Réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins

Föstudaginn 24. maí 1996, kl. 18:39:58 (6586)

1996-05-24 18:39:58# 120. lþ. 148.1 fundur 372. mál: #A réttindi og skyldur starfsmanna ríkisins# (heildarlög) frv. 70/1996, Frsm. minni hluta SJS (andsvar)
[prenta uppsett í dálka] 148. fundur

[18:39]

Frsm. minni hluta efh.- og viðskn. (Steingrímur J. Sigfússon) (andsvar):

Herra forseti. Ég leyfi mér fyrst að vekja athygli á því að þrátt fyrir ítrekaðar beiðnir hafa hvorki hæstv. forsrh., hæstv. utanrrh. né hæstv. dóms- og kirkjumrh. látið svo lítið að koma til umræðunnar.

Í öðru lagi verð ég að segja það að málsvörn hæstv. fjmrh. er náttúrlega aumkvunarverð. Það er ekki hægt að hafa um það önnur orð. Þegar hæstv. fjmrh. var að fara yfir þær breytingar sem orðið hafa á málinu var hann að reyna að telja það því til tekna að frá upphaflegum drögum, sem verkalýðshreyfingin fékk til að taka afstöðu til, hefði málið tekið breytingum þar til það var lagt fram. Síðan hefði því verið gjörbreytt við 2. umr. og nú stæði enn til að gjörbreyta því við 3. umr. Þetta allt taldi hæstv. fjmrh. sér til tekna ef ég gat rétt heyrt og mæli heldur með málinu. Þetta segir auðvitað sína sögu um þá hrákasmíð sem lagt var upp með.

Í öðru lagi segir hann um 22. gr. frv. að hana hafi átt að rétta af og bjarga henni í löglegt horf með bandorminum. Hvers konar málflutningur er það? Það er verið að segja að greinin eins og hún var lögð fram stenst ekki, en svo átti að bjarga þessu með bandorminum eins og með prestana. Það á að bjarga þeim með bandorminum í haust. Og þá svara ég auðvitað í leiðinni hv. þm. Einari Oddi Kristjánssyni varðandi þessa lagaþrætu um 22. gr. Það liggur algerlega fyrir að greinin eins og hún er í frv. stenst ekki, það er borðleggjandi. Og það sem hv. þm. hefur ekki áttað sig á og ekki hæstv. fjmrh. heldur er að lögfræðiálitin ganga út frá breytingartillögunum. Þau meta málið út frá breytingunum sem vissulega rétta málið talsvert af. En um leið segja þau: Frv. í sinni upprunalegu mynd stenst ekki. Og alveg eins er þetta með prestana. Það er kostulegur málflutningur að segja við okkur: Það er verið að lögfesta ástand sem gengur ekki upp, en það á að bjarga því í haust með nýjum lögum. Það er það sem er verið að segja.

Hvers konar metnaður er þetta við lagasetningu hér á Alþingi? Öll þessi mál áttu þá að bíða. Þetta er á engan hátt boðlegt, herra forseti, að ganga svona frá málum.