Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 12:37:24 (6548)

1996-05-24 12:37:24# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SighB
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[12:37]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Öll þekkjum við söguna um hjallinn hans Péturs þríhross sem Halldór Kiljan Laxnes segir frá í bók sinni um Ljósvíkinginn. Eins og hv. þm. muna voru það örlög þess hjalls að fjúka í vetrarveðrum en birtast síðan á miðilsfundi og var þá hjallurinn orðinn höll á himnum. Það má segja að vegferð þessa frv. hafi verið þveröfug. Þegar það var kynnt af hæstv. fjmrh. þá var það kynnt sem höll á himnum. Síðan hefur það mætt vetrarveðrum í meðförum þingsins og í umsögnum umsagnaraðila og birtist nú eins og á miðilsfundi og er þá orðið að skúr á malarkambi hæstv. ríkisstjórnar. Svo miklar breytingar hafa orðið á frv. Þegar frv. var lagt hér fram og mælt fyrir því af hæstv. fjmrh., sem kynnti það sem höll sína á himnum, sögðum við stjórnarandstæðingar m.a. að sum ákvæði þess brytu í bága við alþjóðasamninga um vinnumál sem Íslendingar eru aðilar að. Við sögðum að önnur atriði þess brytu í bága við stjórnarskrá lýðveldisins, m.a. um málfrelsi. Við sögðum að sum atriði þess brytu í bága við mannréttindalöggjöf sem á að ná til allra þegna Íslands. Þessu var harðlega mótmælt af hæstv. fjmrh. og málsvara ríkisstjórnarinnar. En í meðförunum hefur komið í ljós að við höfðum rétt fyrir okkur. Vegna þess að þær breytingar sem gerðar hafa verið á frv. hafa m.a. verið til þess að það bryti ekki í bága við alþjóðlegar skuldbindingar Íslendinga um vinnumarkaðsmál og málefni aðila vinnumarkaðarins. Aðrar hafa verið gerðar til að koma í veg fyrir að það bryti í báta við ákvæði íslensku stjórnarskrárinnar en þó standa enn inni í frv. ákvæði sem að áliti lögfræðinga brjóta í bága við almenn mannréttindi á Íslandi eins og þau birtast m.a. í stjórnsýslulögunum. Það kom því í ljós í meðförum Alþingis að frv., sem var upphaflega lagt fram, braut í verulegum atriðum í bága við ýmis undirstöðulýðréttindi í þjóðfélaginu og var þess vegna ekki sú glæsismíð sem hæstv. ríkisstjórn kynnti í upphafi málsins.

Það er ástæðulaust nú við 3. umr. að fara mjög mörgum orðum um frv. í þeim búningi sem það er nú. Þó get ég ekki látið hjá líða að fara í örstuttu máli yfir þær umtalsverðu breytingar sem hafa verið gerðar á frv. frá upphaflegri gerð þess. Ég læt þá aðallega staðar numið við hinar stærri breytingar en auk þeirra hafa margar minni háttar breytingar verið gerðar.

Í fyrsta lagi voru gerðar allverulegar breytingar á frv. við 2. umr. og vil ég í því sambandi geta þess sérstaklega að þar var gerð sú breyting til að tryggja réttindastöðu opinberra starfsmanna sem var ekki í frv. að forstöðumanni sé skylt að veita áminningu áður en hann vísar starfsmanni úr starfi sem hann telur að hafi með einhverjum hætti sætt ávirðingum í starfi. Þetta er að sjálfsögðu umtalsverð breyting til að tryggja réttarstöðu sem var ekki fyrir.

Í öðru lagi voru lagðar til breytingar á ákvæði greinarinnar um hverjir skuli teljast embættismenn og þar með komið til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar og verkalýðshreyfingarinnar og m.a. hætt við að svipta fjölmennar stéttir bæði samningsrétti og verkfallsrétti sem hefði verið brot á samningum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar sem Ísland er aðili að.

Í þriðja lagi má minnast á að gerð hefur verið sú breyting að tryggja frekar rétt starfsmanns en gert var ráð fyrir í upphaflegum texta í þeim tilvikum að viðkomandi væri vikið frá starfi um stundarsakir að starfsmanninum var þó tryggður sá réttur að hann ætti heimtingu á opinberri rannsókn á því hvernig á því stæði en sá réttur var honum ekki tryggður í frv. eins og frá því var gengið upphaflega.

