Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 18:28:56 (6581)

1996-05-24 18:28:56# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, ÖJ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[18:28]

Ögmundur Jónasson (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var stórfengleg yfirlýsing sem kom frá hæstv. fjmrh. um að ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hafi kappkostað sérstaklega að verja þá sem standa höllum fæti í þjóðfélaginu. Hvað með aðgangseyri að heilsugæslustöðvum? Er það til að verja þá sem standa verst að vígi? Hvað með lækkun barnabóta? Er það til að verja þá sem standa verst að vígi? Hæstv. fjmrh. segir að 500 millj. kr. hafi verið settar í þann málflokk. Bara í einum fjálögum, árið 1991, var hálfur milljarður tekinn af barnafólki, bara í einum fjárlögum. Svo var meira tekið árið þar á eftir. Er það til að verja þá sem standa verst að vígi þegar lyfjakostnaðurinn er aukinn á einstaklinga? Er það til að verja þá sem standa verst að vígi þegar skólagjöld eru sett á? Hvers konar tal er þetta eiginlega? Heldur hæstv. fjmrh. að þó menn komi upp með sléttan og felldan málflutning og brosi framan í þjóðina og hneigi sig að fólk trúi þessu? Halda menn að fólk finni þetta ekki í vösum sínum eða í pyngjunni, hjá þeim hagfræðingi sem er kannski auðskiljanlegastur, eigin pyngju, hvað það er sem hæstv. ríkisstjórn Davíðs Oddssonar hefur gert launafólki í landinu á liðnum árum í ýmsum málaflokkum undir verkstjórn hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar?