Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 15:11:18 (6560)

1996-05-24 15:11:18# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. meiri hluta EOK (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[15:11]

Frsm. meiri hluta efh.- og viðskn. (Einar Oddur Kristjánsson) (andsvar):

Herra forseti. Nú hef ég hlustað á ræðu hv. þm. í nokkuð langan tíma. (Gripið fram í.) Mér þótti það meira en nógu langt. Ég tók það fram í upphafi að efh.- og viðskn. hefði að beiðni minni hlutans beðið þrjá virta lögmenn um að gefa álit sitt á þessum lögum. Spurningarnar sem voru lagðar fyrir lögmennina voru samdar af minni hluta efh.- og viðskn.

Hér eru svörin. Það þarf bara að lesa þetta. Hér er Andri Árnason, hér er Tryggvi Gunnarsson og hér er Lára V. Júlíusdóttir. Í öllum þessum svörum kemur mjög skýrt fram að þetta frv. brýtur ekki á nokkurn hátt neina alþjóðasáttmála sem Ísland hefur gert, hvorki við Evrópu né Alþjóðavinnumálastofnunina. Það kemur mjög skýrt fram hérna. Þrátt fyrir þetta, þrátt fyrir að allir geti lesið sér til um þetta kemur hv. þm. og fjasar hér um það tímunum saman að það hljóti bara að vera eitthvert ruglað fólk sem skilur ekki að það er verið að brjóta alla mögulega alþjóðasáttmála. Tímunum saman er þetta endurtekið æ ofan í æ í þessum ræðustól þótt vitnisburðurinn liggi hér fyrir. Ég veit ekki hvaða nauður rekur svo vænan þingmann sem hv. þm. er til þess að gera þetta. En það er einhver nauður, eitthvað er það sem rekur fólk til að fullyrða hluti sem það ætti að vita að eru rangir. (SvG: Hvað ertu að segja?) (Gripið fram í: Þetta er rétt.) Ég get ekki krafið fólk um að lesa þetta, en lögmennirnir lásu sjálfir upp úr þessum plöggum fyrir nefndina þannig að þetta liggur alveg ljóst fyrir. Þarna stendur það í þessum þremur lögfræðiálitum sem voru sérstaklega pöntuð af stjórnarandstöðunni, sumar spurningarnar meira að segja samdar af hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni.