Skipulag miðhálendis Íslands

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 14:55:12 (6621)

1996-05-28 14:55:12# 120. lþ. 149.7 fundur 532. mál: #A skipulag miðhálendis Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[14:55]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Hv. fyrirspyrjandi hefur beint til mín fyrirspurn í þremur liðum sem hann hefur gert grein fyrir. Með lögum nr. 73/1993, með breytingu á skipulagslögum nr. 19/1964, var ráðherra veitt heimild til þess að ákveða að samvinnunefnd yrði skipuð til að gera tillögur að skipulagi á miðhálendi Íslands. Samkvæmt lögunum markast svæðið í aðalatriðum af línu sem dregin verður milli heimalands og afréttar. Í lögunum er að finna fyrirmæli um að héraðsnefndir þær sem hlut eiga að máli skipi hver um sig einn fulltrúa í nefndina en ráðherra einn fulltrúa sem jafnframt skal vera formaður. Um málsmeðferð tillögu og skipulags miðhálendisins fer síðan samkvæmt 16. gr. skipulagslaga nr. 19/1964, þar sem fjallað er um samvinnunefndir, um svæðisskipulag og málsmeðferð á þeirra vegum.

Að öðru leyti skal fresta frekari afgreiðslu tillögunnar uns ný skipulags- og byggingarlög hafa verið verið samþykkt á Alþingi.

Í stuttu máli segir þetta að samvinnunefnd um svæðaskipulag um miðhálendið skuli skila tillögum ásamt rökstuddri greinargerð til meðferðar skipulagsstjórnar og fallist skipulagsstjórn á skipulagstillöguna skuli senda hana til umsagnar þeirra sveitarfélaga sem hún tekur til og að gengið skuli frá málum þannig að ráðherra geti staðfest svæðaskipulagið sem þó er ekki gert ráð fyrir að verði staðfest fyrr en að samþykktum nýjum byggingar- og skipulagslögum frá Alþingi. Frv. til skipulags- og byggingarlaga hefur verið til meðferðar á Alþingi síðustu mánuðina en allt útlit er nú fyrir að það muni ekki ná fram að ganga á þessu þingi en verði svo mun það lagt fram strax næsta haust á nýjan leik og vonandi vinnst þá tími til þess að afgreiða það mál.

Í framhaldi af áðurnefndu lagaákvæði sem öðlaðist gildi 1993 var óskað eftir tilnefningu frá þeim 12 héraðsnefndum sem eiga land að miðhálendinu og þær beðnar að tilnefna einn aðalfulltrúa og einn varafulltrúa í svæðisnefndina. Jafnframt var Snæbjörn Jónasson, fyrrv. vegamálastjóri, skipaður formaður samvinnunefndarinnar.

Sem svar við 2. lið fyrirspurnarinnar má segja að eins og fram kemur í lögunum nr. 73/1993, um breytingu á skipulagslögum nr. 19/1964, skulu héraðsnefndir þær sem hlut eiga að máli skipa hver um sig einn fulltrúa í nefndina og ráðherra einn sem skal vera formaður. Það er því ljóst að ekki eiga aðrir aðild að nefndinni lögum samkvæmt en þau sveitarfélög sem mynda þær héraðsnefndir sem eiga land að miðhálendinu eins og það er skilgreint í lögunum, en um er að ræða 12 héraðsnefndir.

Sjálfsagt má deila um það hvort eðlilegt sé að aðeins sum byggðarlög landsins eigi aðild að skipulagi miðhálendisins. Lögin eru hins vegar skýr og eftir því verður umhvrh. að fara, hvaða skoðanir svo sem hann kann að hafa á málinu. Mér er ókunnugt um að gerð hafi verið tillaga til breytinga á þessu fyrirkomulagi og bendi ég á að í 26. gr. frv. til skipulags- og byggingarlaga, eins og ég nefndi hér á undan, er gert ráð fyrir því að héraðsnefndir þær sem hlut eiga að máli skipi hver um sig einn fulltrúa í samstarfsnefnd en ráðherra skipi einn í nefndina þannig að gert er ráð fyrir óbreyttu fyrirkomulagi í frv. eins og er í bráðabirgðaákvæðinu sem nú er unnið samkvæmt.

Ég minni einnig á að þau sveitarfélög sem hér eiga hlut að máli og eru um það bil 40 fara með stjórnsýslu á miðhálendinu eins og hún lýtur að sveitarfélögunum og þar með skipulagsmál svæðisins.

Í 3. tölul. spyr fyrirspyrjandi hvort ráðherra muni beita sér fyrir breytingu á bráðabirgðaákvæðinu en ég tel að á þessu stigi málsins sé óraunhæft að breyta því fyrirkomulagi sem nú er við lýði einfaldlega vegna þess að verkið er það langt komið, en gert er ráð fyrir að svæðisnefndin skili tillögum á næsta ári. Hafa verður í huga að umhvrh. staðfestir svæðaskipulag miðhálendisins og verði það gert með auglýsingu í Stjórnartíðindum þegar þar að kemur. Áður verður auglýst tillaga í samræmi við skipulagslög með tilteknum fresti og geta allir aðilar komið sínum athugasemdum á framfæri við þá meðferð málsins auk þess sem bíða á eftir afgreiðslu nýrra skipulags- og byggingarlaga eins og áður segir og Alþingi gæti þá tekið aðra afstöðu til málsins en nú liggur fyrir.

Í tilefni þessarar spurningar má enn fremur velta því fyrir sér hvort æskilegt væri að öll sveitarfélög landsins kæmu að svæðisskipulagi almennt og skal í því tilviki bent á að sveitarfélögin á Vestfjörðum skipuleggja ein útivistarsvæði þar, m.a. á vinsælum ferðamannastöðum eins og Hornströndum og sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu skipuleggja þau útivistarsvæði sem þar eru þó nýtt af fjölmörgum aðilum og ekki síður fjölsótt en miðhálendið. Ég er þeirrar skoðunar að menn eigi að binda sig við sveitarfélögin með hliðsjón af stjórnsýslu á hlutaðeigandi svæðum eins og gildandi lög gera ráð fyrir, en vil þó að lokum segja að ég tel eðlilegt að nefndin leiti samráðs við og upplýsinga hjá hinum ýmsu aðilum sem hlut geta átt að máli þessu eða það getur varðað og ég veit reyndar að það hefur nefndin gert í störfum sínum til þessa. Hún hefur leitað til fjölmargra annarra aðila en bara þeirra sem sæti eiga í nefndinni.