefur tekið orðaskiptin áðan persónulega. Það var ekki þannig meint. Ég var að sjálfsögðu að fjalla um hið pólitíska hlutskipti hv. þm., um hið pólitíska hlutverk sem hv. þm. er í. Hv. þm. þarf að temja sér að greina þarna á milli. Við reynum það jafnan í samskiptum okkar, pólitískir andstæðingar hér, að halda þessu tvennu algerlega aðgreindu. Eins og hv. þm. veit getum við verið hinir bestu mátar utan þingsala en þegar um er að ræða pólitísk verk og pólitískt hlutskipti eru það pólitísk mál. Ég var að fjalla um það pólitíska hlutverk sem hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson er nú í. Hann er frsm. meiri hlutans fyrir þessu máli við þessar aðstæður sem ég fór nokkuð rækilega yfir. Um þetta mál er gífurlegur ágreiningur og andrúmsloftið úti í þjóðfélaginu og þá sérstaklega hjá verkalýðshreyfingunni er eins og raun ber vitni. Og ég ætla að endurtaka að ég ætla að halda áfram að leyfa mér að trúa því innst inni að hv. þm. sé ekki eins skemmt og hann vill vera láta út af þessu. Ég ætla að fá að trúa því áfram ef ég má hvað sem hver segir. Ég veit að hv. þm. hefur þekkingu á því hvernig þessir hlutir ganga fyrir sig í raunveruleikanum og ég vil fá að trúa því að hann telji þetta ekki skemmtilega stöðu eða sérstaklega ánægjulegt pólitískt verk sem hann hefur orðið að vinna. Auðvitað verður að gera fleira en gott þykir, það þekkjum við sem lengi höfum verið í því að moka þessa pólitísku flóra.

Varðandi skáldskapinn og bókmenntirnar þurfum við eiginlega meiri tíma ef við eigum að komast eitthvað á flug í þessu með Shakespeare og annað því um líkt. Ég er svo sannarlega til í að fara að reyna að lesa mér til og rifja það svolítið upp þannig að ég geti líka komið með eitthvað af beinum tilvitnunum. Örugglega finn ég sögupersónur sem ég get nafngreint sem ættu þá vel við í tilviki hv. þm. (Gripið fram í: Lady Macbeth.)