Í fjórða lagi hefur verið gerð veruleg breyting varðandi stöðu starfsmanna Alþingis en breytingin snýr að stöðu Alþingis og stofnana þess innan ríkisvaldsins og er þar enn ein breytingin sem gerð var á frv. frá upphaflegri gerð þess í réttlætisátt.

Loks má nefna ákvæði um biðlaunarétt þar sem lagt var til að tímalengd varðandi rétt til biðlauna yrði óbreytt frá gildandi lögum hjá starfsmönnum sem skipaðir hafa verið eða ráðnir í starf hjá ríkinu fyrir gildistöku laganna en það stóð til að brjóta réttindi á þessum starfsmönnum eins og frv. var í upphaflegri gerð þess. Strax við 2. umr. voru gerðar 19 efnisbreytingar á frv. og sumar þeirra verulegar og stórfelldar til að ganga til móts við þá gagnrýni sem fram hafði komið strax við 1. umr. á Alþingi frá stjórnarandstöðunni.

Eftir 2. umr. voru gerðar enn frekari breytingar á frv. þannig að segja má að að lokinni þeirri breytingu standi varla steinn yfir steini af frv. eins og það var í upphaflegri gerð.

Í fyrsta lagi má þar benda á að sú breyting er gerð á frv. frá upphaflegri gerð þess að starfsmaður fái rétt til að segja upp starfi sínu ef hann sættir sig ekki við breytingu á viðbótarlaunakjörum og tryggt er að hann hafi nokkuð svigrúm til þessa og haldi jafnframt óbreyttum launakjörum á uppsagnartímanum ef breytingin er honum ekki í hag. Þennan rétt átti ekki að tryggja starfsmanninum samkvæmt upphaflegu frv. ríkisstjórnarinnar en hefur verið tryggður með þessari breytingu.

Í öðru lagi var gerð sú mikilvæga breyting við 22. gr., sem lýst var áðan, þar sem breytt er verulega frá því sem áður var ákveðið m.a. vegna þess að fylgifrv. þessa frv., bandormurinn margumtalaði, verður ekki afgreiddur á þinginu.

[12:45]

Í þriðja lagi má benda á að nú er búið að tryggja með breytingu að embættismaður verði ekki látinn víkja úr embætti fyrir fullt og allt jafnvel þótt eðlilegt hefði verið að víkja honum úr embætti um stundarsakir ef síðar kemur í ljós að ávirðingar þær sem honum hafa verið gefnar að sök reynast ekki vera fyrir hendi. En eins og frv. var úr garði gert þá gerði ríkisstjórnin ráð fyrir því að hægt væri að víkja embættismanni varanlega úr starfi þó að í ljós kæmi að ávirðingar sem á hann væru bornar ættu ekki við rök að styðjast. Þessi breyting er umtalsverð réttindabót fyrir opinbera starfsmenn því það nær auðvitað ekki nokkurri átt að hægt sé að víkja mönnum fyrirvaralaust úr starfi og til frambúðar fyrir ávirðingar sem í ljós kemur að eiga ekki stoð í rökum.

Í fjórða lagi er það viðamikil breyting að gert er ráð fyrir að embættismaður, sem nýtur biðlauna, haldi ekki bara föstum launum fyrir dagvinnu á biðlaunatímanum heldur einnig öðrum launakjörum er embættinu hafa fylgt. Þannig var þetta og er í gildandi reglum. Gert var ráð fyrir að skerða starfskjör embættismannsins á biðlaunatímanum í hinu upphaflega frv. en nú hefur það verið tekið til baka.

Þá má einnig nefna 10. breytingartillöguna af þeim 15 sem nú eru lagðar fram af hálfu meiri hluta efh.- og viðskn. Þar hafði verið gert ráð fyrir því að hægt væri að tilkynna starfsmanni framlengingu á uppsagnarfresti við lok framlengingartímans. Með öðrum orðum að ef uppsögn starfsmanns væri framlengd eða öllu heldur að starf hans væri framlengt þrátt fyrir uppsögn starfsmannsins, þ.e. starfsmaður vill víkja úr starfi og segir upp með lögmætum fyrirvara og yfirboðari hans tekur þá ákvörðun að framlengja starfsemi hans, þá var eins og frv. var í upphaflegri gerð gert ráð fyrir því að það þyrfti ekki að tilkynna starfsmanninum um framlengingu á uppsagnarfrestinum fyrr en í lok uppsagnarfrestsins. Nú er búið að afnema þetta ákvæði og auka réttindi starfsmannsins hvað þessu viðvíkur.

