Skipulag miðhálendis Íslands

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:05:06 (6624)

1996-05-28 15:05:06# 120. lþ. 149.7 fundur 532. mál: #A skipulag miðhálendis Íslands# fsp. (til munnl.) frá umhvrh., umhvrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:05]

Umhverfisráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Út af fyrir sig þakka ég fyrir þær ábendingar sem hafa komið fram í máli hv. þingmanna sem hér hafa tekið til máls, fyrirspyrjanda og hv. 4. þm. Austurl. Það er rétt sem kom fram í máli hv. þm. að það var áður lagt fram frv. um annars konar málsmeðferð en Alþingi eða meiri hluti þess hafnaði því að það mál færi fram með þeim hætti sem lagt var upp. Út af fyrir sig held ég að það sé til lítils að taka málið upp í óbreyttum búningi hvað það varðar og því hafi verið brugðið á það ráð að gera það með þeim hætti sem nú er unnið samkvæmt bráðabirgðaákvæði í skipulagslögum og þarf ekki að rekja frekar en gert hefur verið í þessari umræðu.

Ég sé að hv. þm. Hjörleifur Guttormsson hristir höfuðið. Kannski kom málið aldrei til afgreiðslu í þinginu. Ég man þetta ekki lengur sjálfur. En líklega hefur málið ekki komið til endanlegrar formlegrar afgreiðslu nema það sé kölluð afgreiðsla að láta mál liggja en a.m.k. var ljóst að ekki var sátt um málið.

Nóg um það mál. Ég get út af fyrir sig tekið undir það með hv. fyrirspyrjanda að velta vöngum yfir því hvað setningin ,,að eiga hlut að máli`` þýði. Menn hafa reyndar áður velt því fyrir sér og kannski ekki alltaf verið alveg ljóst hvað það þýðir. En hér hefur skilgreiningin verið sett fram að það séu þessar héraðsnefndir sem eiga land að miðhálendinu. Unnið hefur verið samkvæmt því það lengi að ég held að það mundi flækja og tefja málsmeðferð mjög að brjóta það upp eins og hv. fyrirspyrjandi spurði þó um í 3. tölul. fyrirspurnar sinnar. Ég hef þegar svarað en vil fullvissa hv. fyrirspyrjanda um það og hef reyndar nú þegar á fundum með nefndinni og í viðræðum mínum við formann nefndarinnar ætlast til þess að hann leitaði eftir sjónarmiðum og hlýddi á sjónarmið fleiri aðila en bara þeirra sem aðild eiga formlega og beint að nefndinni lögum samkvæmt og reyndar gæta þess að um málið og um tillögu þá sem nefndin leggur fram náist sem allra best sátt.