Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 14:32:27 (6559)

1996-05-24 14:32:27# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[14:32]

Kristín Ástgeirsdóttir:

Hæstv. forseti. Hvar mundi hæstv. fjmrh. vera staddur?

(Forseti (StB): Forseti getur upplýst að fjmrh. er rétt ókominn í húsið og hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að sjá til þess að hann hraði för sinni sem mest má verða.)

Ég vona að það verði allt innan umferðarlaga samt sem áður. Ég vil ekki vera að hvetja til of hraðrar umferðar um götur borgarinnar.

Ég get svo sem byrjað þó að hæstv. fjmrh. sé ekki kominn. Mér finnst samt að það beri brýna nauðsyn til þess að hann hlýði á umræður og ekki síst það sem við stjórnarandstæðingar höfum fram að færa í málinu vegna þess að þetta mál ásamt frv. um stéttarfélög og vinnudeilur vekja upp mjög stórar og miklar spurningar um vinnubrögð. Eins og ég kom að í umræðunni um stéttarfélög og vinnudeilur vekur það óskaplega furðu mína hvernig á því stendur að hámenntaðir og margreyndir lögfræðingar og embættismenn leggja fram frv. eftir frv. sem þverbrjóta alþjóðasamninga og stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Hvernig stendur á því að við stjórnarandstæðingar skulum þurfa að standa í ræðustól klukkustund eftir klukkustund og hamra á því að þessi lagafrumvörp brjóta í bága við alþjóðasamninga áður en menn fara að hlusta? Að vísu má segja að þær breytingar, sem voru gerðar á frv. um stéttarfélög og vinnudeilur og þær breytingar sem við erum að ræða, sýni að sem betur fer hlusta menn og átta sig á því að það er um brot að ræða. En mér finnst alvarlegt, hæstv. forseti, að við skulum fá svona illa unnin frumvörp í hendur. Þetta er svo alvarlegt, þetta er svo furðulegt og ekki síst þegar maður veit til þess að það eru vel menntaðir og reyndir lögfræðingar sem koma að verki að þetta er alveg makalaust. Eru menn að reyna að teygja og toga lýðræðið og lögin til hins ýtrasta? Eru menn að reyna að sjá hve langt þeir komast eða hvað er eiginlega á ferð? Eða eru menn svona illa að sér að þeir átti sig ekki á því hvaða reglur gilda um vinnumarkaðinn, hvaða réttindi er búið að tryggja í lögum, alþjóðasamningum og sáttmálum um réttindi vinnandi fólks? Hvað er þarna á ferð?

Hæstv. fjmrh. er ekki mættur enn en ég vil fá að spyrja hann um þessi mál því að mér finnst þetta mjög alvarlegt. Mér finnst það raunar alveg fráleitt að við þingmenn skulum þurfa að standa endalaust í því að reyna að sjá til þess að stjórnarfrumvörp standist stjórnarskrá og alþjóðasamninga, að mál skuli koma með þeim hætti að það kosti margra daga umræður að fá menn til þess að átta sig á þessu. Í fúlustu alvöru, hæstv. forseti, held ég að höfundar þessa frv. hafi ekki áttað sig á því hversu illilega þetta frv. braut í bága við þessa alþjóðasamninga og sáttmála.

Ég skal viðurkenna að það var ekki fyrr en ég las í gegn umsögn BHM sem ég áttaði mig sjálf á þessu. Það var einfaldlega vegna þess að ég hafði mikið að gera við vinnu í öðrum málum og komst ekki í það að fara yfir umsagnir fyrr en rétt áður en málið kom til 2. umr. Það var greinilegt að aðrir höfðu svo sem ekki áttað sig nægilega vel á þessum þáttum þó að fulltrúar BHM hafi hamrað á þessu aftur og aftur vegna þess að það voru fyrst og fremst félagsmenn þeirra sem lentu í þessu. Það voru heilu félögin innan BHM sem átti að svipta samningsrétti og verkfallsrétti án þess að þeir hefðu haft orð um það að segja. Það var eins og menn hefðu ekki áttað sig á því að þetta stríðir alveg gersamlega gegn samþykktum Alþjóðavinnumálastofnunarinnar um það hvernig verja beri rétt stéttarfélaga og þetta stríðir algerlega gegn mannréttindasáttmála Evrópu, félagsmálasáttmála Evrópu og fleiri slíkum samþykktum og sáttmálum. Mér finnst þetta alveg makalaust og þetta vekur mér áhyggjur. Ég hef áhyggjur af þessu, ég verð að segja það. Við lentum reyndar í þessu í umfjölluninni um EES-samninginn. Þar komu spurningar auðvitað mjög mikið upp um það hvort sá samningur stæðist stjórnarskrána og um það voru miklar og fræðilegar deilur og lögfræðingar voru ekki sammála. Það var líka sérkennilegt að upplifa hvernig menn vildu ekki taka á því máli. Menn vildu ekki horfast í augu við það og í rauninni lít ég þannig á að það hafi aldrei fengist niðurstaða hvað varðar það mál.

Nú gengur hæstv. fjmrh. í salinn og þá kemst ég ekki hjá því að endurtaka aðeins það sem ég var að segja sem er í hnotskurn það, hæstv. fjmrh., að ég hef verið að lýsa áhyggjum mínum af því að frumvörp, sem koma frá ríkisstjórninni, þá er ég bæði að vísa til þessa frv. sem hér er til umræðu og frv. um stéttarfélög og vinnudeilur, skuli lögð þannig fram að þau brjóta augljóslega í bága við alþjóðasamninga. Ég lít þannig á að þær breytingar, sem hafa verið gerðar á 22. gr. þessa frv. stafi fyrst og fremst af því, nú hristir hæstv. fjmrh. höfuðið og fellur mér þá allur ketill í eld ef hæstv. fjmrh. er þar með að segja að það sé ekki af þeirri ástæðu sem ... (Gripið fram í.) Já, ég taldi að víst og leit þannig á að ástæðan fyrir því að menn eru að breyta 22. gr. þessa frv. sé sú að menn hafi áttað sig á því að það væri verið að svipta heilu stéttarfélögin samningsrétti og verkfallsrétti. (Fjmrh.: Alveg út í bláinn.) Alveg út í bláinn, segir hæstv. fjmrh. Þá er málið miklu alvarlegra en ég hafði áttað mig á. Þá þurfa að koma fram skýringar á því hvers vegna var verið að breyta þessari grein því að það er búið að gera þessa breytingu áður en málið var sent þremur ágætum lögmönnum sem fóru í gegnum þetta frv. Þeir skoðuðu því miður aldrei þennan þátt málsins sem ég tel það fullvíst að hafi brotið í bága við mannréttindasáttmála og samþykktir. Ég harma ef það hefur ekki verið ástæðan og hæstv. fjmrh. sé ekki enn þá kominn á það stig að viðurkenna að þarna hafi verið um augljós brot að ræða. Málið verður sífellt alvarlegra.

Hvað sem því líður blasir við okkur að frv. var svo illa unnið og þó að þess séu reyndar einstök dæmi að frumvörpum hafi verið breytt verulega milli 2. og 3. umr. er harla fátítt að gerðar séu svona miklar veigamiklar breytingar á jafnstóru frv. og þessu. Þetta sýnir bara og sannar fyrir mér hvað þetta var illa hugsað og illa unnið frv.