Þá kom einnig fram ábending frá lögmönnum um að með því að gera ráð fyrir að opinberir embættismenn, sem njóta ekki verkfalls- og samningsréttar, mættu ekki einu sinni stuðla að verkfallsaðgerðum væri þeim bannað að tala um ekki bara eigin vinnustöðvun, sem er ólögleg, heldur almennt um verkfallsaðgerðir í þjóðfélaginu en það væri brot á stjórnarskrá lýðveldisins. Á það álit hefur meiri hluti efh.- og viðskn. til allrar hamingju fallist og tekið ákvörðun um að leggja til að þessu ákvæði verði breytt þannig að það sé ljóst að eins og frv. lítur nú út, að gerðum þeim breytingum sem meiri hlutinn leggur til, verði ekki með sama hætti eins og hingað til hægt að segja hvað þetta atriði varðar að þarna sé um brot á stjórnarskrá lýðveldisins Íslands að ræða sem á að tryggja borgurum landsins almennt málfrelsi. En það var það sem hæstv. ríkisstjórn lagði upp með að slíkt brot yrði samþykkt í þessum lögum og málfrelsið tekið af stórum atvinnustéttum Íslendinga.

Þá má einnig benda á að afnumið hefur verið umdeilt ákvæði í 47. gr. sem gerði ráð fyrir að með lögum væri ákveðið að fólk sem stæði utan stéttarfélaga ætti í öllum tilvikum að njóta sama réttar og sömu launa og sömu kjara og stéttarfélög semja um fyrir meðlimi sína, m.a. fyrir tilstilli félagsgjalda og annarra þeirra gjalda sem lögð eru á félagsmenn stéttarfélaga til að standa undir kjarasamningagerð. Þetta umdeilda ákvæði hefur verið fellt út úr frv. þannig að það má segja að í þeim fjölmörgu breytingum, 19 breytingum við 2. umr. og 15 breytingum, sem lagðar eru til við 3. umr., sé búið að taka nánast hverja einustu grein frv. og gerbreyta henni. Frv. er nú ekki nema svipur hjá sjón frá því sem það var í upphaflegri gerð.

Þess vegna mætti spyrja, virðulegi forseti: Hvers vegna er þá ekki stjórnarandstaðan ekki tilbúin til að ljá fylgi sitt við frv. eins og það er nú eftir þær miklu breytingar sem ríkisstjórnarmeirihlutinn hefur séð sig knúinn til að leggja til að gerðar verði á frv.? Ástæðan er tvíþætt. Í fyrsta lagi eru þrátt fyrir þessar breytingar enn inni í frv. efnisatriði sem orka mjög tvímælis og ganga gegn sjónarmiðum stéttarfélaga og ganga gegn almennum mannréttindasjónarmiðum, jafnvel sjónarmiðum eins og þau eru fest í íslenskri löggjöf. Í því sambandi vil ég nefna nokkur atriði þessu til staðfestingar.

Í fyrsta lagi eru ósamrýmanleg ákvæði í frv. um uppsagnarferli hjá opinberum starfsmönnum. Þar er gert ráð fyrir því annars vegar að forstöðumaður stofnunar hafi almennt opna heimild til að segja starfsmanni upp án þess að starfsmaðurinn geti skotið máli sínu til æðri yfirmanns og án þess að nokkur áminning eða viðvörun hafi farið á undan áður en starfsmanninum var sagt upp. Með öðrum orðum, annars vegar er inni í frv. opinn uppsagnarréttur þar sem hinn opinberi starfsmaður nýtur engrar sérstakrar verndar og hins vegar er í frv. líka ákvæði um öðruvísi uppsagnarferli, þ.e. uppsagnarferli þar sem gert er ráð fyrir því að til áminningar hafi þurft að koma sem ekki hafi verið virt áður en starfsmanninum sé sagt upp. Það er umhugsunarefni að starfsmaður, sem gerist brotlegur í starfi, sætir ámæli í starfi, hefur samkvæmt frv. eins og það nú lítur út meiri réttarvernd en starfsmaðurinn sem hefur ekkert til saka unnið. Ef víkja á starfsmanni úr starfi fyrir þær sakir að hann hafi brotið af sér í starfinu eða teljist ekki geta af öðrum ástæðum sinnt starfi sínu eða gert sig sekan um ámælisvert framferði er ekki hægt að segja starfsmanninum upp nema hann hafi fyrst verið áminntur og síðan komið í ljós að hann hafi ekki sinnt áminningunni. Ef hins vegar er um að ræða starfsmann sem ekkert hefur af sér gert, engum ávirðingum sætt og ekkert af sér brotið en stendur vel í starfi sínu að öllu leyti nýtur hann engrar slíkrar réttarverndar því það er hægt að segja honum upp án nokkurs fyrirvara og án nokkurrar skýringar. Segja má að frv. sé þannig úr garði gert að starfsmaðurinn sem ekki stendur sig í starfi hefur meiri réttarvernd samkvæmt frv. en starfsmaðurinn sem sinnir starfi sínu vel og skynsamlega. Það sér hver og einn í hendi sér að ekki er eðlilegt að lagasetning sé með þessum hætti.

Í öðru lagi eru þau ákvæði í 34. gr. um biðlaunaréttinn sem við nánari skýringar hjá fjmrn. kemur í ljós að verið er að breyta mjög frá þeirri reglu sem þó var látin í veðri vaka í upphafi. Í fyrsta lagi er í 1. mgr. 34. gr. gert ráð fyrir að starfsmaður missi biðlaunarétt sé honum boðið starf sem sé sambærilegt við það starf sem hann áður hafði verið í. Ég spurði sérstaklega um það í efh.- og viðskn. hvað átt væri við með orðinu ,,sambærilegur``. Þar kom það m.a. fram að það er að áliti fjmrn. sambærilegt starf ef grunnskólakennari í ríkisskóla missir starf sitt en fær boð um starf í einkaskóla á móti. Það telur fjmrn. vera sambærilegt starf þó að réttarverndin og tryggingarnar, m.a. lífeyrissjóðsaðild og fleira, sé með allt öðrum hætti hjá þeim kennurum sem starfa í einkaskólum en hinum sem starfa í grunnskólum, t.d. á vegum ríkisins. Það er því gjörsamlega á huldu hvað átt er við þegar á að fara að túlka hvað séu sambærileg störf og hvað ekki. En það er annað í 2. mgr. 34. gr. sem er mun alvarlegra. Það er að gert er ráð fyrir því að biðlaunaréttur ríkisstarfsmanns skerðist ef hann tekur við einhverju öðru starfi á almennum markaði, gjörsamlega án tillits til þess hvort það starf er sambærilegt við það starf sem hann hafði áður eða ekki.

Höfundar frv. sögðu okkur frá því í efh.- og viðskn. að þeim hefði verið falið það af hæstv. ríkisstjórn að ganga þannig frá lögunum að tryggt yrði í fyrsta lagi að embættismaður, eða starfsmaður ríkisins öllu heldur, sem væri t.d. starfsmaður í grunnskóla, sem flyttist síðar yfir til sveitarfélaga, fengi ekki biðlaun sem ríkisstarfsmaður jafnhliða og hann fengi laun greidd í sama starfi af hinum nýja launagreiðanda, sveitarfélaginu. Þetta voru önnur skilaboðin frá ríkisstjórninni hæstv. um hvað ætti að gera. Hin skilaboðin sem lögð voru fyrir höfunda frv. frá ríkisstjórninni voru þau að það ætti að koma í veg fyrir að starfsmaður í opinberu starfi sem síðar félli í hönd hlutafélags, t.d. vegna einkavæðingar, gæti haldið biðlaunum sínum frá ríkinu á sama tíma eins og hann héldi áfram sama starfi en hjá öðrum vinnuveitanda og þægi þar laun líka. Þetta voru skilaboðin frá ríkisstjórninni. Segja má að hægt sé að halda því fram með nokkrum rétti að þarna sé um réttlætismál að ræða, þ.e. að maður eða kona haldi ekki biðlaunum á sama tíma eins og viðkomandi þiggur sömu laun fyrir sama starf en hjá öðrum vinnuveitanda annaðhvort sveitarfélagi eða ríkisfyrirtæki sem gert hafi verið að hlutafélagi en haldi áfram í starfsemi.

