Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 18:37:50 (6585)

1996-05-24 18:37:50# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, KÁ (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[18:37]

Kristín Ástgeirsdóttir (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég segi nú bara æ, æ, æ. Hæstv. fjmrh. er náttúrlega að fitja upp á þvílíkum umræðuefnum að við gætum verið hér til miðnættis ef hann ætlar að halda svona áfram. Það er nýbúið að sýna fram á í skýrslu hver launamunur er milli kynjanna hér á landi. Hann er verulegur og hann er meiri en gerist á Norðurlöndum. Meðallaun kvenna hér á landi miðað við laun karla er miklu lægri en í Bandaríkjunum. Taki menn allt spektrúmið kemur kannski annað út. Það er ekki sama hvað verið er að skoða.

Varðandi 22. gr. og prestana sérstaklega rakti ég í einhverri ræðu það mál allt saman. Ég þekki þetta nokkuð vel og skil vel þá sérstöðu sem prestar hafa. En spurningin er hvort þeir eigi endilega að teljast til embættismanna. Það er hægt að kveða á um það í lögum að prestar heyri undir kjaranefnd þó að þeir séu ekki taldir upp í þessum lögum vegna þessa ákveðna prinsips. Og hvað um aðra? Í rauninni kemur ekki heim og saman við þá reglu sem sett er í alþjóðlegum sáttmálum að fara að tína upp hópa héðan og þaðan sem vilja komast í þennan embættismannahóp af því að þeir halda að það muni verða til þess að hækka laun þeirra.

En við skulum láta hér staðar numið, hæstv. forseti. Ég efast ekki um að það á eftir að taka þessi lög upp aftur og aftur vegna þess að um þau er ekki sátt. Og á þau mun reyna í næstu kjarasamningum, ég efast ekki um það.