Húsnæðisstofnun ríkisins

Þriðjudaginn 28. maí 1996, kl. 17:27:08 (6662)

1996-05-28 17:27:08# 120. lþ. 150.7 fundur 407. mál: #A Húsnæðisstofnun ríkisins# (félagslegar eignaríbúðir) frv. 76/1996, Frsm. KÁ (flutningsræða)
[prenta uppsett í dálka] 150. fundur

[17:27]

Frsm. félmn. (Kristín Ástgeirsdóttir):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti félmn. um frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins. Þetta frv. gengur út á það að hér er verið að fara að tillögum nefndar sem sett var á laggir til að finna leiðir til úrbóta hjá þeim sveitarfélögum sem sitja uppi með auðar félagslegar íbúðir. Nefndin lagði til í sínu frv. að annars vegar væri heimilt að breyta eignaríbúðum í félagslegar kaupleiguíbúðir, hins vegar að heimilt yrði að rýmka tekjumörk einstaklings.

Í 2. gr. frv. er leitað heimildar til þess að húsnæðismálastjórn geti samþykkt frestun á afborgun lána til Byggingarsjóðs verkamanna.

Nefndin leggur aðeins til eina breytingu á frv. og hún er sú að í stað orðanna ,,félagslega kaupleiguíbúð`` í fyrri málsl. a-liðar 1. gr. komi: félagslega eða almenna kaupleiguíbúð. Þetta þýðir, hæstv. forseti, að sveitarfélag getur einfaldlega staðið frammi fyrir því vali að breyta íbúð, þ.e. eignaríbúð, en slíkar íbúðir voru áður kallaðar verkamannabústaðir, í annaðhvort félagslega eða almenna kaupeiguíbúð eftir því hvernig á stendur, þ.e. að sveigjanleikinn sé til staðar þótt auðvelt sé að ímynda sér að í flestum tilvikum sé auðveldari leið fyrir sveitarfélögin að koma íbúðinni í leigu.

Ég ætla aðeins að víkja að því, hæstv. forseti, að í upphaflegu frv. er að finna lista yfir auðar íbúðir hjá sveitarfélögum landsins. Eins og vænta má hefur auðvitað orðið töluverð breyting á frá því að sá listi var tekinn saman. Það var að berast nýr listi frá Húsnæðisstofnun sem sýnir að fjöldi þeirra íbúða sem standa auðar hefur ekki minnkað þegar á heildina er litið og reyndar aukist, en það eru verulegar tilfærslur á milli sveitarfélaga. Hér er því um að ræða ástand sem breytist nánast frá mánuði til mánaðar. Það er t.d. athyglisvert að skoða bæ eins og Bolungarvík. Þeir sem tóku þátt í 1. umr. minnast þess kannski að þá vakti sérstaka athygli hversu margar auðar íbúðir voru í Bolungarvík. Þá voru auðar íbúðir lengur en í tvo mánuði 27. Þær eru núna komnar niður í 14. Þá voru 11 íbúðir sem höfðu verið auðar lengur en í sex mánuði. Þær eru 14 núna. Þá var ein íbúð sem hafði staðið auð lengur en í eitt ár, en nú er engin slík. Þarna hefur því orðið nokkur breyting á og það sama gildir um ýmis önnur sveitarfélög. Til dæmis vekur athygli hversu íbúðum hefur fjölgað í Vestmannaeyjum þannig að hér er auðvitað margt sem spilar inn í. En hæstv. forseti, þetta frv. gengur út á að gefa sveitarfélögunum heimild til þess að bregðast við eftir því hverjar þarfirnar eru og nefndin er sammála um að leggja til að þetta frv. verði samþykkt með þeirri breytingu sem ég gerði grein fyrir áðan og undir nefndarálitið rita allir nefndarmenn.