Átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:35:59 (6635)

1996-05-28 15:35:59# 120. lþ. 149.11 fundur 531. mál: #A átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., AK
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:35]

Arnþrúður Karlsdóttir:

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Siv Friðleifsdóttur fyrir að vekja athygli á þessu máli. Það liggja fyrir opinberar tölur sem sýna ótvírætt að þátttaka kvenna er miklu minni en karla í dagskrárliðum Ríkisútvarpsins, einkum í fréttatímum. Það eru fréttastjórar sem taka ákvörðun um efni og viðmælendur. Þar sem það er staðreynd að fréttastjórar sjónvarps og hljóðvarps eru karlar, það er staðreynd að varafréttastjórar sjónvarps og hljóðvarps eru karlar og sömuleiðis er það staðreynd að allir dagskrárstjórar utan einn eru karlar vil ég hvetja hæstv. menntmrh. til þess að leita leiða sem mættu verða til þess að fjölga konum í hópi þátttakenda í fréttatímum og öðrum dagskrárliðum Ríkisútvarpsins. Ég tel að hann fari ekki inn í innra starf þeirrar stofnunar þó svo hann beiti sér sérstaklega fyrir þessu. Ég held frekar að hæstv. menntmrh. sé að vinna vinnuna sína ef hann gerir það.