Átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:47:18 (6643)

1996-05-28 15:47:18# 120. lþ. 149.11 fundur 531. mál: #A átak í jafnréttismálum hjá Ríkisútvarpinu# fsp. (til munnl.) frá menntmrh., menntmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:47]

Menntamálaráðherra (Björn Bjarnason):

Herra forseti. Fyrirspurnin er þessi: ,,Hefur ráðherra í hyggju að hvetja Ríkisútvarpið til að gera átak í því að auka hlut kvenna í fréttum og umræðuþáttum, samanber upplýsingar um rýran hlut kvenna í fréttum í skýrslu félmrh. um stöðu og þróun jafnréttismála?`` Svar mitt við þessari spurningu var: Nei, ég ætla ekki að hvetja til þess því að ég sé ekki hvaða stöðu ég hef sem menntmrh. til að hvetja Ríkisútvarpið til að auka hlut kvenna í fréttum og umræðuþáttum. Það er alls ekki á verksviði menntmrh. að sinna þessum málum. Það er á verksviði yfirstjórnar Ríkisútvarpsins, útvarpsstjóra og starfsmanna Ríkisútvarpsins. Ef menntmrh. ætlaði að fara að gefa fyrirmæli um það að auka bæri hlut kvenna í fréttum eða umræðuþáttum í útvarpi eða sjónvarpi, þá er hann kominn langt út fyrir verksvið sitt. Þessari spurningu var ég að svara.

Hitt er annað mál að skýrslan sem til var vitnað bendir til þess að hlutur kvenna mætti vafalaust vera betri ef fullt jafnrétti ætti að gilda. En hvernig ætla menn að beita slíkri reglu þegar um fréttir er að ræða og umræðuþætti? Ég átta mig ekki nákvæmlega á því heldur hvernig er unnt að fylgja því fram, sérstaklega í fréttum. Ég var sjálfur í 12 ár blaðamaður og ef ég hefði átt að ákveða og skrifa fréttir með hliðsjón af því hvort það var karla eða kona sem átti hlut að máli, þá hefði ég lent í mjög miklum vandræðum. Fréttir eru þess eðlis að það er ekki unnt að setja í jafnréttislög ákvæði um það að fréttir beri að skrifa á grundvelli jafnréttislaganna þannig að menn verða aðeins að átta sig á því um hvað er verið að ræða. En hitt er ljóst að sem stofnun ber Ríkisútvarpinu að fara að jafnréttislögum og geri hún það ekki, þá getur bæði Alþingi og einnig menntmrh. látið að sér kveða. En fyrirspurnin snerist ekki um það. Hún snerist um allt annað, þ.e. afskipti af fréttum og umræðuþáttum sem ég tel að menntmrh. eigi ekki að hafa afskipti af. Ég hef aldrei heyrt það á Alþingi. Þvert á móti hafa ráðherrar verið gagnrýndir fyrir að fara of langt í slíkum afskiptum. En á þessu þingi hefur hvað eftir annað verið hvatt til þess að menntmrh. beitti valdi sem hann hefur ekki til þess að raska þessum þáttum í starfsemi Ríkisútvarpsins. Ég ætla ekki að gera það og þess vegna endurtek ég það sem ég hef sagt áður þrisvar sinnum nú á þessu þingi.