Endurskoðun lögræðislaga

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 15:59:09 (6648)

1996-05-28 15:59:09# 120. lþ. 149.12 fundur 515. mál: #A endurskoðun lögræðislaga# fsp. (til munnl.) frá dómsmrh., dómsmrh. (svar)
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[15:59]

Dómsmálaráðherra (Þorsteinn Pálsson):

Herra forseti. Það er rétt sem hér hefur verið á minnst að endurskoðun lögræðislaga hefur tekið nokkurn tíma. En ég minni á í því sambandi að hér er um löggjöf að ræða sem mjög mikilvægt er að vanda til því að hún skiptir vitaskuld mjög miklu máli. Þess vegna er mjög mikil þörf á því að vanda til undirbúnings að sérhverjum breytingum sem gerðar eru. En að því er stefnt að þessar breytingar komi fram á haustþinginu og eins og drög að nýju frv. standa nú þá er gert ráð fyrir þessu tímabundna úrræði.

Að því er varðar fyrirspurn hv. 9. þm. Reykv., þá vil ég minna á að skilyrðin um sjálfræðissviptingu varðandi þær aðgerðir sem við erum að tala um eru ekki í lögræðislögum heldur í sérstökum lögum um fóstureyðingar og ófrjósemisaðgerðir. Til þess að breyta þeim skilyrðum þarf að endurskoða þau lög. Mér er ekki kunnugt um að slík endurskoðun sé í gangi í tengslum við endurskoðun lögræðislaganna. Þau lög eru sem sagt á verksviði heilbrrn. En til þess að breyta þessum skilyrðum þarf að koma fram breytingum á þeirri löggjöf. Það dugar ekki eitt og sér að breyta lögræðislögunum.