Þrátt fyrir allt sýnir þróunin okkur að umræðan og gagnrýnin hefur sitt að segja. Það rifjast upp fyrir mér að þegar fulltrúar opinberra starfsmanna komu á fund félmn. eitt kvöldið og voru orðnir harla leiðir á því að sífellt væri verið að kalla þá fyrir og þeir spurðu: Til hvers er verið að kalla okkur á kvöldfundi og halda okkur klukkustundum saman þegar ekkert er hlustað á það sem við höfum að segja og ekkert tekið tillit til þess sem við höfum að segja? En þróun þessa máls sýnir þó að það er aðeins hlustað og það er aðeins tekið tillit til þess sem menn segja í einstaka atriðum, aðallega ef menn átta sig á því að þetta stenst ekki. En þrátt fyrir það og ég ætla að koma að því síðar í ræðu minni er auðvitað harla mikið eftir í þessu máli þrátt fyrir þær breytingar sem búið er að gera.

Þetta frv. var sent þremur lögmönnum til umsagnar á milli 2. og 3. umr. og ég held að í rauninni hafi það verið mjög skynsamleg og góð ákvörðun vegna þess að frá þeim komu margvíslegar ábendingar sem staðfestu um sumt þá gagnrýni sem áður hafði fram komið en þeir bentu reyndar á eitt og annað sem okkur hafði yfirsést. Þetta mál allt saman vekur því upp þá spurningu sem hæstv. félmrh. kom reyndar inn á í einni af ræðum sínum um stéttarfélög og vinnudeilur hvort ekki væri nauðsynlegt að koma upp eins konar lagaráði, að Alþingi hefði aðgang að svokölluðu lagaráði, þ.e. að hægt sé að vísa frumvörpum til lögfræðilegrar skoðunar. Þótt allnokkuð sé um lögfræðinga á hinu háa Alþingi er líka mjög mikið vinnuálag hér. Frumvörp eru mjög misjafnlega vel unnin þegar þau koma hingað og þau eru líka mjög misjafnlega unnin í nefndum og stundum koma upp lögfræðileg álitamál sem væri mjög gott að geta vísað til lögfræðinga sem Alþingi væri væntanlega búið að velja og menn væru sæmilega sáttir við. Ég nefni þetta af því að mér finnst að þetta sé mál sem við þurfum verulega að skoða.

Hæstv. félmrh., Páll Pétursson, flutti tillögu um þetta meðan hann var þingmaður á síðasta kjörtímabili og ég held að við ættum í mikilli alvöru að skoða það hvort ekki væri nauðsyn á að koma upp slíku lagaráði þó að við eigum þann möguleika að vísa málum til lögmanna. Í dæmi eins og þessu var t.d. alls ekki um það að ræða að hægt væri að vísa málum til Lagastofnunar háskólans vegna þess að starfsmenn hennar eru einfaldlega aðilar að málinu. Þeir eru opinberir starfsmenn og þar af leiðandi var ekki hægt að vísa málinu til þeirra.

Ég ætla aðeins að koma inn á þær athugasemdir sem komu fram hjá þessum lögmönnum en þeir bentu á nokkur atriði og hefur reyndar verið tekið tillit til flestra þeirra í breytingartillögum meiri hlutans. Það var fyrst og fremst tvennt sem var verið að skoða eftir að búið var að breyta 22. gr. Það var spurningin um málskotsrétt opinberra starfsmanna og um það hvernig það samrýmdist öðrum lögum og réttarvenjum að taka af þeim réttinn til þess að skjóta máli sínu til yfirmanna eða æðri aðila og að einhverju leyti var brugðist við þessu. Lögmennirnir bentu á að þær reglur sem væri að finna í frv. kæmu ekki heim og saman við þær reglur sem kveðið er á um í stjórnsýslulögum.