Það sem höfundar frv. gerðu hins vegar var að ganga miklu lengra en hæstv. ríkisstjórn lagði til þannig að það skiptir engu máli ef starfsmaður hjá ríkinu missir starf sitt og á þá biðlaunaréttindi samkvæmt túlkun fjmrn. við hvaða öðru starfi hann tekur, hvort það er eitthvað skylt því starfi sem hann hafði áður eða hvort það er starf í gjörólíkri starfsgrein þá á að draga þau laun sem hann fær í hinu nýja starfi frá biðlaunaréttinum sem hann hefur notið lögum og samningum samkvæmt. Auðvitað mun þetta hafa þau áhrif, virðulegi forseti, að þeir aðilar sem lenda í slíkri aðstöðu hafa raunar um tvennt að velja. Annaðhvort að leita sér að starfi í svokallaðri svartri atvinnustarfsemi þar sem fjmrn. fær ekki vitneskju um að viðkomandi þiggi laun frá öðrum launagreiðanda en ríkinu og þannig getur launtakinn haldið biðlaunarétti sínum í 6--12 mánuði. Þetta er annað valið sem starfsmaðurinn hefur ef hann vill halda biðlaununum sínum. Hitt valið er að sækjast ekki eftir starfi heldur vera starfslaus allan þann tíma sem biðlaunarétturinn varir. Þetta eru þau áhrif sem munu verða af þessu ákvæði, þ.e. það mun hvetja fólk til að sækjast eftir vinnu í svartri atvinnustarfsemi eða til þess að ganga án atvinnu.

[13:00]

Ég vil aðeins í því sambandi, sem ég hef rætt um, skoða hvað segir um þetta í álitsgerð lögfræðinga en þeir vitna m.a. til ummæla Ólafs heitins Jóhannessonar, fyrrv. forsrh. og prófessors, sem orðaði það svo í Stjórnarfarsrétti sínum að í 14. gr. laga, nr. 38/1954, þar sem fjallað er um biðlaun sé um að tefla, og nú tek ég beina tilvitnun upp úr riti Ólafs Jóhannessonar: ,,lögákveðnar bætur til starfsmanns sem sagt hefur verið upp starfi vegna þess að staða sú sem hann hafi gegnt er lögð niður.``

Með ívitnun í þennan merka fræðimann og um hvert álit hans er á biðlaunaréttinum, þ.e. að þetta séu lögákveðnar bætur er biðlaunarétturinn jafnframt orðinn tryggingaréttur sem er verið að svipta opinbera starfsmenn með ákvæðinu í 34. gr. og ákvæði til bráðabirgða með ákvæði þessu sem leggur grundvöllinn að opinberri málshöfðun allra þeirra sem lenda í þessum aðstæðum með tilvísun til ummæla hins virta lagaprófessors Ólafs Jóhannessonar um hvers eðlis þessi réttur sé. Þetta er annað atriði sem er enn í frv. sem gerir okkur stjórnarandstæðingum algjörlega ókleift að samþykkja það þrátt fyrir þær miklu breytingar sem náðst hafa fram á frv. í meðförum Alþingis.

Í þriðja lagi gengur frv. eins og það er úr garði gert á snið við stjórnsýslulög sem eiga að tryggja öllum borgurum á Íslandi ákveðin mannréttindi. Í því sambandi langar mig til að vitna í greinargerð Tryggva Gunnarssonar lögmanns sem lögð var fyrir hv. efh.- og viðskn. á einum af síðustu fundum nefndarinnar en þar segir eftir að lögmaðurinn hefur komist að þeirri niðurstöðu að vissulega geti Alþingi sett lög sem takmarka þau almennu mannréttindi, sem veitt eru í stjórnsýslulögum. Lögmaðurinn segir:

,,Þrátt fyrir þetta er rétt að vekja athygli á eftirfarandi ummælum úr greinargerð með frv. til stjórnsýslulaga:

,,Til þess að stuðla að því að ákvarðanir stjórnvalda séu réttar er oft reynt að haga uppbyggingu stjórnkerfisins með þeim hætti að hægt sé að fá stjórnvaldsákvarðanir endurskoðaðar hjá öðrum aðilum en stjórnvaldi því sem ákvörðunina tók. Eitt af úrræðunum er nefnt stjórnsýslukæra. Almennt hefur verið viðurkennt hér á Íslandi að sú óskráða réttarregla gildi að heimilt sé að kæra ákvörðun til æðra stjórnvalds sé æðra stjórnvald á annað borð til staðar. Þessi regla er ekki án undantekninga. Þar sem stjórnsýslukæra getur verið mjög áhrifaríkt úrræði til að auka réttaröryggi í stjórnsýslunni er lagt til að teknar verði í lög nokkrar meginreglur um meðferð kærumála.``

Ekki verður annað séð en að sú stefna frv. að fella niður rétt til málskots til æðra stjórnvalds sé í andstöðu við það viðhorf sem fram kemur í ofangreindri tilvitnun í greinargerð með stjórnsýslulögunum og telja verður hið almenna lögfræðilega viðhorf á þessu sviði einkum með tilliti til réttaröryggis borgaranna.``

Síðar segir lögmaðurinn í álitsgerð sinni, með leyfi forseta:

,,Það er hins vegar ljóst af framansögðu og að sú skipan mála að ætla mönnum ekki andmælarétt við svo viðamiklar ákvarðanir eins og stjórnsýsluákvarðanir um þeirra eigin störf og framtíð í starfi er undantekning frá þeirri meginreglu sem talin er gilda í íslenskum rétti.``

Með öðrum orðum er verið að setja með þessari löggjöf opinberum starfsmönnum miklu þrengri rétt til að nota sér ákvæði stjórnsýslulaganna sem eru mannréttindaákvæði en öðrum borgurum þessa lands. Þarna er um að ræða mikla mismunun eftir því einu hjá hvaða vinnuveitanda viðkomandi starfsmaður starfar. Þetta er eitt af þeim atriðum sem gerir okkur gjörsamlega ókleift að styðja frv. þrátt fyrir þær miklu breytingar sem okkur hefur tekist að ná fram á frv. í meðförum Alþingis.

Einnig má nefna fleiri atriði. t.d. þau sem koma fram í umsögn BHMR og skal ég nú telja upp 14 atriði því til viðbótar sem ég hef nefnt. Í fyrsta lagi er skylda til að auglýsa störf takmörkuð með frv. Í öðru lagi fá forstöðumenn óskilgreinda og ótakmarkaða heimild til að segja upp starfsfólki og fjmrh. fær nánast sjálfdæmi til að ákvarða efni ráðningarsamninga og getur þannig breytt ráðningarsamningum milli forstöðumanns og starfsmanns án vitundar og vilja hins síðarnefnda. Í þriðja lagi er ráðningarfesta og starfsöryggi sett í uppnám með heimildum til að segja upp starfsmönnum sem sýna ekki fullnægjandi árangur í starfi og getur þar forstöðumaður metið það einn og sjálfur án möguleika þolanda á málskoti hvort uppsögnin stafar af ávirðingum í starfi eða einhverra annarra atriða svo sem hagræðingar og fleira sem ekki þarf frekari skýringar við. Í fjórða lagi eru umsamin ráðningarkjör önnur en kjarasamningsbundin kjör tekin undan skilmálum ráðningarsamnings. Í fimmta lagi er málskotsréttur takmarkaður eins og ég sagði áðan. Í sjötta lagi eru fæðingar-, orlofs- og veikindaréttur starfsmanna í uppnámi. Í sjöunda lagi er gert að skyldu að leysa embættismenn frá störfum eftir veikindi sem er furðulegt ákvæði. Í áttunda lagi eins áður hefur verið rakið er biðlaunaréttur starfsmanna skertur. Í níunda lagi er margháttuðum úreltum skyldum starfsmanna ríkisins haldið til streitu eða auknar svo sem eins og krafan um að þeim sé skylt að vinna yfirvinnu ef eftir því er leitað. Í tíunda lagi er gengið á snið við samningsrétt stéttarfélaga. Í ellefta lagi er samnings- og verkfallsréttur stéttarfélaga takmarkaður þó dregið hafi mjög úr þeirri takmörkun frá upphaflegri gerð frv. Í tólfta lagi er tjáningarfrelsi embættismanna enn takmarkað þó svo að gengið hafi verið til móts við sjónarmið stjórnarandstöðunnar að verulegu leyti í því efni. Í þrettánda lagi er ákvæði gildandi laga um samráðsskyldu ríkisvaldsins við starfsmenn sína um breytingar eins og þær sem hér er um að ræða ekki fylgt. Í fjórtánda lagi er enn óséð hvert verður efni bandormsins svokallaða sem átti að fylgja frv. um réttindi og skyldur.

Virðulegi forseti. Einnig kemur fleira til sem gerir það að verkum að það er erfitt og ógerningur að samþykkja frv. þrátt fyrir þær miklu breytingar sem fengist hafa fram. Þar vil ég nefna ákvæði eins og að það eru óskýrar takmarkanir á rétti starfsmanns til að gegna öðru starfi samhliða starfi sínu. Eins og Lára V. Júlíusdóttir lögfræðingur bendir á í umsögn sinni virðist vera að t.d. starfsmaður í eldhúsi á Landspítala sem vinnur þar fimm daga vikunnar frá kl. 8--4 þurfi að fá sérstakt leyfi yfirboðara síns til að ræsta skrifstofur á kvöldin eða vinna fyrir einhvern vinnuveitanda um helgar og er furðulegt að slík skylda eða kvöð skuli lögð á starfsmenn ríkisins. Þá er reynslutíminn ekki skilgreindur og einnig gerum við athugasemdir við þá umtalsverðu heimild sem forstöðumenn stofnana hafa til að lengja uppsagnarfresti starfsmanna sinna. Þá vil ég að lokum einnig benda á að í frv. eins og frá því er gengið er a.m.k. álitamál hvort það sé verið að ganga á skjön við gildandi kjarasamninga og hvort afgreiðsla frv. geti e.t.v. leitt það af sér að félög opinberra starfsmanna og félagsmenn þeirra telji að samningar séu lausir. Það liggur fyrir að félög opinberra starfsmanna og raunar öll verkalýðshreyfingin í landinu telja að verði þessi skerðingar- og haftafrv. samþykkt muni verkalýðshreyfingin verða neydd til þess að gjörbreyta um stefnu við næstu kjarasamningagerð frá þeirri skynsamlegu stefnu sem fylgt hefur verið á umliðnum árum og hefur tryggt efnahagsjafnvægi og öryggi í efnahagsmálum Íslendinga á liðnum tæpum einum áratug. Ef það yrði niðurstaðan af þessum breytingum að það trúnaðarsamband, sem skapast hefur á milli atvinnurekenda launamanna og ríkisvaldsins, yrði rofið með þeim skelfilegu afleiðingum sem því fylgir tel ég að það væri viturlegra fyrir ríkisstjórnina að fara að ráðum stjórnarandstöðunnar og fresta lokaafgreiðslu frv. en reyna þess í stað að ná samkomulagi við starfsmenn sína um þessi efni eins og lög gera raunar ráð fyrir. Það eru því bæði efnisatriði í frv. sem eftir standa sem gera það að verkum að ekki er rétt að samþykkja það eins og frá því er gengið þrátt fyrir þær miklu breytingar sem stjórnarandstöðunni og verkalýðshreyfingunni hefur tekist að fá framgengt á frv. og svo hitt að með því að samþykkja lög af þessu tagi í andstöðu við verkalýðshreyfinguna og opinbera starfsmenn og starfsmenn einkaatvinnurekenda er verið að taka áhættu af því að allt logi í átökum innan fárra mánaða og að gjörbreyting verði á því umhverfi sem við Íslendingar höfum þekkt undanfarin átta ár sem hefur tryggt stöðugleika, kjarabætur og bjartari framtíðarhorfur. Ef slíkt yrði þá yrði mikið slys sem hefði gerst á hinum fögru vordögum á Alþingi Íslendinga og ég hvet hæstv. ríkisstjórn til að taka ekki þá áhættu.