Réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 13:49:55 (6595)

1996-05-28 13:49:55# 120. lþ. 149.2 fundur 427. mál: #A réttarstaða fólks við gildistöku EES-samningsins# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., ÁRJ
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[13:49]

Ásta R. Jóhannesdóttir:

Herra forseti. Hér er hreyft nokkuð stóru máli sem eru réttindi á Norðurlöndum og réttindi vegna EES-samningsins og tel ég fulla ástæðu til þess að farið verði nánar ofan í þau mál. Eins og kom fram hjá málshefjanda hefur víða verið pottur brotinn varðandi réttindi og það að menn fái þau réttindi sem þeir ættu að eiga samkvæmt EES-samningnum og víða virðist réttur vera skertur miðað við Norðurlandasamninginn. Ég ætla ekki að fara nánar út í það en langar að benda á eitt varðandi EES-samninginn sem ég tel fulla ástæðu til þess að verði skoðað og það eru réttindi annars staðar í Evrópu. Áður en EES-samningurinn gekk í gildi áttu Íslendingar, sem þurftu á læknisþjónustu að halda í Evrópu, rétt á því að fá læknisþjónustuna endurgreidda þegar þeir komu til Íslands aftur ef þeir lentu inni á sjúkrahúsi.

Eftir að EES-samningurinn tók gildi er það svo að ef maður slasast í EES-landi fer það eftir því hvort maður fer inn á ríkisspítala eða einkaspítala hvort viðkomandi land borgar kostnaðinn. Ef maður er svo óheppinn að maður er fluttur á einkaspítala í EES-landi stendur maður uppi með allan kostnaðinn sjálfur nema maður sé með sérstaka tryggingu. Aftur á móti ef maður lendir í öðru landi en EES-landi getur maður fengið reikninginn borgaðan hér heima. Ýmis svona ósamræmi eru í tryggingakerfi okkar í dag sem ég tel fulla ástæðu til þess að verði skoðuð því að við áttum að fá betri réttarstöðu með þessum evrópska samningi en víða virðist hann vera þeim mun lakari.