[14:45]

Annað stórt atriði var það sem á rætur sínar að rekja til laga frá 1915 þar sem embættismönnum er bannað að hvetja til verkfalla eða taka þátt í verkföllum. Lögmennirnir voru beðnir að skoða sérstaklega hvort þarna væri um óeðlilega heftingu á tjáningarfrelsi að ræða og þeir leiddu rök að því að svo væri. Reyndar skildu þeir greinina á mismunandi vegu en meiri hlutinn hefur ákveðið að breyta greininni. Það var t.d. vakin upp sú spurning hvort það væri verið að takmarka það hvað prestar mættu segja úr ræðustóli þar sem þeir væru í hópi embættismanna. (Gripið fram í: Er þingmaðurinn ekki að því?) Nei, það voru lögmennirnir sem bentu á það að eins og greinin var orðuð gæti hún hugsanlega falið í sér takmörkun á því hvort prestar mættu t.d. ræða um stöðu kjaramála, verkföll eða annað slíkt í ræðustóli og hefði líklega ýmsum þótt það brjóta í bága við Ágsborgarjátninguna og kirkjuskipan Kristjáns III. að takmarka rétt presta til þess að leggja út af kenningunni hvernig sem þeir gerðu það.

Megingrein þessa frv. er auðvitað 22. gr. þar sem er skilgreint hverjir skuli vera embættismenn. Það verður að segjast eins og er, hæstv. forseti, að alger bylting hefur orðið á þessari grein. Hún hefur breyst frá því að vera mjög víðtæk yfir í það að vera orðin mjög þröng og enn þá eftir sú spurning: Eru einhver rök fyrir því að skipta opinberum starfsmönnum upp í embættismenn og aðra starfsmenn? En hvað um það, þá eru þarna samt sem áður spurningar um ákveðna hópa og það eru ekki síst prestarnir sem þar eiga í hlut. Málum þeirra er vísað til umfjöllunar þeirra sjálfra og menn skoði hvað á að gera með þá en í rauninni er ég sammála því að það að hafa prestana þarna inni í upptalningunni er auðvitað brot á þeirri reglu sem gengið er út frá sem er sú samkvæmt skilgreiningu alþjóðasáttmála að þessir embættismenn, sem má takmarka samningsrétt og verkfallsrétt hjá, eru fyrst og fremst æðstu stjórnendur ríkisfyrirtækja og ríkisstofnana og þeir sem sinna öryggisgæslu. Það er skilgreiningin.

Ég ætla ekki að fara að rekja þá sögu sem ég kom inn á í 2. umr. um það hvernig prestar eru komnir í þá stöðu sem þeir eru komnir í. Raunar báðu þeir sjálfir um að komast undir Kjaradóm sem síðan varð kjaranefnd vegna þess hvað þeir voru í sérstakri stöðu sem félagar í BHM og þeir komust að raun um að þeir gátu ekki nýtt sér verkfallsréttinn. Það kom ekki heim og saman við störf þeirra. Í rauninni má einfaldlega leysa málið með því að um presta gildi sérlög og þeir séu áfram undir kjaranefnd. Hægt er að kveða á um það í sérlögum og blanda þeim ekki inn í þetta mál allt saman, sérstaklega þegar þeir þeir benda á það sjálfir að sú regla sem þar er gengið út frá, bæði um fimm ára ráðningu og í rauninni um það að vera ríkisstarfsmaður, kemur ekki heim og saman við þann grundvöll sem þeir starfa eftir sem er Ágsborgarjátningin og kirkjuskipan Kristjáns III eins og ég nefndi áðan. Þetta er allt mjög gamalt og rótgróið og byggir á ákveðnum guðfræðikenningum. Þeir eru í ákveðinni deilu við ríkisvaldið um eignir kirkjunnar og stöðu kirkjunnar og allt það og það á kannski margt eftir að gerast í framtíðinni hvað það varðar. Hugsanlega verður kirkjan skilin frá ríkinu með tíð og tíma eins og menn hafa verið að þróa sig í átt til, t.d. í Svíþjóð. Þetta er afar vandmeðfarið vegna þess að kirkjan lagði inn eignir sínar árið 1907, gerði samning við ríkið um að prestar fengju laun sem fara um ríkissjóð eins og þeir segja, sem koma ekki úr ríkissjóði heldur fara um ríkissjóð, af því að þeir líta svo á að þeir eigi inneign í ríkissjóði. Ég held að langeinfaldast væri að afgreiða málið með þessum hætti að það gildi einfaldlega sérlög um presta.

