Losun koltvísýrings

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:49:14 (6618)

1996-05-28 14:49:14# 120. lþ. 149.6 fundur 512. mál: #A losun koltvísýrings# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:49]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Auðvitað er það rétt sem fram kemur hjá hv. fyrirspyrjanda að þetta kunna að vera frómar óskir. Ég vil þó minna á að það hafa ekki verið teknar ákvarðanir um aðrar stóriðjuframkvæmdir sem líklegt er að komi til framkvæmda fyrir árið 2000. Og við það miðaðist fyrirspurnin án þess að ég vilji á nokkurn hátt snúa út úr henni.

Vissulega er það líka rétt að viðbótarstóriðjuframkvæmdir koma til með að auka losun á þessum lofttegundum. Þá þarf að bregðast við eða ná samkomulagi og samningum við aðra aðila. Eins og ég reyndar minnti á er samningur þessi ekki bindandi fyrir einstök ríki eða aðildarríki og það er unnið að útfærslu á þessum samningi af okkar hálfu. Við erum með embættismenn í þeirri vinnu og það hafa verið haldnir fundir þar að undanförnu nokkuð títt til þess að fjalla um þau mál.

Ég minni líka á að við erum auðvitað að því leytinu til verr sett en sum nágrannaríki okkar sem geta brugðist við með því að nýta í auknum mæli endurnýjanlegar orkulindir sem við höfum þegar nýtt meira en flestar aðrar þjóðir og þess vegna er okkur í raun mikilvægt að ná samningum og samkomulagi við aðra aðila svo sem gert er ráð fyrir.

Grundartangaverksmiðjumálið er til umfjöllunar í umhvrn. einmitt þessa dagana og þess vegna ekki auðvelt fyrir mig að fara ítarlega yfir það mál á þessu stigi í sölum Alþingis á meðan það er þar til sérstaks úrskurðar. Það sama má kannski segja um aðra fyrirspurn sem borin var fram á undan um algerlega óskylt mál. Að lokum, hæstv. forseti, er nefnd að störfum af hálfu ríkisstjórnarinnar sem mun fjalla ítarlega um þessi mál. Hún hefur nú þegar farið yfir ýmsa þætti og í tillögum sem hún er nú að vinna að er gert ráð fyrir því að það verði um það bil 110 þús. tonnum minna útstreymi koltvíoxíðs en ella hefði orðið, fyrir utan hugmyndir um frekari uppgræðslu. En slíkar hugmyndir, eins og hv. fyrirspyrjandi benti á, kosta fjármuni. Ég hef þegar rætt það við fjárlagagerð fyrir næsta og næstu ár að leggja áherslu á að þar þurfum við að stefna að átaki. Ég ætla ekki á þessu stigi að gefa mér neitt um það hvað út úr því kann að koma, en undirstrika þann vilja og þann ásetning minn. Og af hálfu Landgræðslunnar er nú unnið að nýrri landgræðsluáætlun sem lögð verður fyrir Alþingi, vonandi áður en langt um líður. Á þessu stigi er ekki hægt að gefa hv. þingheimi ítarlegri upplýsingar um kostnaðartölur hvað þetta varðar.