Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 17:19:42 (6570)

1996-05-24 17:19:42# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, SvG (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[17:19]

Svavar Gestsson (andsvar):

Herra forseti. Það er alveg rétt hjá hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni að sagan er gerð af fjöldanum. Verðmætin skapast af hinum vinnandi fjölda en t.d. ekki af fjármagninu. Fjármagnið hefur aldrei gert neitt gagn án þess að það komi til vinna og hugsun mannsins.

Það er líka rétt hjá hv. þm. að í þessu samhengi kemur það fyrir, a.m.k. fyrir mig, að ég reyni að taka starf mitt alvarlega. Þegar ég tala hér, reyni ég að tala af einlægni um hluti eins og þá sem ég var að ræða um áðan, t.d. um stöðu Alþingis. Mér finnst vont þegar ég sé að Alþingi er misboðið.

Mér finnst líka leiðinlegt þegar fórnir þúsundanna eru kannski gerðar að engu vegna fljótfærni og þrjósku að óþörfu eins og þau frv. sem verið er að þræla í gegnum þingið. Þó að það sé rétt að fjöldinn skapi söguna og meiri hlutinn á Alþingi ráði úrslitum hér mundi hitt geta breytt öllu á þessari stundu ef einhver, þó það væri ekki nema einn, þyrði að ganga fram fyrir skjöldu. Í því lá styrkur hv. þm. meðan hann hafði forustu fyrir Vinnuveitendasambandinu og ég vona að sá neisti sé enn þá til í honum.