Átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:31:39 (6633)

1996-05-28 15:31:39# 120. lþ. 149.11 fundur 531. mál: #A átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., Fyrirspyrjandi SF (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:31]

Fyrirspyrjandi (Siv Friðleifsdóttir):

Herra forseti. Ég beini fyrirspurn minni til hæstv. menntmrh. og hún er svohljóðandi:

,,Hefur ráðherra í hyggju að hvetja Ríkisútvarpið til að gera átak í að auka hlut kvenna í fréttum og umræðuþáttum, samanber upplýsingar um rýran hlut kvenna í fréttum í skýrslu félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála?``

Í þessari skýrslu koma fram ýmsar sjokkerandi staðreyndir um hlut kvenna og karla í fréttum sjónvarpsins, t.d. að konur eru einungis 18% viðmælenda fréttamanna Ríkissjónvarpsins. Vafalaust munu fréttamenn að einhverju leyti skýla sér á bak við þá staðreynd að konur eru ekki leiðandi í atvinnulífinu og ekki leiðandi fyrir fjölmörg félagasamtök og því kannski óeðlilegt að þau séu til helminga viðfangsefni fréttanna. Ég tel hins vegar mjög æskilegt að reynt sé að bæta úr þessari stöðu með öllum tiltækum ráðum og vil í því sambandi minna á að norska Ríkissjónvarpið gerði könnun 1991 á hlut kvenna í fréttum og umræðuþáttum. Þar kom í ljós að hlutfall kvenna var um 30% í fréttum og þeir sáu ástæðu til þess að gera átak til þess að leiðrétta það en hér á landi er hlutur karlmanna í fréttum 82% en kvenna 18%.

Það má líka benda á fyrir utan það að konur eru svona fáar viðmælenda þá fá þær oft sérstaka hantéringu fréttamanna svo mann rekur stundum í rogastans þegar maður horfir á fjölmiðla. Það er svo sem hægt að taka ýmis dæmi. Ég nefni eitt dæmi sem við stjórnmálakonur höfum einmitt verið að ræða aðeins okkar á milli, það er frétt sem kom í útvarpinu. Þar var talað um Svavar Gestsson þingflokksformann Alþb. og Rannveigu Guðmundsdóttur Alþfl. sem sýnir að það vantar að titla þegar konur eiga í hlut.

Það má líka minna á frétt þar sem var verið að fjalla um fyrsta kvenflugstjórann í innanlandsfluginu þar sem fréttamaður klykkti út í lok viðtalsins og spurði: ,,Lentir þú flugvélinni sjálf?`` Þetta sýnir svolítið það viðhorf sem konur oft eiga við. Það eru ekki einungis karlmenn sem taka þessi fréttaviðtöl heldur konur líka þannig að ég held að það sé mjög brýnt að gert verði átak í því að leiðrétta hlut kvenna í fréttum af því að konur eru helmingur þjóðarinnar. Ég spyr hæstv. ráðherra hvort hann hafi hug á því að hvetja Ríkisútvarpið til þess að gera átak til að leiðrétta hlut kvenna og ýta þannig á eftir þeirri viðhorfsbreytingu sem verður að eiga sér stað í fjölmiðlaheiminum. Það verður að sýna að konur eru að gera margt jákvætt og ýta þannig undir að konur framtíðarinnar taki þátt í þjóðfélaginu með áberandi hætti.