Annar hópur sem mikið var til umræðu við 2. umr. voru háskólaprófessorarnir. Það virtist vera sem þeim væri upp á líf og dauða að komast í hóp embættismanna og framtíð háskólans byggðist algerlega á því að þeir væru í þessum hópi en meiri hlutinn hefur ákveðið að vísa því máli til framtíðarinnar. Þeir eru ekki taldir hér með enda væri auðvitað afar sérkennilegt ef prófessorar í Háskóla Íslands teldust til embættismanna en ekki prófessorar við Kennaraháskólann eða Háskólann á Akureyri. Það verður að vera einhver heil brú í lögunum. Kvenkennarar við Háskóla Íslands vöktu m.a. athygli á því hvaða áhrif það kynni að hafa ef prófessorarnir yrðu gerðir að embættismönnum með fimm ára ráðningu og annað slíkt, það mundi rjúfa framgangskerfi háskólans og hafa þar veruleg áhrif á stöðu kvenna innan skólans. En þessu máli er einfaldlega vísað til háskólans til frekari skoðunar.

Ég get ekki stillt mig um að nefna það, hæstv. forseti, og sýnir dæmi um vinnubrögðin og fljótaskriftina á þessu öllu saman að þegar breytingartillögurnar voru kynntar í efh.- og viðskn. var þessi upptalning á því hverjir skyldu teljast embættismenn og síðan var ákvæði um það til bráðabirgða um að það skyldi auglýsa öll þessi embætti. Þegar menn fóru að skoða hvað átti að auglýsa kom í ljós að þar var talinn upp umboðsmaður Alþingis, sendiherrar og sendifulltrúar, biskup Íslands og vígslubiskupar og hefði líklega mörgum brugðið við ef sú regla hefði gengið í gildi að það ætti að auglýsa öll þessi embætti því að umboðsmaður Alþingis er kjörinn á Alþingi og biskup Íslands er valinn af prestum landsins og vígslubiskuparnir valdir sérstaklega. Sem betur fer áttuðu menn sig á því að þarna var um fljótaskrift að ræða og hroðvirkni sem hefur lýst sér í öllum þessum vinnubrögðum. Ég sé í þeim breytingartillögum, sem nú liggja fyrir, að þessi grein um auglýsingarnar hefur einfaldlega verið tekin út og þar af leiðandi gildir 7. gr. laganna um auglýsingar á embættum.

Ég ætla sérstaklega að nefna það líka að 47. gr. þar sem kveðið var á um réttindi þeirra sem kjósa að standa utan stéttarfélaga hefur verið breytt enda var henni mótmælt mjög harðlega. Í rauninni var þar um furðulegt mál að ræða þó að vísað væri til laganna um kjarasamninga opinberra starfsmanna og sú skýring gefin að þau mundu duga þá var samt sem áður ákveðið að taka þetta út enda hefði greinin gert málið allt miklu miklu flóknara.

Hæstv. forseti. Ég lagði fram tvær breytingartillögur við frv. sem mér hefur algerlega láðst að mæla fyrir þó ég hafi flutt nokkrar ræður um málið. Ég ætla að gera það núna því að þær koma til atkvæða við 3. umr.

