Meðferð brunasjúklinga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 13:57:21 (6599)

1996-05-28 13:57:21# 120. lþ. 149.3 fundur 521. mál: #A meðferð brunasjúklinga# fsp. (til munnl.) frá heilbrrh., Fyrirspyrjandi ÁRJ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[13:57]

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir):

Herra forseti. Ég mæli fyrir 521. máli sem er fyrirspurn til hæstv. heilbrrh. á þskj. 965 um meðferð brunasjúklinga á Landspítalanum. Þannig er komið fyrir aðstöðu til lækninga brunasjúklinga að eina sérhæfða deildin á landinu til að annast brunasjúklinga, lýtalækningadeildin á Landspítalanum, hefur verið lokuð í lengri og skemmri tíma undanfarin fimm ár og nú hefur hún verið lokuð samfellt í næstum eitt ár. Þótt deildin sé lokuð hefur hún haft örfá legurými til ráðstöfunar á öðrum deildum. Þar er í dag við algerlega óviðunandi aðstæður einungis sinnt sjúklingum með brunasár, legusár eða húðkrabbamein.

Rafn Ragnarsson yfirlæknir leitaði til heilbr.- og trn. vegna vanda deildarinnar og segir í bréfi til nefndarinnar:

,,Lítið má út af bera svo ekki hljótist af sýkingarslys.`` Síðan segir hann: ,,Óhætt er að fullyrða að brunasjúklingar fái í dag ekki viðunandi meðferð. Sérhæft starfsfólk er nánast allt horfið til annarra starfa sem er sérstaklega bagalegt því árangur meðferðar er mjög háður færni og þekkingu starfsfólks.``

Sýkingarvarnanefnd Landspítalans tekur í sama streng og lýsir yfir verulegum áhyggjum af áhrifum sparnaðaraðgerða á sýkingarvarnir og spítalasýkingar í bréfi til forstjóra Ríkisspítala þann 1. mars sl. Þar segir m.a. um aðstöðu sem brunasjúklingum er boðið upp á, með leyfi forseta:

,,Böðun sjúklinga fer fram við ófullnægjandi aðstæður og einangrun sýktra sjúklinga er ófullnægjandi.`` Síðan er sagt í þessu sama bréfi að aðstæður á deildinni séu óviðunandi og brýnt sé að þær verði bættar.

Það er nöturleg staðreynd að brunasjúklingar á Landspítalanum árið 1996 skuli deila baðaðstöðu með sjúklingum sem er grunað að séu með salmonellasýkingu. Þetta er aðalbrunalækningadeildin á Íslandi, landi þar sem stórt álver er rekið sem verið er að stækka um helming og þar er ávallt hætta á brunsaslysum, á Íslandi sem er eldfjallaland með hættuleg hverasvæði sem stefnir að því að fjölga ferðamönnum mjög næstu ár. Við erum ekki meö viðunandi aðstöðu til þess að bregðast við slysum sem geta orðið á þeim svæðum. Ég leyfi mér að spyrja hvort við getum látið þetta viðgangast öllu lengur. Landspítalinn treystir sér ekki lengur til þess að taka við sjúklingi með alvarlegan bruna og þess vegna hefur yfirlæknirinn útbúið neyðaráætlun til að koma slíkum sjúklingum á sem skjótastan og öruggastan hátt til meðferðar erlendis þar sem ekki er hægt að sinna þeim hérlendis við núverandi aðstæður. Það má geta þess að kostnaður við að bæta aðstöðuna vegna brunalækninga á Landspítalanum er áætlaður um 14 millj. kr. en getur farið upp í 25 millj. ef á að koma þokkalegri aðstöðu á í lýtalækningadeildinni. En verði sjúklingur sendur til útlanda til meðferðar er kostnaður hins opinbera vegna hans ekki undir 20 millj., hvað þá ef þeir eru fleiri en einn. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðherra hvort uppi séu áform um að bæta aðstöðu fyrir brunasjúklinga á Landspítalanum.