Efnistaka úr Seyðishólum

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:34:07 (6613)

1996-05-28 14:34:07# 120. lþ. 149.5 fundur 509. mál: #A efnistaka úr Seyðishólum# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:34]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Aðeins örfá orð. Að sjálfsögðu, eins og fram kom í lokaorðum hv. fyrirspyrjanda, mun ég reyna að gæta þess að skoðuð verði ítarlega þau sjónarmið sem fram kunna að koma hjá málsaðilum ef málið verður kært sem svo sem ýmsar fréttir benda til að geti orðið og þá fær það eðlilega og efnislega umfjöllun. Ég get fullvissað hv. fyrirspyrjanda um það, enda eru miklir hagsmunir hjá þessum sumarbústaðaeigendum eins og fram kom hjá hv. 4. þm. Austurl. einnig. Hann undirstrikaði það rækilega og ekki geri ég lítið úr því. Hagsmunirnir eru einnig hjá þeim þó hitt séu líka hagsmunir að nýta þessar námur eða þessa auðlind ef það er að öðru leyti talið ásættanlegt.

Um það ætla ég ekki að hafa frekari orð en vil aðeins að lokum minna á það að ég hef áður lýst því úr þessum ræðustóli að á þessu sumri verður hafist handa við endurskoðun á lögum um náttúruvernd, þ.e. efnisatriði þeirra laga. Ég á von á því að það sé töluvert mikil vinna og taki nokkurn tíma. En það er tímabært að hefja það verkefni og þá eru efnistökumálin vissulega eitt af því sem þá þarf að taka fyrir og fjalla um eins og hv. 4. þm. Austurl. minnti á.