Nú er það svo að ég er afar ósátt við málið og ekki síst vinnubrögðin og það hvernig að þessu hefur verið staðið. Ég hefði óskað þess að opinberum starfsmönnum hefði gefist kostur á að semja um þessi mál og að frv. hefði verið samið í samráði við þá. Ég ætla ekki að endurtaka allt það sem ég sagði í 2. umr. um starfsmannastefnu ríkisstjórnarinnar eða þá nútímalegu stjórnunarhætti sem þeir þykjast vera að koma á með þessu. Ég rökstuddi mjög rækilega í máli mínu að ég tel það meira í ætt við forneskju og afstöðu þeirra sem valdið hafa en hægt sé að kenna að nokkru leyti við nýja stjórnunarhætti. En ég ákvað að leggja fram tvær breytingartillögur við frv. fyrst og fremst til þess að undirstrika tvö mjög mikilvæg atriði. Það er annars vegar það sem lýtur að fæðingarorlofi. Ég hefði að sjálfsögðu getað tekið veikindaréttinn líka en fæðingarorlofið finnst mér svo mikilvægur réttur og snertir hagsmuni kvenna sérstaklega. Ég vildi vekja sérstaka athygli á því að í stað þess að skilja lagagreinar, sérstaklega 12. gr., eftir svona opna eins og gert er hefði verið nær að festa í lögum þau réttindi sem nú eru til staðar og opna frekar á að auka réttindin en að gera það sem er verið að boða og við vitum að þessi hæstv. ríkisstjórn hugsar sér, þ.e. að jafna réttinn niður á við, að draga úr þeim réttindum sem konur hafa nú. Það er alveg ljóst að m.a. fulltrúar opinberra starfsmanna hafa séð drög að frv. sem við á hinu háa Alþingi höfum ekki séð sem fela það í sér að það verður dregið úr réttindum kvenna. Menn eru mjög jákvæðir og opnir fyrir því að auka rétt feðra en það skal verða á kostnað mæðranna þegar við stöndum frammi fyrir því að fæðingarorlof hér á landi er mun styttra en tíðkast t.d. annars staðar á Norðurlöndum. Þess vegna vildi ég leggja fram þessa tillögu um fæðingarorlofið sem kveður á um það að tryggja í lögum þann rétt sem nú er í gildi alveg eins og gert er í almannatryggingalögunum varðandi aðra starfsmenn á almennum vinnumarkaði. Mér fannst því rétt að vekja sérstaklega athygli á þessu og við þurfum svo sannarlega að halda vöku okkar hvað varðar þetta atriði á næsta ári þegar og ef farið verður að draga fram lögin um fæðingarorlof.

Ég legg einnig til að inn í frv. komi ný grein sem komi á undan 49. gr. frv. Þessi grein mín fjallar um atvinnulýðræði, um það að komið verði upp starfsmannaráði við allar ríkisstofnanir, fulltrúar valdir af starfsmönnum eða það fari fram almenn kosning eða stærstu deildir viðkomandi stofnunar velji fimm manna starfsmannaráð. Það má hugsa sér að það yrði stærra en hlutverk þessa starfsmannaráðs yrði að fylgjast með rekstri stofnunar, meta gæði þjónustu og miðla þekkingu og reynslu innan hennar, standa fyrir innra mati á störfum, fylgjast með starfsmannamálum og standa vörð um rétt starfsmanna, stuðla að símenntun starfsmanna og vinna að auknu jafnrétti, samráði um ákvarðanir er varða stofnunina og lýðræði innan hennar.

Þetta legg ég fram, hæstv. forseti, fyrst og fremst til þess að koma því á framfæri hvað er hinn nýi stjórnunarstíll, í hverju hann felst samkvæmt þeim hagfræðikenningum sem ég hef kynnt mér. Hann felst einmitt í þessu, samráði, samábyrgð, að fólk geti fylgst með stöðunni í fyrirtæki sínu eða stofnun sinni og menn hafi rétt og tækifæri til þess að hafa áhrif og að standa vörð um hagsmuni starfsmanna. Það er hinn nýi stjórnunarstíll. En hvaðan hæstv. fjmrh. hefur sína gamaldags stjórnunarstefnu sem felst fyrst og fremst í því að yfirmenn stofnana skuli deila og drottna hef ég ekki fengið svar við enn þá. Það er langt í frá.

