Meðferð landbúnaðarráðuneytisins á malartökuleyfi Vatnsskarðs hf.

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 14:15:12 (6552)

1996-05-24 14:15:12# 120. lþ. 148.91 fundur 318#B meðferð landbúnaðarráðuneytisins á malartökuleyfi Vatnsskarðs hf.# (umræður utan dagskrár), SighB
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[14:15]

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Það er ekki aðeins að hér sé um óeðlileg afskipti hæstv. ráðherra að ræða af gjaldþrotaferli máls og aðildar landbrn. að því að taka verðmæti út úr þeirri meðferð heldur hefur landbrn. farið langt út fyrir valdsvið sitt. Í 9. gr. reglugerðar um Stjórnarráð Íslands er kveðið á um að landbrn. fari með mál er varðar þjóðjarðir. Meginheimild um þann ráðstöfunarrétt eru jarðalög, nr. 65/1976. Þau veita ráðherra hins vegar ekki annan ráðstöfunarrétt en þann sem varðar búsetu og nýtingu búsgæða á jörðinni. Landbrh. getur ekki farið með réttindi ríkisins hvað varðar námuréttindi og töku jarðefna samkvæmt reglugerð um Stjórnarráð Íslands en samkvæmt þeirri reglugerð fellur undir iðnrn. að fara með þau mál. Í námulögum, nr. 24/1973, er meira að segja kveðið á um að ríkið eigi rétt til þeirra jarðefna sem eru á landsvæðum sem hafa ekki einkarétt og iðnrh. skuli fara með ráðstöfun þeirra réttinda. Samkvæmt námulögum og reglugerð um Stjórnarráð Íslands á iðnrh. því að fara með þessi mál en ekki landbrh. Hæstv. landbrh. hefur brotið ákvæði reglugerðar um Stjórnarskrá Íslands og ákvæði námulaga með aðgerðum sínum í þessu máli. Ég bið hann lengstra orða um að hætta því, kynna sér lagaheimildir málsins og stuðla að því að réttir aðilar í stjórnkerfinu fari með þessi mál í framtíðinni.