Meðferð landbúnaðarráðuneytisins á malartökuleyfi Vatnsskarðs hf.

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 14:17:16 (6553)

1996-05-24 14:17:16# 120. lþ. 148.91 fundur 318#B meðferð landbúnaðarráðuneytisins á malartökuleyfi Vatnsskarðs hf.# (umræður utan dagskrár), KÁ
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[14:17]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hér er vægast sagt um sérkennilegt mál að ræða og ég þakka málshefjanda fyrir að taka þetta upp því það er einmitt eitt af hlutverkum Alþingis og okkar alþingismanna að hafa eftirlit með framkvæmdarvaldinu og fylgjast rækilega með því hvað þar er á ferð.

Þær upplýsingar sem hafa komið fram vekja mikla furðu þar sem sami aðilinn fær aftur og aftur rétt til þess að vinna ákveðið verk eða reka fyrirtæki á ákveðnum grunni þó að hann lendi hvað eftir annað í gjaldþroti. Hæstv. landbrh. sagði áðan að landbrn. hefði ekki haft upplýsingar þess efnis að það stefndi í gjaldþrot en þegar fortíð þessa aðila er skoðuð hlýtur ráðuneytið að hafa velt því fyrir sér hvort þarna væri staðið eðlilega að málum. Maður spyr sig að því hvernig stendur á því að svona lagað getur gerst og hvaða hagsmunir eru þarna að baki. Eru ákveðin tengsl á ferð eða hverjum er eiginlega verið að hlífa í málinu? Þetta er afar sérkennilegt og kemur raunar inn á þær reglur sem hafa gilt um fyrirtækjarekstur og það hvernig mönnum hefur verið heimilt og jafnan býsna auðvelt að skipta um kennitölu og halda rekstri áfram vegna þess að það er auðvitað alveg ljóst að það eru ýmsir sem bera skaða. Menn fá ekki greiddar þær kröfur og það sem þeir hafa lagt inn í fyrirtæki og fá ekki greidda þá þjónustu sem þeir hafa innt af hendi. Það kemur fram í fréttinni í Ríkisútvarpinu að ríkissjóður á tugmilljónakröfu í fyrirtækið. Mér finnst að við þurfum að fá nánari skýringu á þessu. Var um rekstur að ræða sem var svo mikilvægt að halda áfram eða hvað er þarna eiginlega á ferð? Ég tek undir það að þetta mál þarf að kanna miklu nánar.