[15:00]

Hæstv. forseti. Það er alveg ljóst að umræðu um þetta frv. mun ljúka í dag. Um það hefur verið samið og það er líka alveg ljóst að meiri hlutinn á Alþingi ætlar sér að samþykkja þetta frv. hugsanlega með þessum fjölda breytinga sem hafa verið gerðar á því. Reyndar eru flestar til bóta, ég skal viðurkenna það. (Gripið fram í: Ekki allar.) Nei, ekki allar. Eftir sem áður stendur hugmyndafræðin, hugmyndafræði þessa frv. sem felst í því sem ég var að lýsa, yfirmenn og ráðherrar skulu deila og drottna. Þeir geti leyft sér að færa menn til í starfi, breyta starfssviði. Þeir eiga að ákveða aukaþóknanir í launum o.s.frv. Þetta er að mínum dómi ekki góð starfsmannastefna og ekki góðir stjórnunarhættir í opinberum stofnunum.

Bandalag háskólamanna afhenti okkur á nefndarfundi líklega fyrir tveimur dögum eða svo athugasemdir í mörgum liðum um þetta frv. sem sýnir að enn telja ríkisstarfsmenn að frv. sé meingallað. Hv. þm. Einar Oddur Kristjánsson, sem var talsmaður meiri hlutans í umræðunni í dag... (EOK: Og er.) Og er. Eftir stendur að þessi vinnubrögð boða illt, það er svo rangt að ganga svona fram, að traðka á starfsmönnum og troða upp á fólk lögum og reglum án þess að menn fái að semja um það eins og var gert 1986 þegar menn settu lögin um kjarasamninga opinberra starfsmanna. Þá var reynt að semja, það var samið. En þau vinnubrögð að troða upp á stéttarfélögin og vinnumarkaðinn þessum lögum í óþökk allra stéttarfélaga í landinu eru svo óskynsamleg. Hv. þm. hefur reynslu af því að semja á vinnumarkaði og ef ég man rétt var hann einn af höfundum þjóðarsáttarinnar þó reyndar megi kannski ýmislegt gagnrýna í henni og við skulum spyrja að leikslokum hverjir græddu á henni og hverjir ekki. Samt sem áður hljótum við öll að viðurkenna það að hún hafði gífurleg áhrif í þá átt að koma á stöðugleika. Af þessu hefur hv. þm. reynslu, að komast að samkomulagi, koma saman og það ríki sátt um það sem verið er að gera. Þess vegna skil ég ekki að þessi reyndi vinnumarkaðsmaður skuli vera kominn í það hlutverk að mæla fyrir þessum ósköpum og vera talsmaður þess að troða yfir á vinnumarkaðinn, yfir á opinbera starfsmenn, lögum sem þeir eru ósáttir við. Við vitum að þetta mun væntanlega valda kærum og deilum í haust.

Nú skal ég ekki alveg fullyrða hvað verður um kærurnar eftir að búið er að gera þessa breytingu á 22. gr. Eins og ég hef margkomið að var hún að mínum dómi langsamlega alvarlegasta greinin hvað það varðaði hvort hún stæðist alþjóðasáttmála. Það er búið að gera mjög miklar breytingar á henni og ég hygg að hún standist eins og hún er núna. En það kunna að vera önnur atriði í frv. sem stéttarfélög opinberra starfsmanna telja að standist ekki.

Hæstv. forseti. Þegar dregnar eru saman niðurstöður úr þessu öllu saman finnst mér þar vera nokkur atriði sem meginmáli skipta. Það eru í fyrsta lagi vinnubrögðin, þau vinnubrögð ráðuneytisins og ráðuneytanna að leggja fram svona meingölluð frumvörp, illa unnin frumvörp. Það er svo augljóst að þau standast ekki mannréttindasáttmála og þau lögvernduðu réttindi sem stéttarfélögin í landinu búa við. Og ég lýsi furðu minni á því ef hæstv. fjmrh. er ekki búinn að átta sig á þessu enn og ef hann er að skjóta sér á bak við það að breytingarnar á 22. gr. hafi verið af einhverjum öðrum orsökum. Reyndar komu upp ýmis vandkvæði svo sem með háskólann og aðra hópa. En meginatriðið var það að 22. gr. hefði aldrei staðist fyrir dómstólum. Það er sem sagt í fyrsta lagi samning frv. og innihald þess og í öðru lagi vinnubrögðin gagnvart samtökum opinberra starfsmanna sem eru auðvitað algerlega óásættanleg og óskynsamleg. Þetta er svo óskynsamlegt vegna framtíðarinnar.

