Losun koltvísýrings

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:46:32 (6617)

1996-05-28 14:46:32# 120. lþ. 149.6 fundur 512. mál: #A losun koltvísýrings# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., Fyrirspyrjandi HG
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:46]

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Virðulegur forseti. Það væri óskandi að það gengi eftir sem hæstv. ráðherra lét liggja að síðast í sínu svari, að það tækist að tryggja að ekki verði um meiri losun að ræða árið 2000 en var árið 1990. Það kom hins vegar ekki fram með neinum skýrum hætti hvernig ríkisstjórnin og hæstv. ráðherra hygðust ná þessum markmiðum og hvað það kostar í fjárframlögum, m.a. til þeirra mótaðgerða sem látið er að liggja að gripið verði til. Mér sýnist ekki seinna vænna en að það komi nokkuð skýrt fram hvaða fjármunir verða til reiðu, m.a. í sambandi við uppgræðsluaðgerðir sem boðaðar eru sem einn þátturinn og ekki minnsti þátturinn til mótvægis til þess að draga úr þessari losun. Ég tók ekki eftir að hæstv. ráðherra gerði ráð fyrir öðrum stóriðjuframkvæmdum en þeirri stækkun í Straumsvík sem nú var ákveðin, nú var lögfest, og þá aðeins 60 þúsund tonn en ekki heimildinni sem nær í raun upp í 100 þúsund tonna viðbót eða tvöföldun. Hvað þá að gert væri ráð fyrir nýrri álbræðslu á Grundartanga í þessu sambandi, en umhvrn. segir í erindi í janúar sl. til undirstofnunar sinnar, Skipulags ríkisins, að aukning á útblæstri koldíoxíðs frá álverum sé ekki í andstöðu við rammasamning Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar. Ég bið hæstv. ráðherra að rökstyðja þetta. Hvernig í ósköpunum má það vera að umhvrn. sjálft grípur inn í mat á umhverfisáhrifum framkvæmdar sem þessarar með svo ákveðnum hætti? Og Skipulag ríkisins leggur niður skottið og segir að í ljósi þessa verði ekki frekar um málið fjallað. Og hvað um önnur stóriðjuáform? Hér liggur þó fyrir, eins og kom fram í tölum hæstv. ráðherra, hætta á verulegri aukningu gróðurhúsalofttegunda án þess að til enn frekari aukningar stóriðju komi. Hér horfir sannarlega afskaplega dapurlega og mér sýnist að það sé nokkuð langt í land með að ósk hæstv. ráðherra, hin fróma ósk í orði, verði í reynd á borði árið 2000.