Útskriftir íbúa Kópavogshælis

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 16:04:00 (6650)

1996-05-28 16:04:00# 120. lþ. 149.13 fundur 516. mál: #A útskriftir íbúa Kópavogshælis# fsp. (til munnl.) frá félmrh., félmrh.
[prenta uppsett í dálka] 149. fundur

[16:04]

Félagsmálaráðherra (Páll Pétursson):

Herra forseti. Ég svara fyrirspurn hv. þm. játandi. Ég hyggst reyna að standa við það samkomulag sem hv. þm. gerði á meðan hún var félmrh. við þáv. heilbrrh. um útskrift 37 einstaklinga af Kópavogshæli yfir í þjónustu á vegum félmrn. gegn því að 37 stöðugildi fylgdu. Þess er vænst að búsetuúrræði og önnur þjónusta liggi fyrir í lok þessa árs fyrir allan þennan hóp eða í síðasta lagi á fyrri árshelmingi næsta árs. Það hefur verið staðið við útskrift á eftirfarandi hátt. Fimmtán manns eru komnir í búsetu á sambýlum. Eitt þeirra er í Reykjavík og eitt á Reykjanesi. Á næstunni munu tveir flytja inn í sambýli sem þegar er stofnsett. Það er verið að leita að hentugu húsnæði fyrir fimm íbúa á Reykjanesi. Þrír íbúar í þessum hópi þurfa að búa í táknmálsumhverfi og það stendur til að kaupa eða leigja íbúð fyrir þau. Það er stefnt að því að koma á fót fimm manna sambýli á Selfossi á þessu ári og liggur fjármagn fyrir til þess. Þá er gert ráð fyrir að við endurúthlutun úr Framkvæmdasjóði fatlaðra í ár eða í ársbyrjun 1997 verði veitt fé til að stofnsetja eitt sambýli til viðbótar vegna útskrifta, en ekki hafði verið gert ráð fyrir því í upphaflegri áætlun. Það er hins vegar nauðsynlegt þar sem ekki hefur tekist að finna önnur úrræði. Í framangreindri áætlun er gert ráð fyrir að staðið verði við útskriftir 37 einstaklinga.

Hv. þm. spurði í lok máls síns um stefnu í framtíðinni. Sú stefna hefur verið mörkuð að færa eftir því sem mögulegt er íbúa á stofnunum út í sambýli eftir því sem fjármagn og geta leyfir. Það er engin breyting fyrirhuguð á þessari stefnu. Þetta er töluvert dýrt mál og kostar verulega fjármuni. Það er hins vegar rétt að nefna það að búsetuúrræði eins og sambýli eða að flytja af stofnun yfir á sambýli þarf ekki endilega að henta öllum. Ég hef heyrt áhyggjur aðstandenda fólks sem búið hefur á stofnun yfir því að þegar það skyndilega breytir um umhverfi þá missi það öryggistilfinningu sem það hefur öðlast á þeirri stofnun sem það hefur búið á kannski um árabil. Það missir að einhverju leyti félagsleg tengsl sem myndast hafa við aðra íbúa á stofnuninni, það er sett í sambýli með fólki sem það hefur kannski ekki frá fyrri tíð haft nein félagsleg tengsl eða vinskap við. Þannig að það er ekkert alveg einfalt í þessu máli. En ég lít svo á að okkur beri skylda til að reyna að hlynna að þessum minnstu bræðrum eftir því sem við höfum vit og getu til. Það er mitt svar við spurningu hv. þm.