Síðan er verið að svipta opinbera starfsmenn réttindum, ekki síst þá sem verða ráðnir í framtíðinni. Þar komum við auðvitað að biðlaununum, æviráðningunni og ýmsu því sem hefur verið margnefnt hér. Loks er það hugmyndafræðin sem skín út úr þessu frv., hugmyndafræði valdsins, hugmyndafræði þeirra sem vilja stjórna, hugmyndafræði þeirra sem skilja ekki að góður vinnuandi byggist einmitt á samráði og virðingu fyrir því fólki sem vinnur í stofnunum, að fólk geti haft áhrif á sitt starfsumhverfi og þann starfsanda sem þar ríkir.

Vil ég þá rétt undir lok máls míns rifja það upp hve aðgerðir margra ríkisstjórna hafa haft alvarleg áhrif á vinnuanda í ríkisstofnunum og þá ekki síst í skólakerfinu, t.d. þegar ríkisvaldið hefur tekið þá ákvörðun að vaða yfir starfsmenn sína, svipta þá umsömdum launahækkunum með bráðabirgðalögum og öðrum slíkum aðgerðum. Þetta eru allt saman aðgerðir sem hafa gífurleg áhrif á vinnuanda. Og af því að ég horfi svo stíft á fulltrúa Sjálfstfl. og talsmenn þessa máls langar mig að rifja það upp sem kom fram hjá skólameisturum fyrir u.þ.b. tveimur árum eða svo þegar þeir komu á fund menntmrh. og sögðu: Það er allt þróunarstarf stopp í framhaldsskólunum. Það gerðist einfaldlega eftir þessar aðgerðir þáv. ríkisstjórnar gegn opinberum starfsmönnum, fyrst og fremst gegn félögum í BHMR, að fólk sagði: Ég kem ekki nálægt þessu meir. Hvað er ég að leggja á mig einhverja aukna vinnu og eitthvert þróunarstarf þegar það er traðkað á mér og mínum rétti endalaust? Og það er ekki síst þetta sem skiptir óskaplega miklu máli ef menn ætla að ná þeim markmiðum sem voru upphaflega sett í þessu frv. að ríkið yrði samkeppnishæft um starfsfólk, að ríkið yrði góður vinnuveitandi. Hvernig á fólk að trúa því að ríkið sé góður vinnuveitandi þegar komið er fram með þessum hætti? Og þegar þau lög sem verið er að boða, þær breytingar sem verið er að gera, byggjast allar á valdboði og einhverri geðþóttastjórnun. Þetta kann ekki góðri lukku að stýra. Það er nú einu sinni svo að meiri hlutinn hlýtur að ráða, en ég ítreka það að við kvennalistakonur erum mjög ósáttar við allt þetta mál.

Ég lofa að halda ekki fleiri ræður um þetta mál, en ég vil skora á meiri hlutann á hinu háa Alþingi og hæstv. fjmrh. að sjá að sér, draga málið til baka, leita eftir samráði og samningum við opinbera starfsmenn og móta raunverulega nýjan stjórnunarstíl sem mun skila okkar áfram til öflugrar þjónustu ríkisins á þeim sviðum sem ríkið á að sinna þannig að ríkisvaldið fái góða starfsmenn en hreki þá ekki frá sér með offorsi og yfirgangi eins og því miður hefur verið allt of algengt hingað til.