Meðferð landbúnaðarráðuneytisins á malartökuleyfi Vatnsskarðs hf.

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 14:19:55 (6554)

1996-05-24 14:19:55# 120. lþ. 148.91 fundur 318#B meðferð landbúnaðarráðuneytisins á malartökuleyfi Vatnsskarðs hf.# (umræður utan dagskrár), GÁS
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[14:19]

Guðmundur Árni Stefánsson:

Virðulegi forseti. Það er augljóst að hér er á ferðinni mál sem hv. landbrn. hefur lítil tök á. Það er eitthvað mikið að. Ég skildi svör hæstv. ráðherra á þann veg að skilningur hans væri sá að hér væri ekki um umtalsverð verðmæti að ræða þar sem námuréttur væri annars vegar. Það er alger misskilningur. Hér er einmitt um umtalsverð réttindi að ræða. Það þekki ég býsna vel frá fyrri störfum mínum sem bæjarstjóri í Hafnarfirði en Hafnarfjarðarbær hefur einmitt og framselur leyfi til efnistöku á svipuðum slóðum og umrædd náma ríkisins er. En það er ekki aðalmálið.

Ég spyr að gefnu tilefni hvort landbrn. hafi með höndum veitingu námuréttinda víðs vegar um land allt. Í hversu mörgum tilfellum er það? Er verulega um háar fjárhæðir að ræða og hvernig er staðið yfirleitt að úthlutun þeirra og verðlagningu? Ég held að sú umræða sem hefur átt sér stað gefi fullt tilefni til þess að menn fái heildarmynd af þessari umsýslu og hið háa Alþingi fái um það nánari upplýsingar síðar meir hvernig heildarmyndin lítur út. Ég held reyndar það stóra mál sem hér er nefnt segi okkur það að eitthvað er mikið að enda kom fram í máli hæstv. ráðherra að framan af ræðu hans mátti skilja að allt væri hér með felldu en að lyktum ræðu hans fann hann greinilega fyrir því sjálfur að hér væru maðkar í mysu og hafði orð á því að hið háa ráðuneyti þyrfti að læra af reynslunni og bæta stjórnsýslu sína í þessum efnum. Ég held að fyllsta ástæða sé til þess að taka undir orð ráðherrans í þessum efnum.