Forsendur vistvænna landbúnaðarafurða

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:19:22 (6629)

1996-05-28 15:19:22# 120. lþ. 149.8 fundur 525. mál: #A forsendur vistvænna landbúnaðarafurða# fsp. (til munnl.) frá landbrh., landbrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:19]

Landbúnaðarráðherra (Guðmundur Bjarnason):

Hæstv. forseti. Fyrst út af fyrirspurn hv. 5. þm. Suðurl. um úthlutun úr sjóði sem á að styðja við vistræna og lífræna framleiðslu. Ég hef því miður ekki fyrir framan mig neinar upplýsingar um það til þess að geta svarað hv. þm. um það ítarlega sem væri þó full ástæða til að gera og hægt að gera síðar eða við annað tækifæri. Sá sjóður hefur verið nýttur til að reyna að markaðssetja þá áherslu sem við leggjum á að við séum með holla vöru og framleidda við þau bestu skilyrði sem um getur. Við höfum land og landgæði til þess að framleiða í það minnsta á mörgum stöðum landbúnaðarafurðir, þ.e. frá grasbítum, sem eru ekki á ofbeittu landi, en auðvitað á þetta við fleiri afurðir, eins og ég tók fram í svari mínu áðan, við fleiri landbúnaðarafurðir en af grasbítum.

Varðandi lífrænu ræktunina gildir nokkuð annað. Fyrir nokkru var gefin út sérstök reglugerð um lífrænu framleiðsluna og þar er um að ræða að veita slíkri framleiðslu sérstaka vottun samkvæmt lögum og reglugerð. Þá er hún líka studd úr þeim sjóði sem hv. þm. spurði um. Ég vænti þess að samkvæmt þeirri reglugerð séu gerðar kröfur þær sem við á, bæði um beitiland og annað það sem til þarf til þess að framleiða vörur sem þar er um að ræða, hvort heldur þar er grænmeti eða kjöt eða annað og kemur hvort tveggja til.

Varðandi það sem hv. 4. þm. Austurl. sagði þá hef ég ekki miklu við það að bæta sem ég sagði í svari mínu áðan að við höfum litið á þetta sem tvo aðskilda þætti. Reglugerðin, sem hefur litið dagsins ljós, fjallar um ákveðna þætti en ekki alla eins og ég hef greint frá og hef ekkert fleiri orð um það. Ég þarf ekki heldur að endurtaka viðhorf mitt sem kom skýrt fram í svarinu áðan að strax og við teljum að við höfum til þess haldbærar upplýsingar og traustan grunn sem nauðsynleg eru munum við auðvitað vinna að því að gefa annaðhvort út aðra reglugerð eða þá endurbæta þá sem fyrir er þannig að allir þættir séu teknir þar inn en á þessu stigi er það ekki gert og miðast við búvörulögin, sem við höfum verið að vinna eftir, og ég tel að reglugerðin sem slík geti alveg staðið fyrir sínu þó að hún gæti auðvitað verið víðtækari og tekið á fleiri þáttum.